„Það þýðir ekki að vinna að jafnrétti bara eins hóps. Við verðum að vinna að því þvert á hópa svo að við fáum jafnrétti allra en ekki tveggja hópa“
„Það þýðir ekki að vinna að jafnrétti bara eins hóps. Við verðum að vinna að því þvert á hópa svo að við fáum jafnrétti allra en ekki tveggja hópa“
„Það þýðir ekki að vinna að jafnrétti bara eins hóps. Við verðum að vinna að því þvert á hópa svo að við fáum jafnrétti allra en ekki tveggja hópa“
Þetta segir Mars Proppé, stærðfræðikennari við Menntaskólann í Reykjavík, um mikilvægi frídags kvenna og kvára en mörg þúsund konur og kvár voru saman komin á Arnarhóli í dag til að mótmæla.
Mars segir að hán hafi fyrst tekið þátt í deginum þegar hán var sjö ára og bætir við að dagurinn sé ein mikilvægasta hefðin í sínu lífi. Hán tekur þó fram að kvennafrídagurinn í dag sé einstaklega sérstakur þar sem kvár eru hluti af deginum í fyrsta sinn.
„Við höfum fengið mikið stærri sess við borðið. Þetta er mikill áfangi með því að vera tekin með inn í reikninginn og ég er mjög þakklátt fyrir það.“
Mars ítrekar mikilvægi þess að kvár og hinseginfólk sé hluti af baráttunni og segir kvennafrídaginn vera gott tækifæri til að sækjast eftir enn frekara jafnrétti fyrir stærri hóp. Hán fagnar því að bæði hópar kvenna og kvár taki höndum saman og krefjist jafnréttis á vinnumarkaðnum.
„Kvennafrídagurinn hefur sögulega alltaf verið til þess að framfleyta réttindum kvenna en núna erum við mikið stærra mengi sem við erum að pæla í. Það hefur verið svolítið í deiglunni undanfarin ár að sameina meira hinseginbaráttuna og kvennabaráttuna því þær eiga rosalega mikið sameiginlegt,“ segir hán.
Spurt hvar hallar helst á kvár á vinnumarkaðnum á þessari stundu bendir Mars á að það vanti allar tölulegar upplýsingar um stöðu kvára á vinnumarkaði.
„Það er bæði því að það er tiltölulega stutt síðan að kvár gátu skráð sig opinberlega, það er stutt síðan það var hægt að safna gögnum. Það er líka staðreynd að kvárum líður ekki alltaf eins og þau geti opinberlega verið úti á sínum vinnustað.
Helsta vandamálið er að hatursorðræða og fordómar og fáfræði tekur svo mikið pláss að transfólki og kvárum líður ekki alltaf eins og það geti verið opinbert með hinseginleikann sinn á vinnustaðnum.“
Hán segir mikilvægt að grafa undan kynjatvíhyggjunni á vinnustöðum og fleiri stöðum í samfélaginu. Hán bendir á að fyrsta skrefið sé að gera ráð fyrir að kvár séu til og stuðla þá að breyttri orðræðu á vinnustöðum og breyttum innviðum með viðeigandi salernisaðstöðu og búningsklefum.
Spurt hvað sé hægt að gera til að stuðla að jafnrétti fyrir kvár á vinnumarkaðnum og samfélaginu segir hán að aukin fræðsla skipti þar höfuðmáli. Hán bendir á að fræðsla sé lukkulega komin langt í skólakerfinu en bendir á að skortur sé á fræðslu á öðrum vígstöðvum. Hán nefnir sem dæmi vinnustaði og fleiri stofnanir.
„Því fleiri skref sem við tökum fram því fleiri hluta af misréttinu sjáum við. Þegar þetta var fyrst haldið þá gekk þetta út á launamun og þriðju vaktina en við erum á allt öðrum stað núna. Það hafa orðið stakkaskipti í því hvernig samfélagið lítur út en samt erum við að berjast fyrir þessum sömu hlutum því þeir eru ekki enn þá komnir. Þó okkur hafi farið fram þá er það ekki það gott svo að við getum lagt skiltin niður og hætt að mæta. Við eigum langt í land fyrst að við erum ekki farin að haka í kassana sem við byrjuðum með.“
Mars hvetur að lokum fólk til að kynna sér málefni kvára og bendir á að hægt sé að fletta því upp á vefsíður Samtakanna '78 og kynna sér hvernig eigi að beygja orð og hugtök sem tengjast kynsegin einstaklingum.
„Það er fullkomlega skiljanlegt að kunna ekki alla þessa hluti en það er engin afsökun fyrir því að fletta þessu ekki upp. Svo gerið rannsóknarvinnuna ykkar.“