Ekki eins vonlaust og það virtist

Ekki eins vonlaust og það virtist

„Staðan núna eins og við metum hana er ekki eins vonlaus og hún virtist fyrstu dagana eftir þetta gerðist,“ segir Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja, um stöðuna í vatnsaðfangamálinu er hér hefur verið fjallað um síðustu daga eftir að neðansjávarvatnsleiðsla til Vestmannaeyja varð fyrir töluverðu tjóni í nóvember.

Ekki eins vonlaust og það virtist

Skemmdir á vatnslögn til Vestmannaeyja | 4. desember 2023

Páll Magnússon nefnir ýmsar leiðir í vatnsaðfangamáli Vestmannaeyinga eftir óhappið …
Páll Magnússon nefnir ýmsar leiðir í vatnsaðfangamáli Vestmannaeyinga eftir óhappið 17. nóvember, meðal annars að fyrsta vatnsleiðslan til Eyja, frá 1968, verði tekin í gagnið á ný. mbl.is/Sigurður Bogi

„Staðan núna eins og við metum hana er ekki eins vonlaus og hún virtist fyrstu dagana eftir þetta gerðist,“ segir Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja, um stöðuna í vatnsaðfangamálinu er hér hefur verið fjallað um síðustu daga eftir að neðansjávarvatnsleiðsla til Vestmannaeyja varð fyrir töluverðu tjóni í nóvember.

„Staðan núna eins og við metum hana er ekki eins vonlaus og hún virtist fyrstu dagana eftir þetta gerðist,“ segir Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja, um stöðuna í vatnsaðfangamálinu er hér hefur verið fjallað um síðustu daga eftir að neðansjávarvatnsleiðsla til Vestmannaeyja varð fyrir töluverðu tjóni í nóvember.

Segir Páll að vonast sé til þess að leiðslan sem skemmdist, sem er aðalleiðslan, haldi þar til viðgerð á henni lýkur. „Núna hafa tíu-fimmtán kafarar unnið að því síðustu daga að festa hana, mat sérfræðinga, þar á meðal framleiðenda, er að hún haldist stöðug, jafnvel í brælu og djöfulgangi. Ef hið versta gerist og hún gefur sig, þar sem hún er auðvitað mikið skemmd, eigum við fleiri bjargir en við töldum í upphafi og þar er einkum um þrennt að ræða,“ segir forsetinn.

Íhuga að skeyta saman leiðslu frá 1968

Það fyrsta sé að framkvæma bráðabirgðaviðgerð á leiðslunni og taka hana í sundur rétt fyrir austan Ystaklett og skeyta plastefni við innsta hluta hennar, bút sem yrði svo tekinn upp í svokallaða Gjábakkafjöru með það fyrir augum að leiðslan gæti dugað með þeim hætti til bráðabirgða.

„Í öðru lagi ætla menn svo núna þegar viðrar, og góður veðurgluggi opnast aftur, að athuga ástandið á upphaflegu leiðslunni sem var lögð 1968 og var fyrsta vatnsleiðslan. Þá verður athugað hvort hægt sé að skeyta henni saman svo hún geti virkað. Aðalatriðið, og í þriðja lagi, er að í ljós kom að búið er að flytja til landsins himnuskilju sem býr til hreint vatn úr sjó. Þetta stykki sem komið er til landsins getur búið til 500 tonn af vatni á sólarhring. Auk þess eru Vinnslustöðin og Ísfélagið að leita fyrir sér um kaup á fleiri svona einingum sem gætu þá komið til viðbótar við þessa og þá ertu kominn með framleiðslugetu upp á 1.500 til 2.000 tonn af vatni á sólarhring, eftir því hvort þessi félög kaupa tvær eða þrjár einingar,“ útskýrir Páll.

Til samanburðar megi nefna að heildarvatnsneysla í Vestmannaeyjum geti rokkað frá 2.000 upp í 5.000 tonn á sólarhring, hærri talan þá á háannatíma á loðnuvertíðinni. Þar með séu Eyjamenn komnir með þrenns konar viðbragð við því að vatnsleiðslan rofni fara allt á versta veg.

„Fjórða viðbragðið er svo að beinlínis verði flutt vatn til Eyja í tankskipum og þar fram eftir götunum. Sumt af þessu vitum við að virkar, eins og vélarnar, þetta er þekkt tækni og notuð víða og þær geta farið langt með að dekka þörfina,“ heldur Páll áfram. „Þetta er reyndar ekki neysluvatn ætlað til drykkjar, þetta er það sem kallað er steindautt vatn, sterilíserað þar til ekkert er eftir nema H2O, það eru engin steinefni og ekki neitt í því og mér skilst að það sé ekkert sérstaklega bragðgott,“ segir Páll.

Tilfærsla í fjárlagaáætlun vegna málsins

Hann telur ólíklegt að allar leiðirnar verði tækar en Eyjamenn muni að líkum alla vega eiga eftir einhverjar þær bjargir sem vonandi forði þeim frá neyðaráætlun og rýmingu á fólki.

„Þetta er svona staðan eins og hún blasir við okkur og má eiginlega draga það saman í dag í að útlitið er heldur bjartara en það sem við horfðum framan í dagana eftir að skemmdirnar urðu á leiðslunni. Endapunkturinn er svo að ríkisstjórnin hefur gefið það út að tilfærsla verður gerð á áætlun fjárlaga fyrir 2025 þegar til stóð að leggja nýja leiðslu. Núna er vonandi verið að ganga frá því í þinginu að þessi aðgerð verði flutt inn á fjárlögin núna sem skiptir í raun allra mestu máli í þessum efnum og þar með að ný leiðsla verði lögð núna á vori og sumri komandi,“ segir Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja, að lokum af vatnsmálum þeirra Eyjamanna eftir óhappið 17. nóvember.

mbl.is