Helsta vörn mann sem ákærður er fyrir manndráp á Ólafsfirði síðasta haust er að um neyðarvörn hafi verið að ræða. Sá sem lést hafi komið með hníf og beitt gegn sér, meðal annars með stungum í gegnum kinn og læri. Þá hafi ástæður átaka mannanna legið í rifrildi eftir að kona þess sem lést hafði flúið heimilið og verið í nálægu húsi þar sem maðurinn sem er ákærður var staddur.
Helsta vörn mann sem ákærður er fyrir manndráp á Ólafsfirði síðasta haust er að um neyðarvörn hafi verið að ræða. Sá sem lést hafi komið með hníf og beitt gegn sér, meðal annars með stungum í gegnum kinn og læri. Þá hafi ástæður átaka mannanna legið í rifrildi eftir að kona þess sem lést hafði flúið heimilið og verið í nálægu húsi þar sem maðurinn sem er ákærður var staddur.
Helsta vörn mann sem ákærður er fyrir manndráp á Ólafsfirði síðasta haust er að um neyðarvörn hafi verið að ræða. Sá sem lést hafi komið með hníf og beitt gegn sér, meðal annars með stungum í gegnum kinn og læri. Þá hafi ástæður átaka mannanna legið í rifrildi eftir að kona þess sem lést hafði flúið heimilið og verið í nálægu húsi þar sem maðurinn sem er ákærður var staddur.
Þetta er meðal þess sem lesa má í greinargerð verjanda Steinþórs Einarssonar, en hann var ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir að hafa orðið Tómasi Waagfjörð að bana. Í greinargerð setur sakborningur fram sína hlið málsins og lýsir bæði atvikum og lagarökum sem styðja kröfu sakborningsins, sem í þessu tilfelli er að hann verði sýknaður af ákæru um manndráp.
Í ákæru málsins er Steinþór ákærður fyrir að hafa stungið Tómas tvisvar sinnum í vinstri síðu með hnífi, en Tómas missti mikið blóð og lést. Steinþór hefur hins vegar neitað öllum sakargiftum og vísar til neyðarvarnar. Var atburðarásin meðal annars sviðsett með aðstoð Steinþórs, en í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir honum á sínum tíma kom fram að gögn málsins bæru með sér að Tómas hefði fyrst veist að Steinþóri og stungið hann. Hins vegar hafi Steinþór náð yfirhöndinni og veitt Tómasi stungusár sem drógu hann til dauða, en Steinþór heldur því fram að Tómas hafi fallið á hnífinn í átökunum.
Í greinargerðinni er frekara ljósi varpað á afstöðu Steinþórs í málinu. Þar kemur fram að eiginkona Tómasar hafi deginum fyrir hið meinta manndráp hringt í lögreglu og beðið um að Tómas yrði fjarlægður úr húsinu sem þau voru í. Lögreglan hafi mætt á svæðið en neitað að verða við beiðninni þar sem ekki hafi þótt ástæða til þess.
Steinþór og annar maður sem konan þekkti hafi hvatt hana til að koma yfir til sín, en þeir voru í húsnæði hins mannsins sem var þremur húsum frá þar sem Tómas og eiginkona hans bjuggu. Konan ákvað að gera það og gisti í hinu húsnæðinu yfir nóttina.
Segir í greinargerðinni að Tómas hafi yfir nóttina bæði hringt og sent konunni skilaboð og reynt að fá hana aftur yfir til sín. Síðar hafi svo frændi Tómasar farið yfir og sagst vera kominn að sækja konuna, en hún var þá orðin drukkin og sagðist ætla að fara að sofa. Tómas hafi því næst komið og opnaði konan fyrir honum og hleypti inn.
Fram kemur í greinargerðinni að Tómas hafi fyrst verið pollrólegur þegar hann kom inn og ræddi við Steinþór og konuna við eldhúsborðið, en þar sat Steinþór. Hann reyndi áfram að sannfæra konuna um að koma aftur yfir, en hún hafi sagst vera heima hjá sér og ekki ætlað að fara yfir með honum aftur.
Steinþór hafi svo fljótlega farið að þreytast á Tómasi og sagt honum að hypja sig. Upp úr því hafi Steinþór og Tómas farið að rífast sem leiddi til þess að Tómas hafi byrjað að hreyta leiðindum í Steinþór og tekist að reita hann til reiði. Steinþór hafi á einum tímapunkti hent sólgleraugum í Tómas og þá hafi Tómas dregið upp hníf og ráðist gegn Steinþóri.
Fram kemur í greinargerðinni, sem jafnframt er stutt í gæsluvarðhaldsúrskurðinum, að Tómas hafi stungið Steinþór bæði í kinnina og lærið.
Fyrri stungan hafi verið í kinnina, en við það hafi Steinþór hrint Tómasi út í horn eldhússins. Tómas hafi svo aftur veist að Steinþóri og stungið hann í lærið. Við það hafi Steinþór reynt að ýta hendi Tómasar frá sér, en í átökunum fallið á hann og við það hafi Tómas líklega fengið stungusár.
Er því lýst nánar í greinargerðinni þannig að Steinþór hafi náð að krækja hægri hendi undir hægri handarkrika Tómasar og gripið utan um hnífsblaðið á hnífnum sem Tómas hélt á. Að lokum hafi Tómas misst mátt og fallið niður, en í því hafi Steinþór fallið fram fyrir sig áður en hann lagði hnífinn sem notaður hafði verið í árásinni í nærliggjandi blómapott og skreið inn á baðherbergi.
Endajaxl í Steinþóri klofnaði við stunguna í gegnum kinnina að því er fram kemur í greinargerðinni, en auk stungunnar í lærið var hann einnig með varnaráverka á höndum. Tómas var hins vegar með tvo áverka á vinstri síðu auk sára á hönd.
Í greinargerðinni er vísað til þess að Steinþór hafi aldrei náð taki á skefti hnífsins og því ekki getað stungið Tómas og þá síður með því afli sem réttarmeinafræðingur vill meina að þurft hafi til.
Byggt er á því í greinargerðinni að Tómas hafi átt upptökin að átökunum og gert lífshættulega atlögu að Steinþóri. Auk stunguáverkanna hafi einnig verið ummerki um hnífstungu í stólbak stólsins sem Steinþór sat í og á gluggatjöldum þar í kring. Segir að Steinþór hafi verið að verjast lífshættulegri atlögu Tómasar og að hnífurinn hljóti að hafa hafnað í Tómasi þegar Steinþór hrinti honum eftir að hafa verið stunginn í andlitið. Síðari stungan á Tómasi hafi svo líklega komið til eftir að Tómas hafi stungið Steinþór í lærið sem svo leiddi til þess að Steinþór féll fram fyrir sig á Tómas.
Sem lagarök vísar verjandi Steinþórs meðal annars í grein almennra hegningarlaga um neyðarvörn, en þar segir að það verk sé refsilaust sem menn vinni af neyðarvörn, að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, sem byrjuð er eða vofir yfir, enda hafi ekki verið beitt vörnum sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til.
Þá er vísað til þess að við mat á neyðarvörn verði að leggja til grundvallar að Steinþór og Tómas hafi ekki staðið jafnir að vígi í átökunum. Tómas hafi verið vopnaður stórum hníf með 20 cm löngu blaði. Steinþór hafi ekki haldið á skepti hnífsins og aðeins varist með höndunum einum
Einnig er vísað til þess að svo hægt sé að sakfella mann fyrir manndráp þurfi ásetningur geranda að vera sá að drepa einstaklinginn, eða í það minnsta að vera ljóst að verknaðurinn sé líklegri en ekki að geta valdið dauða.
Að lokum vísar verjandinn til þess að verknaður sé ekki saknæmur nema að hann sé unninn af ásetningi eða gáleysi. Fyrir gáleysisbrot skuli aðeins refsa sé sérstök heimild til þess í lögum.
Segir verjandinn í greinargerðinni að ljóst sé að ákæruvaldið telji út frá þessu að háttsemi Steinþórs, að ýta hægri hendi sinni þegar hann var að verjast stunguárás, teljist ásetningsverknaður til þess ætlaður að valda dauða Tómasar.
Verjandinn segir þessa röksemd ekki ganga upp og að það eina sem standi eftir sé hvort að Steinþóri hafi mátt vera ljóst að umræddar varnir væru líklegar til þess að valda dauða. Bendir verjandinn á að þessi vörn Steinþórs sé í eðli sínu allt önnur en ef hann væri að verjast sjálfur með hníf eða skotvopni. Því þurfi ákæruvaldið að sýna fram á beinan ásetning til að valda dauða í þessu tilfelli.
Vísar verjandinn meðal annars í Hæstaréttardóm frá í fyrra þar sem ofbeldisverk manns gegn eiginkonu sinni voru ekki talin tilraun til manndráps.
Greinargerðin var lögð fram við fyrirtöku málsins nú í vikunni, en málið er rekið fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra. Aðalmeðferð málsins hefur verið ákveðin 11. desember.