Þórunn Arna Kristjánsdóttir hefur látið mikið að sér kveða sem leikkona og leikstjóri í íslensku leikhússenunni síðastliðin ár. Hún vann hug og hjörtu landsmanna í hlutverki sínu sem hin lífsglaða og ævintýragjarna Sophie í söngleiknum Mamma Mia! sem sýndur var á fjölum Borgarleikhússins við miklar vinsældir.
Þórunn Arna Kristjánsdóttir hefur látið mikið að sér kveða sem leikkona og leikstjóri í íslensku leikhússenunni síðastliðin ár. Hún vann hug og hjörtu landsmanna í hlutverki sínu sem hin lífsglaða og ævintýragjarna Sophie í söngleiknum Mamma Mia! sem sýndur var á fjölum Borgarleikhússins við miklar vinsældir.
Þórunn Arna Kristjánsdóttir hefur látið mikið að sér kveða sem leikkona og leikstjóri í íslensku leikhússenunni síðastliðin ár. Hún vann hug og hjörtu landsmanna í hlutverki sínu sem hin lífsglaða og ævintýragjarna Sophie í söngleiknum Mamma Mia! sem sýndur var á fjölum Borgarleikhússins við miklar vinsældir.
Um þessar mundir er hún á fullu að undirbúa fjölskyldusöngleikinn Fíasól gefst aldrei upp sem byggir á vinsælum bókaflokki Kristínar Helgu Gunnarsdóttur. Fíasól og vinir hennar mæta til leiks 2. desember næstkomandi og því mikil vinna fram undan fyrir Þórunni Örnu, leikstjóra sýningarinnar, og að sjálfsögðu til mikils að hlakka.
Samhliða leikhúslífinu rekur hún ásamt sambýlismanni sínum, Vigni Rafni Valþórssyni leikara, hæfilega mannmargt og erilsamt heimili, en parið á tvær ungar dætur, þær Kríu Valgerði og Bríeti Ebbu.
Þórunn Arna gaf sér tíma til að svara nokkrum spurningum um vetrarfríið, sem nú er gengið í garð, og hvort það sé eitthvað skemmtilegt á dagskrá hjá fjölskyldunni.
Hvað ætlið þið að gera með börnunum í vetrarfríinu?
„Þegar mamma þarf að vinna þá þarf maður að reiða sig á fólkið í kringum sig og reyna að gera hversdaginn ævintýralegan. Ég er núna á fullu að æfa Fíusól og yngri dóttir mín fær að koma með mér í vinnuna og vera aðstoðarleikstjóri í einn dag, sem er frábært fyrir okkur. Það er mjög hjálplegt að heyra skoðanir barna á því sem við erum að gera. Dætur mínar eiga báðar þónokkrar hugmyndir sem eru í sýningunni.
Ég þarf að reiða á ömmur og afa, sem eru ómissandi fyrir börn sem eiga foreldra sem eru að vinna í vetrarfríinu. Afi er til dæmis búinn að bjóða í bíó og það verður örugglega keyptur ís á eftir ef ég þekki hann rétt. Og síðast en ekki síst stefnum við á að halda gott hrekkjavökupartí á sunnudaginn,“ útskýrir Þórunn Arna.
Hvað finnst ykkur skemmtilegast að gera saman?
„Eitt af því sem okkur þykir rosalega skemmtilegt er að halda alls kyns partí og bjóða vinum stelpnanna í heimsókn. Þar er það stemningin sem skiptir mestu máli og sameiginlegur undirbúningur fjölskyldunnar fyrir partíið.
Heimilið okkar er yfirleitt fullt af börnum sem eru að leika sér en þegar við höldum partí þá er sérstök hátíðarstemning. Partíin hafa verið ýmiss konar í gegnum tíðina en alltaf jafn skemmtileg. Við höfum haldið jólaball, hrekkjavökupartí, páskapartí, Eurovision-partí og bara eiginlega allt sem okkur dettur í hug að setja í sparibúning,“ segir Þórunn Arna, en aðspurð segir hún þetta færa fjölskyldunni mjög mikla gleði og skapa ógleymanlegar minningar.
„Á móti öllu partístandinu þá elskum við líka að eiga rólegar samverustundir saman. Margar bestu stundirnar eru þegar við förum upp í bústað, þar virðist tíminn standa í stað. Ekkert skutl og enginn hasar, bara við að láta dagana líða saman. Það er eiginlega það besta af öllu og rosalega dýrmætt að geta stimplað sig aðeins út,“ segir Þórunn Arna, sem er búin að lofa sjálfri sér að eiga rólegan desember í faðmi fjölskyldunnar.