Snúið að halda COP á Zoom

Umhverfisvitund | 1. desember 2023

Snúið að halda COP á Zoom

Erfiðlega hefði gengið að halda tugþúsunda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á fjarskiptaforritinu Zoom. Verkefnin fyrir hendi eru umfangsmikil og mikilvægt fyrir fulltrúa þjóða að hittast í eigin persónu.

Snúið að halda COP á Zoom

Umhverfisvitund | 1. desember 2023

Áætlað er að yfir 92 þúsund manns taki þátt á COP28.
Áætlað er að yfir 92 þúsund manns taki þátt á COP28. Samsett mynd

Erfiðlega hefði gengið að halda tugþúsunda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á fjarskiptaforritinu Zoom. Verkefnin fyrir hendi eru umfangsmikil og mikilvægt fyrir fulltrúa þjóða að hittast í eigin persónu.

Erfiðlega hefði gengið að halda tugþúsunda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á fjarskiptaforritinu Zoom. Verkefnin fyrir hendi eru umfangsmikil og mikilvægt fyrir fulltrúa þjóða að hittast í eigin persónu.

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við mbl.is.

Hann segir ráðstefnuna ekki síður gott tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að koma grænu hugviti á framfæri, eitthvað sem geti skipt sköpum í framtíðinni.

COP28, loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, hófst formlega í gær. Áætlað er að 92 þúsund manns taki þátt í loftslagsráðstefnunni og tengdum viðburðum í Dúbaí. Fara ríflega 80 fulltrúar frá Íslandi, þar af tólf í formlegri sendinefnd en fleiri þó á vegum ríkisins.

Viðskiptatækifæri á COP

Guðlaugur vekur athygli á því að rúmur helmingur fulltrúa Íslands á COP28 sé á vegum atvinnulífsins, ekki hins opinbera.

Nefnir hann sem dæmi fyrirtækin Running Tide, Vaxa Life, Carbon Recycling og Carbfix.

„[Running Tide] er stærsti aðili heims þegar kemur að sölu á kolefniseiningum með varanlegri bindingu kolefnis. Þetta fyrirtæki er starfrækt á Akranesi. Við erum með Vaxa Life sem ræktar þörunga og selur kolefniseiningar sem verða til við framleiðsluna. 

Carbon Recycling sem nú í vikunni fengu verðlaun fyrir umhverfisframtak ársins á Umhverfisdegi atvinnulífsins. Við þekkjum auðvitað Carbfix en svo auðvitað verða orkufyrirtækin okkar þarna því það er auðvitað gríðarlega mikilvæg eftirspurn eftir grænu hugviti,“ segir Guðlaugur.

„Við búum svo vel að foreldrar okkar og afar okkar og ömmur – þau bjuggu þannig um hnútana að við erum búin að fara í orkuskipti eitt og tvö, sem aðrar þjóðir eiga eftir að gera, langflestar. Við getum miðlað þekkingu og í þessu er líka viðskiptatækifæri fyrir íslensk fyrirtæki.“

Gæta hagsmuna Íslands

Eins og áður kom fram fara ríflega áttatíu fulltrúar frá Íslandi á COP28. Þar af eru 45 frá atvinnulífinu, eða rúmur helmingur og greiða fyrirtækin fyrir þátttöku þeirra. Restin af hópnum er á vegum hins opinbera eða tæplega fjörutíu manns, þar af er tólf manna formleg sendinefnd.

Hvað er þessi hópur frá hinu opinbera að gera fyrir utan sendinefndina?

„Ég miðstýri því auðvitað ekki hverjir fara á COP. En ég treysti því að menn séu að fara þarna til að gæta hagsmuna Íslands – til þess er leikurinn gerður. Þarna eru fulltrúar frá mismunandi ráðuneytum og ýmsum stofnunum sem tengjast þessu öll,“ segir Guðlaugur.

Ráðherrann segir mikilvægt að gæta hagsmuna Íslands. 

„Það mun enginn gera það fyrir okkur. Það er alltaf og eilífðar verkefni en útilokað að ná því nema menn séu á vettvangi.“

Erfitt að fara öðruvísi að

Áætlað er að yfir 92 þúsund manns taki þátt í loftslagsráðstefnunni og tengdum viðburðum í Dúbaí. Er þetta mikil fjölgun frá fyrri árum þó fjöldi þátttakenda á COP skipti jafnan tugþúsundum.

„Það gæti orðið svolítið snúið að hafa þetta á Zoom geri ég ráð fyrir. Ég held að það sé útilokað,“ segir Guðlaugur og tekur fram að umhverfisráðuneytið leggi áherslu á að halda fjarfundi nema brýn ástæða sé til.

„En ef við hugsum aðrar leiðir að þá held ég að það sé mjög erfitt – þetta er svo ótrúlega  fjölbreytt, þú ert með 92 þúsund manns. Það er vegna þess að það er af mjög mörgu að taka.

Meirihluti þeirra sem fara frá Íslandi koma frá fyrirtækjum. Þeir eru auðvitað að gera það til þess að ná tengslum við önnur fyrirtæki og aðila til þess að kynna sína vöru og þjónustu.“

mbl.is