Þung umferð í borginni kemur ekki á óvart

Sundabraut | 10. nóvember 2023

Þung umferð í borginni kemur ekki á óvart

Reykjavíkurborg bindur vonir við að uppfærslu samgöngusáttmálans sem hófst í mars fari senn að ljúka.

Þung umferð í borginni kemur ekki á óvart

Sundabraut | 10. nóvember 2023

Dagur B Eggertsson borgarstjóri á fundinum í morgun.
Dagur B Eggertsson borgarstjóri á fundinum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Reykjavíkurborg bindur vonir við að uppfærslu samgöngusáttmálans sem hófst í mars fari senn að ljúka.

Reykjavíkurborg bindur vonir við að uppfærslu samgöngusáttmálans sem hófst í mars fari senn að ljúka.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindi frá þessu á fundi um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Hann sagði áskoranir hafa verið uppi vegna hækkandi verðlags, auk þess sem uppfærslan veitti borginni tækifæri til að þétta áætlunina. 

„Algjör lykilþáttur“

Hann sagði borgina vita meira núna um áætlanir stjórnvalda varðandi loftslagsmál ásamt samspili einstakra framkvæmda á framkvæmdatíma, auki þess sem hún hefði dýpkað sýnina á markmið sáttmálans.

„Það sem stendur upp úr er að almenningssamgöngur og efling þeirra er algjör lykilþáttur ef ekki á að verða stóra stopp í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu,” sagði Dagur.

Fundargestir í morgun.
Fundargestir í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölgun íbúa í takt við spá

Hann vitnaði í mannfjöldaspá Hagstofu Íslands um að fjölga myndi á höfuðborgarsvæðinu um 70 þúsund manns frá 2013 til 2040 og sagði að nú þegar hefði íbúum þar fjölgað um 48 þúsund.

Dagur sagði umferðarálag á stofnbrautum hafa aukist gríðarlega, rétt eins og borgin hefði búist við miðað við spána. Það kæmi því ekki á óvart. Einnig nefndi hann að ferðamönnum hefði fjölgað og sömuleiðis bílaleigubílum í umferðinni, sem þýddi gríðarlega aukningu í notkun bílastæða.

Jafnframt sagði hann samgöngusáttmálann vera stórt loftslagsmál og ef ekki kæmi til hans væru stjórnvöld „algjörlega að klikka” í loftslagsmálum.

110 ábendingar vegna Sundabrautar

Borgarstjórinn fór yfir verkefni sem eru á teikniborðinu, þar á meðal frumhönnun vegna Miklubrautar í stokk og Sundabraut. „Það er ljóst strax að sitt sýnist hverjum,” sagði hann um síðarnefnda verkefnið og benti á að 110 ábendingar vegna Sundabrautar væru komnar í samráðsgátt. Borgin hefði sett saman samráðshóp þar sem íbúar taka þátt.

Dagur sagði borgina metnaðarfulla varðandi breyttar ferðavenjur og sagði hana bera sig saman við borgir á borð við Strassborg í Frakklandi.

Hann benti einnig á að deiliskipulag vegna fyrstu lotu Borgarlínu yrði kynnt innan tíðar og sagði að nýtt leiðarnet Strætó fela í sér mikla þjónustuaukningu.

Bylting í þjónustu Strætó

„Við erum að bjóða um 19% íbúa upp á þjónustu í leiðarkerfi á a.m.k. 10 mínútna fresti á annatíma en förum yfir í 66% íbúa með nýju leiðarkerfi. Þetta er ekkert annað en bylting,” greindi borgarstjórinn frá. Aðstaða við strætóstoppistöðvar verður einnig bætt. 

Dagur sagði hjólreiðar í borginni hafa farið frá því að vera með 0,5% hlutdeild í ferðamátum um aldamótin upp í 7% núna.

Hjól fyrir utan Ráðhús Reykjavíkur.
Hjól fyrir utan Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Nánast enginn á móti göngugötum

Sömuleiðis talaði hann um að borgin hefði innleitt göngugötur í skrefum.

„Á þessum 12 árum sem við fórum að innleiða þetta hafa verið ótrúlega margar fréttir af þessu sem deilumál en hægt og hljóðlega eru borgarbúar búnir að klára þetta mál í sínum huga. Það er nánast enginn eftir sem er á móti göngugötum,” sagði Dagur og bætti við að samkvæmt könnunum væri það helst fólk sem hefði ekki upplifað þær.

„Fjöldi gangandi á Laugavegi er að stóraukast,” sagði hann og bætti við að regnboginn yrði áfram á Skólavörðustíg og einnig að næsta skref væri að öll Kvosin yrði göngusvæði.

mbl.is