Það er föstudagur og þá er pitsakvöld á mörgum heimilum. Ef þú ert í stuði fyrir örlítið öðruvísi pitsu þá er þessi hér, sem kemur úr smiðju Snorra Guðmundsson matgæðings, klárlega málið.
Það er föstudagur og þá er pitsakvöld á mörgum heimilum. Ef þú ert í stuði fyrir örlítið öðruvísi pitsu þá er þessi hér, sem kemur úr smiðju Snorra Guðmundsson matgæðings, klárlega málið.
Humarinn og reykt chorizo-bragðið parast svakalega vel á móti sætunni í ananasnum, passið bara að velja góðan ananas, og hitanum frá sterka majónesinu og chiliflögunum.
Þessi rífur svo sannarlega í og pitsakvöldið verður alveg frábært. Hægt er að fylgjast með því sem Snorri er að elda á heimasíðu hans Matur og myndir.
Sterk humar- og chorizopitsa
- 1 pitsabotn að eigin vali (400 g) eða uppáhalds pitsadeigs-uppskriftin hans Snorra hér
- 100 g skelflettur humar
- 60 sterkt chorizo
- 150 g mozzarellaostur
- 1 hvítlauksrif
- 150 ml pitsasósa að eigin vali, Snorra finnst Mutti best
- 6 g basilíka eða meira, fer eftir smekk
- 50 g ananasbitar ef vill
- 50 g japanskt majónes
- 10 ml srirachasósa
- 5 ml chiliflögur
- Smjör eftir smekk
- Salt eftir smekk
Aðferð:
- Takið pitsabotninn úr kæli að minnsta kosti 1 klukkustund áður en elda á pitsuna.
- Setjið pitsastein í neðstu grind í ofni og stillið á hæsta hita, 300°C helst.
- Látið steininn hitna á meðan unnið er í öðru.
- Hrærið srirachasósu saman við japanskt majónes.
- Þerrið humarinn og hreinsið dökku röndina sem liggur endilangt yfir humarinn úr ef þarf.
- Hitið smá olíu á pönnu við háan hita.
- Bætið humarhölum út á pönnuna, pressið hvítlauk og setjið á pönnuna ásamt smjörklípu. Steikið humarinn í um 2 mínútur eða þar til hann er fulleldaður.
- Saltið smá ef vill.
- Notið hendurnar til þess að fletja pitsabotninn út í um 15“ hring og leggið svo á bökunarpappír.
- Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 1,5 cm af kantinum við sem mestu hnjaski, en þannig er gasinu ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist mun betur.
- Skerið chorizo í fernt.
- Smyrjið pitsasósu yfir botninn og dreifið mozzarellaosti svo yfir.
- Raðið humri, chorizo, ananas og chiliflögum á pitsuna.
- Færið pitsuna á pitsasteininn og bakið þar til pitsan er fallega gyllt og ljúffeng.
- Saxið basilíku og stráið yfir pitsuna ásamt sterku majónesi þegar hún kemur úr ofninum.
- Njótið við kertaljós og huggulegheit.