Áhöfnin á varðskipinu Þór fann vel fyrir þeim skjálftum sem riðu yfir aðfaranótt laugardags. Skipið nötraði þegar stórir skjálftar sendu af stað hljóðbylgjur og skullu á fleyinu.
Áhöfnin á varðskipinu Þór fann vel fyrir þeim skjálftum sem riðu yfir aðfaranótt laugardags. Skipið nötraði þegar stórir skjálftar sendu af stað hljóðbylgjur og skullu á fleyinu.
Áhöfnin á varðskipinu Þór fann vel fyrir þeim skjálftum sem riðu yfir aðfaranótt laugardags. Skipið nötraði þegar stórir skjálftar sendu af stað hljóðbylgjur og skullu á fleyinu.
Eldgos er talið yfirvofandi og beina jarðvísindamenn sjónum sínum að svæði norðvestan við Grindavík. Þeir hafa þó ekki útilokað eldgos á hafsbotni og þótti það líklegur möguleiki á laugardag.
Þór er í viðbragðsstöðu utan Grindavíkur eins og hann hefur verið frá því seint að kvöldi föstudags. Skipherrann segir áhöfnina rólega og varðskipið í öruggri fjarlægð frá því svæði þar sem kvikugangurinn liggur.
Á föstudagskvöldið barst Landhelgisgæslunni beiðni um að varðskipið Þór yrði til taks við Grindavík. Kröftug skjálftahrina hófst fyrr um daginn og skók hvert einasta hús í bænum. Fjöldi Grindvíkinga hafði þegar tekið föggur sínar saman og haldið af stað úr bænum.
„Við fengum útkallið klukkan sjö, við vorum þá í Reykjavík, nýkomnir úr túr,“ segir Páll Geirland, skipherra á Þór.
„Útkallið snerist um að fara til Grindavíkur og gefa rafmagn og vera til taks. Upphaflega var það planið að fara að bryggju og tengja okkur við spennu sem er þar svo við gætum hafið rafmagnsframleiðslu.“
Áhöfnin lagði af stað frá Reykjavík klukkan korter í ellefu um kvöldið. Á tólfta tímanum tilkynntu almannavarnir að neyðarstigi hefði verið lýst yfir og að Grindavíkurbær yrði rýmdur.
Og þá er verkefnið ykkar kannski svolítið breytt?
„Já, þá fóru hlutirnir að breytast aðeins. Þá fórum við ekki að bryggju. Við erum búnir að vera siglandi hér fram og til baka að fylgjast með síðan þá.“
Þrátt fyrir að vera úti á hafi var áhöfnin ekki laus við áhrif jarðskjálftanna sem hafa gert Grindvíkingum lífið leitt undanfarna viku.
„Þegar við komum hingað, aðfaranótt laugardagsins, þá fengum við alveg fjóra góða skelli á skipið. Það voru greinilega jarðskjálftar hérna fyrir utan. Það nötraði allhressilega skipið. Það myndast hljóðbylgjur í sjónum við skjálftana,“ segir Páll
„Maður er ekkert vanur því að fá svona. En eftir að við færðum okkur hérna megin við Hópsnesið höfum við ekki fundið fyrir neinu.“
Atburðarásin á föstudagskvöld og aðfaranótt laugardags var vægast sagt hröð og ófyrirséð. Á tólfta tímanum bárust upplýsingar um að kvikugangurinn sem hafði myndast væri mögulega kominn að Grindavíkurbæ. Var bærinn þá formlega rýmdur og neyðarstigi lýst yfir.
Um klukkan fjögur, aðfaranótt laugardags, ákváðu almannavarnir svo að kalla alla viðbragðsaðila út úr bænum á grundvelli gagna Veðurstofu Íslands sem sýndu aukna skjálftavirkni til suðurs af Grindavík. Var áhöfn Þórs einnig beðin um að færa skipið utar og fjær bænum af sömu ástæðum.
Hann segir áhöfnina nokkuð örugga þar sem skipið er staðsett núna.
„Ef það kemur sprengigos, eða ef það gerist eitthvað, þá fer það allt til vesturs, og við erum austan megin við.“
Þið eruð ekki með neina ónotatilfinningu í maganum þegar þið farið að sofa?
„Nei. Svo auðvitað er alltaf fólk í brúnni hjá okkur þannig að ef að það byrjar þá verður hringt í mann og þá auðvitað gerum við ráðstafanir, færum okkur ef að þarf. Við erum mjög meðfærileg.“
Að sögn Páls liggur ekki fyrir hvað varðskipið gæti þurft að vera lengi í viðbragðsstöðu við Grindavík.
„Brytinn okkar bara skaust í Hagkaup á föstudaginn og náði í eitthvað smá sem á að duga í tvo-þrjá daga.“
Þannig þið vitið ekki hvað þið þurfið að vera lengi?
„Það hefur ekki verið rætt við okkur. Á meðan við erum til taks þá verðum við hér og svo bara fáum við að vita deginum á undan. Freyja er hérna á sjó líka, mögulega getur hún komið og leyst okkur af.“
Páll rifjar upp að gæslan hafi oft þurft að vera til taks fyrir íbúa á landsbyggðinni vegna krefjandi aðstæðna og náttúruhamfara.
„Við vorum á Neskaupstað og Seyðisfirði þegar allt var í gangi nú í vetur, þegar snjóflóðin féllu. Þar vorum við til taks og þá vorum við með 20 björgunarsveitarmenn um borð, öryggishóp sem við fluttum á milli. Svo erum við búin að vera vegna snjóflóðahættu á Vestfjörðum, þar erum við búin að vera til taks á Flateyri og fleiri stöðum. Við erum nýttir í alls konar svona hluti.“
En ekki við aðstæður þar sem möguleiki er á sprengigosi á hafsbotni?
„Nei, en þeir eru nú líka farnir að draga í land með það. Nú virðist þetta vera komið á land aftur,“ segir Páll og bætir við: „En svo auðvitað í gamla daga þegar Surtsey gaus þá auðvitað voru varðskipin þar.“
Hann tekur þó fram að áhöfnin á varðskipinu núna sé líklega of ung til að muna eftir því.
En hvaða verkefnum hefur Þór að sinna nú þegar bærinn er mannlaus? Að sögn Páls er áhöfnin alltaf á varðbergi og að fylgjast með umhverfinu. Þá tekur hann fram að það hafi verið Þór sem tilkynnti þegar rafmagnið fór af Grindavík um helgina.
„Við sjáum alveg hvað er að gerast hérna í kringum okkur. Svo vorum við til taks þegar fólkið var að fara inn í dag, á Þórkötlustöðum. Þá færðum við okkur nær og áttum að vera tilbúnir ef það kæmi eitthvað upp á, þá áttum við að flytja liðið í burtu. Vera með bátana okkar klára til að sækja einhvern ef hann yrði innlyksa,“ segir Páll.
„Við erum alltaf til taks.“