Maríanna Pálsdóttir snyrtifræðingur á Snyrtistofu Reykjavíkur skrifar um sykursýkislyf og er þakklát fyrir að hafa ekki fengið uppáskrifað. Eftir neitun frá lækni ákvað hún að hugsa sinn gang.
Maríanna Pálsdóttir snyrtifræðingur á Snyrtistofu Reykjavíkur skrifar um sykursýkislyf og er þakklát fyrir að hafa ekki fengið uppáskrifað. Eftir neitun frá lækni ákvað hún að hugsa sinn gang.
Maríanna Pálsdóttir snyrtifræðingur á Snyrtistofu Reykjavíkur skrifar um sykursýkislyf og er þakklát fyrir að hafa ekki fengið uppáskrifað. Eftir neitun frá lækni ákvað hún að hugsa sinn gang.
Ég bað um sykursýkislyfið Saxenda eða Ozampic til að grennast en fékk tilvísun til sálfræðing!
Eftir á að hyggja er ég þræl ánægð með lækninn sem tók á móti mér sem var steinhissa á því að mér myndi detta til hugar að biðja um þetta. Það gefur mér von um að það séu raunverulega til læknar þarna úti sem dæla ekki lyfjum í fólk að tilefnislausu. Það er til nóg af læknum sem hefðu skrifað upp á þetta fyrir mig en ég lenti á þessum siðferðislega rétthugsandi lækni sem sagði mjög pent við mig að taka til í hausnum á mér áður en lengra er haldið!
Auðvelda leiðin út úr mínum brengluðu hugsunum um sjálfið mitt!
En af hverju bað ég um og hélt að ég myndi fá þetta lyf sem virðist vera að slá öll met? Jú, vegna þess að það eru stjarnfræðilega margir sem nota þetta til að grennast og lýsa þessu sem undralyfi. Ég er frekar hvatvís og til að byrja með þótti mér þetta vera hin fullkomna leið til að rífa af mér nokkur aukakíló. Þetta átti að vera auðvelda leiðin út úr þeirri ánauð sem ég þykist vera í.
Líkar mér í alvörunni svo illa við sjálfa mig að ég er reiðubúin til að vera með stungusár á kviðnum á mér og ekki einu sinni nálægt því að vera með sykursýki! Fyrir utan kostnaðinn sem fylgir inntökunni sem eru um 25 þúsund krónur á mánuði. Það gerir 300 þúsund á ári því sjúkratryggingarnar myndu aldrei borga fyrir mig þetta lyf þar sem ég fell ekki undir skilyrðin til að vera á þeim. Þetta er svona álíka mikil sturlun og var alþekkt fyrir einhverjum árum síðan þegar fólk var að bryðja astma lyf fyrir hross til þess að vera með meira úthald í ræktinni!
Þá þótti nú gott að þekkja góðan dýralækni. En ég hef heyrt af því að ónafngreindir þjálfarar séu að hvetja fólk til þess að byrja á lyfinu til að árangur sjáist fyrr! Það er ekkert annað en mjög mikill dómgreindarskortur að hvetja fólk til að sprauta sig eða taka inn lyf til megrunar í von um skjótan árangur.
Vitum við hver langtíma áhrifin af þessu lyfi eru? Munu aukakílóin ekki koma margfalt til baka ef maður hættir að sprauta sig? Þarf að vera á þessu lyfi að eilífu? Hver eru skilyrðin fyrir því að maður sé gjaldgengur til að nota lyfið o.s.frv. Mér skilst að frumskilyrði fyrir því að taka inn lyfið sé að æfa, borða hollan og góðan mat meðfram sprautum ásamt því að þú þarft að sýna fram á að þú missir 5% af þinni líkamsþyngd fyrstu 3 mánuðina til þess að fá áframhaldandi uppáskrift af lyfinu.
Ég held það þurfi engan Albert Einstein til þess að segja okkur að það skilar árangri að borða holt og hreyfa sig, ætli það sé ekki nákvæmlega eini galdurinn í þessu öllu? Matarlystin minnkar og er flökurleiki fylgifiskur sem margir lýsa sem eru á þessu lyfi. Mig skal ekki undra að fólk grennist ef þetta er það sem gerist.
Mig grunar að fleiri en ég ættu að hugsa sig vel um áður en byrjað er að sprauta þessu lyfi í sig. Ætli það séu oftar en ekki fortíðardraugar sem ráða för í skakkri sjálfsmynd og bjagaðri líkamsvitund? Ef þú finnur ekki rótina á sjálfshatrinu sem þú sýnir þér þá ferð þú alltaf aftur í sama farið sama hvað þú gerir hvort sem það sé magaaðgerð, hjáveituaðgerð, sykursýkislyf í sprautu formi eða töfluformi þú verður alltaf óánægð/ur ef þú lagar ekki toppstykkið á þér.
Eitt er víst að skyndilausnir hafa aldrei skilað neinum árangri til lengri tíma litið og ég er bara venjuleg manneskja sem var næstum því fallin í þá gryfju að fara styttri leiðina að einhverju sem ég veit ekki einu sinni hvernig hefði endað.
Er það spennandi tilhugsun? Nei held ekki!