Guðmundur Ragnarsson er 66 ára vélfræðingur og hætti að vinna fyrir rúmum mánuði. Síðastliðin fimm ár hafði hann hugsað mikið um starfslok og þegar eiginkona hans veiktist ákváðu hjónin að endurmeta gildin í lífinu og Guðmundur hætti fyrr að vinna.
Guðmundur Ragnarsson er 66 ára vélfræðingur og hætti að vinna fyrir rúmum mánuði. Síðastliðin fimm ár hafði hann hugsað mikið um starfslok og þegar eiginkona hans veiktist ákváðu hjónin að endurmeta gildin í lífinu og Guðmundur hætti fyrr að vinna.
Guðmundur Ragnarsson er 66 ára vélfræðingur og hætti að vinna fyrir rúmum mánuði. Síðastliðin fimm ár hafði hann hugsað mikið um starfslok og þegar eiginkona hans veiktist ákváðu hjónin að endurmeta gildin í lífinu og Guðmundur hætti fyrr að vinna.
Guðmundur vann ekki bara heimavinnuna sína mjög vel áður en hann hætti að vinna heldur var hann varaformaður Vélstjórafélags Íslands og síðar formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna. Hann sat einnig í stjórn lífeyrissjóðsins Gildis. Hann hefur því ákveðið að bjóða upp á fyrirlestra og ráðgjöf um undurbúning fyrir starfslok.
„Ég tel mig geta miðlað af reynslu minni í þeim undirbúningi og upplifun sem fylgir því að taka ákvörðunina um að hætta að vinna og fara að gera það sem okkur langar að gera á okkar forsendum. Þetta eru heilmiklar pælingar og vangaveltur. En með því að undirbúa þetta vel þá getum við komist eins nálægt því og hægt er að eiga áhyggjulaust ævikvöld og nota þessi ár vel. Það er mikil áskorun að fara inn í eftirlaunaárin og hætta á vinnumarkaði, það má ekki gera lítið úr því. Það verða bæði fjárhagslegar og félagslegar breytingar sem margir hræðast.“
Hvenær þarf að byrja að huga að eftirlaunaaldrinum?
„Það er mín skoðun að við eigum að byrja að skoða og undirbúa þessi mál um 55 ára aldurinn og í síðasta lagi um sextugt. Auðvitað eigum við að vera meðvituð um hvert við stefnum með framfærslu okkar á eftirlaunaárunum allan tímann sem við erum á vinnumarkaði. Það er athyglisvert að við eigum litla sem enga eftirlaunamenningu eins og við þekkjum á Norðurlöndunum eða í Norður-Evrópu. Við erum alltaf í sömu vertíðarstemningunni í þessu eins og í svo mörgum öðru. Vöknum allt í einu upp 67 ára og „já góðan daginn,“ ég er að fara á eftirlaun og þá er farið að skoða stöðuna, réttindi í lífeyrissjóðum hjá Tryggingastofnun og fleira. Síðan kemur spurningin hvað á ég þá að fara að gera? Þá er oft auðveldast að halda bara áfram að vinna. Þess vegna verðum við að vera undirbúin og geta tekið ákvörðun hvað við viljum og ætlum að gera.“
Hvaða áskoranir felast í því að hætta vinna?
„Þetta er rosalega stór spurning og er einmitt ástæða þess að mig langar að fara í ráðgjöfina og hjálpa fólki í þessum málum og ýta við því að fara tímanlega í að undirbúa þessi ár.
Ég hef lýst þessu þannig að með því að fara tímanlega í að fara yfir stöðu okkar þá séum við að búa til handrit. Hverjar verði ráðstöfunartekjur okkar úr lífeyrissjóðum, Tryggingastofnun, séreignarsparnaði og fleira. Hver er kostnaður okkar að framfleyta okkur í dag? Eru skuldir, hver er uppsafnaður sparnaður, getum við minnkað við okkur eignir og notað þann sparnað í okkur,“ segir Guðmundur og bendir á ótal sviðsmyndir sem koma upp þegar horft er til aðstöðu fólks.
Oft er talað um að ellilífeyrisþegar hafi það slæmt. Guðmundur bendir hins vegar á að sú kynslóð sem er núna að koma á lífeyrisaldur sé fyrsta kynslóðin sem er búin að greiða í fullverðtryggða lífeyrissjóði allan sinn tíma á vinnumarkaði. Margir hafa möguleika á því að hafa það mjög gott þó það sé ekki algilt en þar kemur Tryggingastofnun inn.
„Ljótu sögurnar eru af einstaklingum sem fóru á lífeyri fyrir 15 til 30 árum og áttu lítinn sem engan lífeyri því allt sem þau höfðu greitt í lífeyrissjóð frá 1968 þegar þeir voru stofnaðir þar til 1979 þegar verðtryggingin kom á hafði brunnið upp í verðbólgu. Einn góður maður orðaði það svo að inneign hans eftir öll þessi ár hefði verið fyrir einu lambalæri. Þetta verðum við að standa vörð um að endurtaki sig ekki. Þannig að þessar kynslóðir og konur sem ekki voru á vinnumarkaði hafa haft það mjög slæmt síðustu áratugi og sumir af þessum einstaklingum búa enn við sára fátækt sem er sorglegt í okkar ríka samfélagi, að einstaklingar þurfi að búa við kröpp kjör síðustu ár ævi sinnar.“
Hvenær finnst þér að fólk eigi að hætta að vinna?
„Eins og ég sagði áðan verður hver og einn að gerast leikstjóri í sínu handriti og ekki hægt að alhæfa um það hvernig á að gera hlutina, það verður aldrei til formúla fyrir þessa vegferð. Sumir geta farið á eftirlaun og haft það gott. Aðrir hafa lent í áföllum eða veikindum og staða fólks er jafn misjöfn eins og við erum mörg. Hver og einn verður að fara yfir sín mál og taka ákvörðun um það. Hins vegar er 65 til 67 ára aldurinn flott viðmið í dag, en ef meðallífaldur okkar heldur áfram að hækka og heilsa okkar er góð þá þarf að hækka viðmiðið. Hins vegar eru viðmiðin fljót að breytast út frá því hvort það er vöntun á fólki á vinnumarkaði eða mikið atvinnuleysi, það má ekki gleyma því.“
Margt fólk hefur sparað alla ævina, á fasteign og getur jafnvel leyft sér að eyða peningum. Finnst þér á fólki að því finnist erfitt að eyða peningum sem það hefur jafnvel reynt að spara alla ævi?
„Þetta er hlutur sem mín kynslóð og við sem erum að fara á eftirlaun erum kannski ekki alveg að sjá fyrir okkur að taka uppsafnaðan sparnað og eyða honum á frekar stuttum tíma í okkur sjálf. Kynslóðirnar sem nú eru að yfirgefa okkur eru að skilja eftir eignir og fjármuni sem eru að koma sem arfur til fólks svo það eru margir sem hafa úr talsverðu að spila til að eyða í sjálfa sig. Það þarf ákveðið átak hjá sumum og hugarfarsbreytingu til að gera það.
Ég legg áherslu á að við séum meðvituð um að árin frá 65 ára til 74 koma aldrei aftur og þó meðalaldur Íslendinga sé að hækka þá eru ekki mörg hjón, þar sem báðir aðilar eru að fara á Úlfarsfellið annan hvern dag eftir 74 ára aldur. Síðan er það kjarkurinn sem fer að minnka þannig að þegar aldurinn færist yfir er ekki sami kraftur og áður til að fara til dæmis í ferðalög. Við verðum því að nota þessi ár vel.“
Geta skapast einhver leiðindi vegna peninga á þriðja æviskeiðinu?
„Fjölskyldu- og erfðamálin eru eitt af því sem þarf að ganga frá og vera með á hreinu til að komast eins nálægt því og hægt er að eiga áhyggjulaust ævikvöld og vera sáttur við sjálfan sig. Við þurfum að huga að réttindum eftirlifandi maka og gera það sem þarf til að tryggja þau og vera ekki að bíða með það. Ef það er eitthvað sem við viljum ráðstafa af eignum okkar þá þurfum við að gera það með erfðaskrá eða kaupmála. Yfir þessi mál fer ég mjög vel í fyrirlestrinum. Þetta eru miklu erfiðari mál en peningamálin sem snúa að framfærslunni og fólk á að gefa sér góðan tíma í þau. Það geta verið miklar og flóknar tilfinningar og því verður fólk að vanda sig.“
Hvað finnst þér fólk helst vera að eyða í þegar það hættir að vinna?
„Almennt er fólk ekki mikið að upplýsa um stöðu sína en svo kemur það í ljós hvaða sparnað það hefur til að gera það sem það langar til að gera. Kaupir sér sumarbústað, fasteign erlendis eða fer í ferðalög, allt eftir getu og löngun hvers og eins. Eins og ég sagði eru engin tvö tilfelli eins og minn boðskapur hefur verið að við eigum að nota þessi ár 67 til 74 eins vel og við getum. Því er enn og aftur mikilvægt að fara yfir stöðuna tímanlega og gera plön út frá raunverulegri stöðu. Þetta er ekki keppni um hver er ríkastur heldur að við gerum það sem við getum út frá okkar forsendum.
Það er áskorun og verkefni að eyða uppsöfnuðum sparnaði í sjálfan sig ef hann er til og hver og einn verður að velja sína leið í því. Ekki tökum við þetta með okkur þegar við yfirgefum þetta jarðlíf.“
Hvað langar þig að gera við ævisparnaðinn þinn?
„Sem betur fer erum við hjónin með ásættanlegan lífeyri úr lífeyrissjóðunum okkar, sem gefur meira en við þurfum til að lifa á eins og við lifum í dag. Við ætlum að ferðast eins og við getum. Við höfum verið að fara í skíða- og golfferðir auk annarra ferðalag erlendis og innanlands sem við munum halda áfram að fara í. Við eigum sumarbústað sem okkur hefur alltaf fundist við vera alltof lítið í. Síðan höfum við verið að skoða þau auknu lífsgæði sem tímabundin dvöl í heitara loftslagi gefur okkur yfir veturinn. Hvort sem það væri að kaupa fasteign eða með langtímaleigu. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir því að veðráttan hér á landi getur hamlað útiveru og hreyfingu hjá eldra fólki sem er grundvöllur þess að halda bæði í andlegu og líkamlegu heilsuna eins lengi og hægt er.
Við erum komin með handritið að okkar stöðu þannig að nú er komið að því hjá okkur að fara að taka ákvarðanir og leikstýra þeim árum sem fram undan eru eins og heilsan leyfir. Okkur finnst tíminn líða alltof hratt á þessu æviskeiði sem við erum á núna,“ segir Guðmundur.