Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, segir að vilyrði sveitarfélaga um að stilla sig um gjaldskrárhækkanir ef vinnumarkaðnum auðnist að semja um hóflegar launahækkanir, sé jákvætt innlegg.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, segir að vilyrði sveitarfélaga um að stilla sig um gjaldskrárhækkanir ef vinnumarkaðnum auðnist að semja um hóflegar launahækkanir, sé jákvætt innlegg.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, segir að vilyrði sveitarfélaga um að stilla sig um gjaldskrárhækkanir ef vinnumarkaðnum auðnist að semja um hóflegar launahækkanir, sé jákvætt innlegg.
Vilhjálmur segir í samtali við mbl.is að þetta líti þó ekki eingöngu að sveitarfélögum.
„Þetta lítur líka að ríkinu, tryggingarfélögum, verslun og þjónustu og annað slíkt.“
Segir hann að verkalýðshreyfingin sé eins og alltaf tilbúin að fara í slíka vegferð ef allir verða tilbúnir að axla sína ábyrgð í því.
„Við höfum sagt að við erum tilbúin að semja í anda lífskjarasamningsins sem við gengum frá 2019 og það liggur fyrir hvert kostnaðarmatið í þeim samningum var.
Þar eru menn að tala um að heildarkostnaðarmatið verði með sambærilegum hætti og þar var enda var sá samningur viðurkenndur sem skynsamlegur meðal annars af fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fulltrúum OECD.“
Segir hann forsendu þess að slíkur samningur gangi upp að Seðlabankinn hefji kröftugt vaxtalækkunarferli.
„Lífskjarasamningurinn lagði grunn að verðstöðugleika og lækkun vaxta á þessum tíma og það hefur komið skýrt fram að við erum tilbúin til að fara þá leið. Menn vita hvaða aðferð var þar notuð.“
Vilhjálmur telur nokkuð góðan samhljóm innan hreyfingarinnar að gera þetta með þessum hætti en segir það ráðast á því hvort allir aðilar verði tilbúnir að axla sína ábyrgð.
„Þá mun ekki standa á verkalýðshreyfingunni að stilla launakröfunum þannig að þær rúmist innan skynsamlegra marka því það er alveg ljóst að við munum ekki getað haldið áfram á þeirri braut síðustu 12-24 mánaða þar sem allar okkar launahækkanir eru hrifsaðar til baka í formi okurvaxta, hækkana á gjaldskrám, verðlagi og svo framvegis.“
Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, hefur sagt að borgin sé tilbúin að draga úr gjaldskrárhækkunum ef aðilar vinnumarkaðarins nái saman um hóflegar launahækkanir og bæði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Arnar Þór Sævarsson framkvæmdastjóri sambandsins, tóku í sama streng í samtali við mbl.is í dag.
Vilhjálmur fagnar því að borgarstjórn Reykjavíkur hlusti á það sem við verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir síðustu daga.
„Nú þurfa fleiri að stíga fram því ef við náum þessu breiða samtali þá er alveg ljóst að fyrir neytendur, launafólk og heimili geta verið fólgin mun meiri verðmæti í slíku heldur en að halda áfram með þeim hætti að hér springi allt í loft upp ef þannig má að orði komast.“
Þá segir Vilhjálmur að stjórnvöld gegni lykilhlutverki í þessu sambandi alveg eins og í lífskjarasamningunum 2019.
„Það er alveg ljóst að það er ekki hægt að halda áfram með þá stefnu sem hér ríkir á húsnæðismarkaði og í vaxtamálum þar sem við erum að greiða allt að 250-300% hærri húsnæðisvexti en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.“
Hann segir að því til viðbótar sé vístala mæld með allt öðrum hætti hér á landi en gengur og gerist í samanburðarlöndum.
„Þar er ég að tala um reiknuðu húsaleiguna. Í síðustu mælingu kemur fram að það er hækkun fasteignaverðs og verðtryggðra vaxta sem keyrði nánast alla verðbólguna upp í seinasta mánuði.
Svona er þetta búið að vera síðustu 12 mánuði þar sem þessi tiltekni þáttur í vísitölunni hefur spilað lykilhlutverk, í raun og veru ekki bara síðustu 12 mánuði heldur er hægt að fara alveg aftur til aldamóta í því sambandi.“
Vilhjálmur segir að það verði að breyta mælingunni og segir hann að verkalýðshreyfingin hafi bent á það síðustu 10-15 ár. Þá vísar hann til þess að kljúfa húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs.
„Það var samið um þetta 2019. Þetta er gríðarlega mikilvægt og þeim skilaboðum hefur verkalýðshreyfingin komið rækilega á framfæri við stjórnvöld.
Ég ætla að eiga þá von í brjósti mér að einn af þessum þáttum sem menn ná saman um í þessum samningum verði að breyta þessum tiltekna lið.
Trúðu mér nú að það verður vörður á þeirri leið gagnvart því sem við munum gera að við ætlum ekki að axla okkar ábyrgð með þeim hætti að launafólk verði ekki varið gagnvart einhverjum óvæntum atburðum,“ segir Vilhjálmur.
Ef atvinnulífið, verslun og þjónusta og aðrir aðilar ætla ekki að taka þátt þá þarf verkalýðshreyfingin að sögn Vilhjálms að vera með einhverjar girðingar sem tryggja launafólk.
„Ef við ætlum að ganga hér frá kjarasamningum sem eru innan einhvers ákveðins svigrúms sem menn tala um þá liggur alveg fyrir að ef vextir lækka ekki um x mikið þá verði hægt að segja samningum upp eins og við sömdum um 2019.“
Segir hann ákvæði um slíkt verða skrifað inn í samninginn rétt eins og þá.
„Við skulum ekki gleyma því að rök Seðlabankans frá því í desember fyrir öllum þessum stýrivaxtahækkunum eru meðal annars þau að launahækkanir hafi verið allt of miklar.
Það verður því fróðlegt að sjá ef verkalýðshreyfingin nær samtali við stjórnvöld, sveitarfélög, verslun og þjónustu og svo framvegis í víðtæku samstarfi og semur hér innan einhvers ákveðins svigrúms hvort Seðlabankinn ætli þá að taka þátt í því að hefja hér kröftugt vaxtalækkunarferli eða hvort bankinn muni bara segja að einhverjir aðrir þættir hafi áhrif á þetta.
Til að tryggja okkur fyrir því þá liggur fyrir að menn munu gera skýlausa kröfu um uppsagnarákvæði.“
Að lokum segir Vilhjálmur að ef allir verði tilbúnir að axla sína ábyrgð þá muni ekki standa á verkalýðshreyfingunni að stilla launakröfunum þannig að þær rúmist innan skynsamlegra marka.
„Við erum tilbúin ef aðrir eru tilbúnir.“