Til nokkuð snarpra orðaskipta kom í nýjasta þætti Dagmála sem helgaður er viðskiptum og efnahagsmálum.
Til nokkuð snarpra orðaskipta kom í nýjasta þætti Dagmála sem helgaður er viðskiptum og efnahagsmálum.
Til nokkuð snarpra orðaskipta kom í nýjasta þætti Dagmála sem helgaður er viðskiptum og efnahagsmálum.
Þar mætti Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar til leiks og svaraði spurningum þáttastjórnanda um uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.
Hér á eftir fara þessi samskipti en þau er einnig hægt að sjá í spilaranum hér að ofan.
Eitt er stofnkostnaður við borgarlínukerfið og samgöngusáttmálann, hitt er rekstur borgarlínunnar þegar hún er komin upp. Hver verður kostnaðarhlutdeild Garðabæjar í þeim rekstri?
„Það liggur ekki fyrir og ég hef verið alveg skýr með það að þegar þetta mál er rætt, það liggur fyrir nýtt leiðakerfi Strætó til þess að hanna sig að Borgarlínu getum við sagt. Svo vitum við, alveg óháð því hvernig þetta mál endar, er að frestast verulega. Það er miklu lengra í að þessi veröld geti tekið við því þetta eru tæknilega flóknari verkefni, við vorum alltof bjartsýn þegar þetta var gert 2019. Ég held að það hafi verið algjörlega óraunhæft plan í gangi varðandi það hvernig framvindan gæti orðið frá ári til árs. Varðandi reksturinn, við í Garðabæ höfum sagt að við ætlum ekki að samþykkja rekstrarmódel sem fellir á okkur áhættu sem við raunverulega getum ekki ráðið við.“
Þið eruð þátttakendur í því að ráðast í hundruða milljarða uppbyggingu í kringum Borgarlínu og bætta samgönguinnviði án þess að vita hvað það kostar að reka þá. Hvaða heilvita manni dettur í hug að ráðast í slíkt umfang án þess að hafa grænan grun um það hvað það síðan kostar að reka það?
„Ég get snúið þessu við og spurt hvaða blaðamanni dettur í hug að stilla svona spurningu upp þegar það liggur alveg fyrir að það eru til forsendur. Við erum alltaf, þegar við erum að horfa til framtíðar, þá erum við með forsendur....“
Þú ert ekki með heilvita blaðamann hér þannig að við þurfum ekki að velta því fyrir okkur.
„Ég ákvað að sleppa orðinu heilvita út úr setningunni.“
Já það voru mín orð. Hvaða heilvita fólki dettur í hug að ráðast í svo gríðarlega fjárfestingu sem mun auka skuldir í samfélaginu verulega án þess að hafa minnsta grun um þetta. Við höfum hér á þessu blaði kallað eftir því að menn svari því að einhverju leyti hvað mun rekstur kerfisins kosta. Og menn segja: það liggur ekki fyrir. Af hverju liggur það ekki fyrir?
„Ja, ég hef nú séð rekstraráætlanir. Þær eru kannski ekki orðnar nægilega nákvæmar enn þá. Ég get alveg fallist á það en útlínurnar eru til staðar. Það liggur alveg fyrir að það á að vera aukin tíðni og það þýðir aukinn kostnaður í rekstri. Það liggja fyrir forsendur sem eru ótrúlega vandmeðfarnar sem felast bara í því hvað muni gerast. Hversu margir munu kveðja einkabílinn, svo maður einfaldi umræðuna, og nota almenningssamgöngurnar. Það er alltaf ein af forsendunum þarna að baki. Ég spyr, hvað ef þær forsendur eru of bjartsýnar og þetta er eitt af því sem ég hef miklar áhyggjur af í þessu máli og segi: Garðabær er um 8% af þessu í sveitarfélagasamhenginu. Við getum ekki sætt okkur við það að segja bara já við að taka þennan rekstur alla leið án þess að átta okkur á þessum áhættuprófíl. Og hvorki Garðabær né held ég að minnsta kosti önnur þeirra sveitarfélaga sem um ræðir hafa bara getu eða skyldur til að segja bara já við því, áfram gakk.“
Þú lýsir margháttuðum áhyggjum og fyrirvörum en verkefnið er á fullri ferð. Af hverju stoppa menn ekki og endurmeta þetta og fá fast land undir fætur?
„Ja það er það sem er nákvæmlega í gangi núna. Það er verið að rýna forsendurnar og...“
Það er verið að moka upp fyrir brú sem mun kosta 7 eða 8 milljarða og sennilega miklu, miklu meira.
„Já, já en þetta er bara svo áhugaverð umræða. Í fyrsta lagi þetta sem þú nefnir og ég skil og svara þá. Það er rýni í gangi. Það eru heilmikil samtöl milli ríkisins og sveitarfélaga og það er allt í lagi að segja að það er ekki alltaf allt í góðu í þeim samtölum. Aðilar eru ósammála og eru að velta fyrir sér hvernig hægt er að leysa þetta. En það fer auðvitað bara fram, og maður verður að bera virðingu fyrir því, bak við tjöldin. Og það kemur þá út þegar við erum aðeins tilbúnari í því. Hitt sem þú nefnir er að við erum byrjuð að hanna brýrnar og allt það og það var ákveðið 2019. Það er hægt að segja að það sé skrýtið en við verðum að vera sammála um það og það eru þá bæði almenningssamgöngur og stofnvegir, og núna nota ég frasann, við megum ekki gera ekki neitt. Og það er það sem við verðum að horfast í augu við.“
En þessar risaframkvæmdir, þegar maður horfir á brúna yfir Fossvoginn, Miklubrautarstokkinn og þessi fleiri verkefni sem virðast vera að margfaldast að kostnaði. Voru menn ekki bara vélaðir út í þetta meðvitað, með alltof mikilli vanáætlun inni í þessum plöggum?
„Ég er tilbúinn að segja það að líklega hafa mistök verið gerð í því að áhættan í kostnaðaráætlununum hún var ekki nægilega skýr þegar lagt var af stað. Það sem ég hef lært við að rýna ofan í þessi mál er að kostnaðaráætlanir við svona verkefni eru gríðarlega flóknar og það er eðlilegt að það sé mjög mikið óvissubil í upphafi. Svo þrengist það þegar búið er að hanna meira og vita meira. Þannig að það er kannski það sem vantaði. Við tölum alltaf í heilum tölum og endanlegum tölum sem var kannski ekki sanngjarnt þegar óvissubilið í flestum framkvæmdum var verulegt.“
Ef þetta væri óvissubil, værum við þá ekki með einhver dæmi um að framkvæmdir væru ódýrari en áætlanir gerðu ráð fyrir. ef það væri óvissa þá myndi maður ganga út frá því að það gengi í báðar áttir. En það er ekki þannig. Það virðist vera meðvitað vanáætlað til að ýta mönnum af stað í verkefni sem síðan er erfitt að bakka út úr, bara eins og Vaðlaheiðargöng og aðrar fáránlegar framkvæmdir sem menn hafa ákveðið að ráðast í?
„Ég er ekki tilbúinn að segja að þetta hafi verið meðvitað gert með þessum hætti. En við þekkjum það hins vegar og það er allt í lagi að orða það því ég talaði áðan um þá ábyrgð sem opinberir starfsmenn bera, og þar á meðal ég hafa, að við geutm alveg hugsað upphátt að það er freistnivandi í því að koma verkefnum í gegnum nálaraugu. Ef við skoðum bara samgönguáætlunum þá er alveg klárt að aðilar hafa leikið það í gegnum tíðina að koma verkefnum á blað og það er kannski vitað að það er ekki sérstaklega fast land undir fótum í upphafi. Svo þegar það er komið af stað þá stækkar það og auðvitað þurfa skattgreiðendur að borga. Það er þannig á endanum.“
Viðtalið við Almar má sjá og heyra í heild sinni hér: