Skyndilega heyrðist ókennilegt hljóð

Sagan með augum Morgunblaðsins | 9. nóvember 2023

Skyndilega heyrðist ókennilegt hljóð

Landhelgisgæslan minntist þess með sérstakri minningarstund í Jökulfjörðum í gær að 40 ár voru liðin frá því að björgunarþyrlan TF-RAN fórst í æfingaflugi í Jökulfjörðum að kvöldi 8. nóvember 1983.

Skyndilega heyrðist ókennilegt hljóð

Sagan með augum Morgunblaðsins | 9. nóvember 2023

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar minntist áhafnarinnar á TF-RAN, sem fórst í Jökulfjörðum …
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar minntist áhafnarinnar á TF-RAN, sem fórst í Jökulfjörðum 8. nóvember árið 1983, með sérstakri minningarstund við Jökulfjörð í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Landhelgisgæslan minntist þess með sérstakri minningarstund í Jökulfjörðum í gær að 40 ár voru liðin frá því að björgunarþyrlan TF-RAN fórst í æfingaflugi í Jökulfjörðum að kvöldi 8. nóvember 1983.

Landhelgisgæslan minntist þess með sérstakri minningarstund í Jökulfjörðum í gær að 40 ár voru liðin frá því að björgunarþyrlan TF-RAN fórst í æfingaflugi í Jökulfjörðum að kvöldi 8. nóvember 1983.

Áhöfn TF-GNA lenti í gær skammt frá slysstaðnum þar sem hún lagði blómsveig í fjöruborðið til minningar um þá sem fórust í slysinu; Björn Jónsson flugstjóra, Þórhall Karlsson flugstjóra, Bjarna Jóhannesson flugvirkja og Sigurjón Inga Sigurjónsson stýrimann. Er þetta mannskæðasta slys í sögu Landhelgisgæslunnar.

Eftir umfangsmikla leit og björgunaraðgerðir tókst viku síðar að hífa …
Eftir umfangsmikla leit og björgunaraðgerðir tókst viku síðar að hífa flakið af TF-RAN um borð í Óðin sem sigldi með það til Reykjavíkur Morgunblaðið

Hinsta ferðin

Varðskipið Óðinn var statt við æfingar undan Höfðaströnd í Jökulfjörðum þennan örlagaríka dag. TF-RAN lagði af stað vestur frá Reykjavík á hádegi, tók eldsneyti á Ísafirði og lenti á pallinum á Óðni um sexleytið. Áhöfnin snæddi um borð og hvíldi sig áður en farið var í æfingaflug síðar um kvöldið. Rán hóf sig á loft frá Óðni kl. 22.53 en æfa átti hífingar upp í þyrluna í myrkri og fara í flug um Djúpið. Þeirri hinstu för lauk nokkrum mínútum síðar.

Fyrsta frásögn um slysið birtist á forsíðu Morgunblaðsins daginn eftir, 9. nóvember. Þar var haft eftir Gunnari Bergsteinssyni, þá forstjóra Landhelgisgæslunnar, að þremur mínútum eftir að Rán fór frá skipinu hefði heyrst frá henni örstutt kall í talstöðinni og síðan ekkert meira.

Nöfn mannanna birtust á baksíðu Morgunblaðsins þegar leitin stóð yfir. …
Nöfn mannanna birtust á baksíðu Morgunblaðsins þegar leitin stóð yfir. Lík Þórhalls og Bjarna voru í flakinu þegar tókst að komast að því, lík Sigurjóns kom í leitirnar í janúar 1989 en lík Björns hefur ekki fundist. Morgunblaðið

Prentað um miðja nótt

Það var ekki sjálfgefið að Morgunblaðið væri með fréttina svo skömmu eftir slysið. Í síðasta löggutékki undir miðnætti á kvöldvaktinni varð Ólafur E. Jóhannsson blaðamaður þess áskynja í símtali við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að eitthvað var að, en hikandi röddu var honum sagt að ekkert væri að frétta. Ólafur, sem kominn er á ný til starfa á Morgunblaðinu, segist hafa heyrt í símtalinu að það hafi verið mikill atgangur í kringum þann starfsmann Gæslunnar sem hann talaði við. Ólafur hringdi nokkur símtöl í viðbót, m.a. til Hannesar Hafsteins hjá Slysavarnafélaginu, sem staðfesti að TF-RAN hefði farist.

„Þá fór allt í gang hjá okkur til að ná fréttinni í blaðið,“ segir Ólafur en vakthafandi fréttastjóri þá var Freysteinn Jóhannsson heitinn. Í samráði við ritstjóra ákvað Freysteinn að bíða með prentun og halda eftir forsíðunni. Unnið var við að afla fregna fram á miðja nótt, en um tvöleytið fannst brak úr þyrlunni. Á þriðja tímanum fór blaðið í prentun.

Umfangsmikil leit fór í gang fyrir vestan þar sem björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum voru kallaðar út, auk þess sem nærstaddir bátar fóru til leitar ásamt flugvélum frá Varnarliðinu og Flugmálastjórn og síðar bættist við þyrla frá danska varðskipinu Vædderen. Brak úr þyrlunni fannst um hálfa mílu undan landi milli Veiðileysufjarðar og Lónafjarðar í Jökulfjörðum. Enginn úr áhöfninni hafði þá fundist, samkvæmt frétt Morgunblaðsins 9. nóvember. Kom línubáturinn Orri fyrst að brakinu en tugir báta tóku þátt í leitinni.

Leit hélt áfram morguninn eftir slysið, bæði á sjó og landi, þar sem fjörur voru gengnar neðan eyðibýlisins Kvía, við erfiðar aðstæður í bröttum fjallshlíðum og hætta var á snjóskriðum. Ítarleg frásögn af leitinni birtist svo í Morgunblaðinu 10. nóvember og næstu daga en vestur fóru Hjálmar Jónsson blaðamaður og ljósmyndararnir Ragnar Axelsson og Friðþjófur Helgason. Bátur var leigður á Ísafirði sem sigldi með Morgunblaðsmenn að vettvangi. Ræddi Hjálmar m.a. við Höskuld Skarphéðinsson, skipherra á Óðni, um borð í varðskipinu á meðan leit stóð enn yfir.

Ítarlegri frásögn er að finna í Morgunblaðinu í dag, 9. nóvember.  

Á heimleið TF-GNA frá Jökulfjörðum í gær birti um stund …
Á heimleið TF-GNA frá Jökulfjörðum í gær birti um stund yfir slysstaðnum og náði árni þessu sérstaka augnabliki á mynd. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is