Geta saman fært fjöll

Kvennafrídagur | 24. október 2023

Geta saman fært fjöll

„Þótt baráttan virðist stundum erfið og það geti reynst auðveldara fyrir okkur í daglegu amstri að horfa fram hjá misrétti sem við búum við eða sjáum í kringum okkur þá getum við saman fært fjöll.“

Geta saman fært fjöll

Kvennafrídagur | 24. október 2023

„Að minnsta kosti 40% kvenna verður fyrir kynbundnu og kynferðislegu …
„Að minnsta kosti 40% kvenna verður fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi í þessari svokölluðu jafnréttisparadís sem Ísland á að vera,“ sagði Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þótt baráttan virðist stundum erfið og það geti reynst auðveldara fyrir okkur í daglegu amstri að horfa fram hjá misrétti sem við búum við eða sjáum í kringum okkur þá getum við saman fært fjöll.“

„Þótt baráttan virðist stundum erfið og það geti reynst auðveldara fyrir okkur í daglegu amstri að horfa fram hjá misrétti sem við búum við eða sjáum í kringum okkur þá getum við saman fært fjöll.“

Þetta sagði Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í ræðu sinni  við Arnarhól í Reykjavík í dag vegna kvennaverkfallsins.

„Við þorum, við viljum og við getum,“ hóf Guðbjörg ræðu sína. Hún sagði að konur og kvár væru saman komin til þess að krefjast aðgerða til þess að binda enda á kynbundið misrétti sem birtist með mismunandi hætti á hverjum einasta degi.

„Við, konur og kvár, búum við meiri mótvind en karlar og það er staðreynd. Að minnsta kosti 40% kvenna verður fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi í þessari svokölluðu jafnréttisparadís sem Ísland á að vera,“ sagði Guðbjörg.

„Ofbeldi og áreitni eru ekki einangruð samskipti milli gerenda og þolenda heldur sögulegt, kerfisbundið misrétti og valdaójafnvægi sem er okkur hættulegt og jafnvel lífshættulegt. Það er hættulegt að vera kona og það er enn hættulegra að vera kona af erlendum uppruna, fötluð eða trans kona.“

„Fokk feðraveldið!

Guðbjörg sagði að sama kerfisbundna valdaójafnvægið valdi líka gífurlegu vanmati á störfum kvenna, bæði á vinnumarkaði og heima fyrir.

Þetta vanmat hafi bein áhrif á fjárhagslegt öryggi kvenna og geri það að verkum að stórir hópar kvenna búi ekki við fjárhagslegt öryggi, þrátt fyrir að vinna fullt starf.

„Þess vegna segjum við saman: „Fokk feðraveldið!“.“

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Sigurður Bogi

Illa launuð ómissandi störf

„Ég hef lengi tilheyrt stórri kvennastétt. Og það sem einkennir störf okkar, rétt eins og öll önnur kvennastörf, er að þau fela gjarnan í sér persónuleg samskipti, mikla ábyrgð og tilfinningalegt álag þar sem hlaupið er hratt og sköpuð eru óáþreifanleg verðmæti.

Það er engin tilviljun að umönnunar- og menntastörf séu svona illa launuð, eða að þetta séu störfin sem er erfiðast að fá fólk til að starfa við, sem leiðir til þess að of fá standa vaktina, starfsmannavelta er mikil og álagið er að sliga fólk.

Þetta eru meðal annars störfin sem halda velferðarsamfélaginu okkar gangandi á hverjum degi, eins og sást svo glöggt í Covid-faraldrinum og núna þegar ekki allir hafa tækifæri til að taka þátt hér í dag, þar sem við erum ómissandi. Og fyrir ykkur sem eruð á vaktinni: Við erum hér í dag fyrir okkur öll.“

Ofbeldissamélag sem vanmetur störf kvenna

Guðbjörg sagði vinnu kvenna oft vera ósýnlega og vanmetna, hvort sem um er að ræða launaða vinnu eða ólaunaða.

„Svo komum við heim og önnumst börnin, ættingjana og heimilið. Og þegar fyrstu og annarri vaktinni loksins lýkur, þá tekur sú þriðja við. Sem margir karlar viðurkenna ekki einu sinni að sé til.

Ofan á þetta allt saman bætist svo andlegt eða líkamlegt kynbundið ofbeldi eða áreitni.
Kallarðu þetta jafnrétti?,“ spurði Guðbjörg.

„Við erum margar, við erum mörg. Við sættum okkur ekki við að búa í ofbeldissamfélagi sem vanmetur störf kvenna á kerfisbundinn hátt.

Við krefjumst samfélags sem greiðir laun í samræmi við þau verðmæti sem störfin skapa, sem tryggir konum og kvárum öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi, og tryggir fólki jafna möguleika í lífinu. Samfélags þar sem karlmenn sinna annarri og þriðju vaktinni til jafns við okkur, og þar sem gerendur eru látnir sæta ábyrgð á gjörðum sínum.“

mbl.is