Ísólfur Gylfi Pálmason á Uppsölum hætti í fastri vinnu þegar hann lét af störfum sem sveitarstjóri Rangárþings eystra fyrir tæpum sex árum. Hann nýtur nú lífsins í Fljótshlíðinni með börnum og barnabörnum og þeysist um á rafmagnsfáki þess á milli.
Ísólfur Gylfi Pálmason á Uppsölum hætti í fastri vinnu þegar hann lét af störfum sem sveitarstjóri Rangárþings eystra fyrir tæpum sex árum. Hann nýtur nú lífsins í Fljótshlíðinni með börnum og barnabörnum og þeysist um á rafmagnsfáki þess á milli.
Ísólfur Gylfi Pálmason á Uppsölum hætti í fastri vinnu þegar hann lét af störfum sem sveitarstjóri Rangárþings eystra fyrir tæpum sex árum. Hann nýtur nú lífsins í Fljótshlíðinni með börnum og barnabörnum og þeysist um á rafmagnsfáki þess á milli.
Ísólfur, sem er kennari að mennt, kenndi meðal annars í sex ár við Samvinnuskólann á Bifröst, gerðist síðan starfsmannastjóri hjá KRON og Miklagarði en fór í sveitarstjórnarmálin fyrir einskæra tilviljun. Hann var í spennandi vinnu þegar hann fékk óvænta beiðni frá gömlum vinum á Hvolsvelli, það voru komnar upp þær aðstæður að það vantaði sveitarstjóra, þetta var um áramótin 1989-1990 og það má segja að orðið hafi bylting á Hvolsvelli frá þessum tíma og enn er mikið um að vera.
„Þeir voru að leita að manni sem gæti hoppað inn. Ég fékk eina viku til að hugsa mig um. Ég var fyrst og fremst þakklátur fyrir að þeir skyldu muna eftir mér. Ég fór á Hvolsvöll til þess að segja takk fyrir og ætlaði að halda áfram í minni vinnu en kannski sem betur fer sagði ég já. Eftir kosningar sex mánuðum síðar var ég ráðinn sveitarstjóri til næstu fjögurra ára. Þá keyptum við okkur hús á Hvolsvelli og festum rætur,“ segir Ísólfur sem gerðist ekki flokkspólitískur fyrr en ári fyrir þingkosningar árið 1995 þegar hann var kosinn á þing í fyrsta sinn. Hann segir að hann hafi alltaf haft áhuga fyrir pólitík en viðurkennir að það hafi alltaf verið Framsóknarlykt af stráknum enda bar hann út Tímann á Hvolsvelli sem drengur og nær allir keyptu blaðið í þá daga.
„Við Ingibjörg Pálmadóttir systir mín erum fyrstu og einu systkinin sem höfum verið kosin samtímis á Alþingi. Það hafa verið feðgar, bræður en árið 1995 vorum við Ingibjörg samferða,“ segir Ísólfur sem á tvær systur og eru systkinin öll mjög náin. „Sú elsta, Guðríður, er miklu pólitískari en við Ingibjörg.“
Ísólfur ber sterkar tilfinningar til Hvolsvallar en fyrir utan að alast þar upp þá voru foreldrar hans frumbyggjar bæjarins. „Það eru 90 ár síðan fyrsta íbúðarhúsið var byggt þar og foreldrar mínir eru einir af frumbyggjum. Vinir mínir og skólafélagar höfðu lesið um það í blöðunum að ég væri sonur landnema og þurftu þeir að koma við landnemasoninn því að þeir höfðu aldrei séð slíkt fyrirbæri áður,“ segir hann og skellihlær.
Það getur verið mikil breyting að hætta að vinna en það má segja að Ísólfur hafi vanist rótinu þar sem hann þurfti að endurnýja umboðið reglulega.
„Þegar þú ert pólitíkus þá er kosið á fjögurra ára fresti og maður veit aldrei. Þetta bjó ég við í tæp 30 ár. Ég datt út af þingi 2003. Ég lenti í rúllettunni, ég og Ingibjörg Sólrún duttum út á sama tíma, það var huggun harmi gegn þar sem hún er ná aldeilis öflugur pólitíkus. Ég hafði aldrei fallið á prófi og þetta er ákveðin lífsreynsla. Ég er keppnismaður og maður þarf líka að kunna að tapa. Ég fékk mjög fljótt nokkur atvinnutilboð, sem gladdi mig. Ég var ráðinn sveitarstjóri í Hrunamannahreppi og flutti á Flúðir og var þar sveitarstjóri í sex ár. Þaðan fluttum við aftur á Hvolsvöll þar sem ég var kjörinn sveitarstjóri en við vorum með hreinan meirihluta bæði kjörtímabilin. Ég var ekki nema 64 ára þegar ég ákvað að hætti í fastri vinnu en það er óskaplega mikill léttir að losna við ábyrgðina þó ég hefði mjög gaman af vinnunni.“
Hvernig er að hætta í stjórnmálum?
„Guð hefur gefið mér þá náðargáfu að geta slökkt alveg á fortíðinni bæði sem sveitarstjóri og sem þingmaður en ef ég er beðinn um að gera eitthvað sem tengist pólitíkinni eða framþróun sveitarfélagsins þá geri ég það með gleði og áhuga. Mér finnst eins og sumir gamlir pólitíkusar reyni að endurskrifa söguna sér í vil sem mér finnst hlægilegt. Aðrir teknir við keflinu, stefnum og straumum, en við getum verið bakhjarl ef þurfa þykir. Ég er heppinn að búa á jörð sem heitir Uppsalir en ég og konan mín, Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, erum skógarbændur. Við höfum gróðursett 160 þúsund tré á liðlega 20 árum. Þegar maður býr á sveitabæ eru nánast endalaus verkefni. Ég get viðurkennt að konan mín er miklu duglegri en ég, ég er handlangarinn hennar og kappkosta að hlýða fyrirmælum,“ segir Ísólfur og brosir.
Ísólfur og Steinunn Ósk kynntust í Ólafsvík árið 1976 en þangað var Ísólfur sendur til að kenna. „Ríkið stjórnaði grunnskólum landsins og Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi ríkisins stýrði því hvar menn lentu. Ég var nánast píndur til Ólafsvíkur og þar kynntist ég minni ágætu konu og við giftum okkur 1979 einmitt í Ólafsvíkurkirkju. Ég held enn tryggð við nemendur sem ég kenndi,“ segir Ísólfur.
„Það að eiga góða fjölskyldu er eitt allra mikilvægasta í lífinu. Við erum svo heppin að eiga fjögur börn og níu barnabörn og tvö af börnum okkar hafa byggt sér hús á Uppsölum. Við erum ekki hvert ofan í öðru en þar njótum við þess að hitta barnabörnin mjög oft og reglulega. Þetta eru þvílík forréttindi.“
Ísólfur og Steinunn eiga lítinn sumarbústað í KR-hverfinu í Reykjavík eins og Ísólfur kallar litlu íbúðina þeirra í borginni. „Þetta er frá því að ég var þingmaður. Steinunn var heima með krakkana okkar á Hvolsvelli og ég var í Reykjavík. Þegar eldri strákurinn minn fór í háskólann þá fórum við feðgar að búa saman. Svo kom eldri dóttir okkar þegar hún fór í Kvennaskólann. Við bjuggum til smá fjölskyldu í borginni en kjölfestan var á Hvolsvelli. Þetta reyndist okkur vel og var ákveðin kjölfesta og tengdi okkur öll betur saman.“
Hjónin hafa verið samstiga í gegnum árin og segir Ísólfur gott að eiga góðan lífsförunaut. Þau njóta þess meðal annars að ferðast.
„Við fórum í einstaka ferð í sumar þar sem við fórum með hjólin og bílinn í Norrænu til Danmerkur. Við hjóluðum um Danmörku en ég á mikið af vinum þar frá því að ég var í skóla. Í fyrra greindist ég með krabbamein í blöðruhálsi og þegar einn af læknunum mínum komst að því að ég ætlaði að fara í þessa ferð fannst honum það merkilegt og hvatti mig til þess að halda dagbók á Facebook öðrum til hvatningar. Við stoppuðum í Árósum og í Sønderborg á Jótlandi og svo heimsóttum við tvenn vinahjón á Sjálandi og enduðum í Kaupmannahöfn þar sem við hittum börnin okkar og barnabörn. Það var ákveðin nostalgía að fara af stað eins og í gamla daga þegar maður var í tjaldi. Við vorum með góðar dýnur og fínan útilegubúnað. Við vorum svolítið hallærisleg á þessum fínu tjaldstæðum þar sem allir voru á bílum. Í Árósum var fólk með sjónvarp og allar græjur. Þetta var pínu hippafílingur.“
Ísólfur er þekktur fyrir að vera hress og jákvæður. En er maður líka jákvæður þegar maður fær krabbamein?
„Það er hrikalega alvarlegt og maður verður pínulítið meyr en lífið heldur áfram. Það er ekkert annað í boði en að vera jákvæður og gera sitt besta og fara eftir þeim leiðbeiningum sem maður fær. Ég hef nýlega fengið niðurstöðu þess efnis að ég sé sannarlega á réttri leið. Það er mikið gleðiefni.“
Hvað tekur við næstu árin?
„Ég fer í sund eða í ræktina nánast á hverjum einasta degi. Ég hvet alla til þess að nýta sér sundlaugarnar og þann félagsskap sem þar má finna. Ég er til dæmis enn þátttakandi í merkilegum félagsskap í Vesturbæjarlauginni sem nefnist Vinir Dóra þegar ég er í borginni. Á meðan maður hefur heilsu, þrek og áhuga þá er gaman að ferðast. Ég er að undirbúa ræðu sem ég ætla að flytja í tilefni 90 ára afmælis Hvolsvallar og er að hlusta á upptökur þar sem íbúar segja frá því hvernig Hvolsvöllur varð til. Ég fer oft með fólk um Rangárvallasýslu og segi sögur. Ég er ekki bara stoltur af Hvolsvelli og þeim mikla framgangi sem þar er og hefur verið á síðustu þremur áratugum og ekki má nú gleyma landnámsmönnunum sem byggðu Hvolsvöll í upphafi. Ég er stoltur af héraðinu öllu. Rangárþing er einstaklega fallegt og þar eru fjölmargar náttúruperlur.
Ég hef einstaklega gaman af tónlist og er enn með hljómsveitardellu. Ég á ótrúlega góð hljóðfæri en hljóðfærin eru betri en eigandinn. Ég á til dæmis Martin-gítar eins og Bubbi Morthens en er langt frá því að vera jafngóður. Ég hef stundum spilað fyrir litlu börnin á leikskólanum og þegar ég spila fyrir heimilisfólkið á hjúkrunar- og dvalarheimilinu er gjarnan gengið um og lækkað niður í heyrnartækjunum einhverra hluta vegna,“ segir Ísólfur og skellihlær. „Þú öðlast svo mikla sálarró og útrás ef þú getur spilað og gleymt þér við hljóðfæraslátt, það er ofboðslega gott fyrir sálartetrið,“ segir Ísólfur að lokum um lífið.