Kostnaður Sjúkratrygginga vegna sykursýkislyfja sem einnig eru notuð til þyngdarstjórnunar hefur tólffaldast á síðustu fimm árum. Lyf sem hér um ræðir eru meðal annars lyfið Ozempic.
Kostnaður Sjúkratrygginga vegna sykursýkislyfja sem einnig eru notuð til þyngdarstjórnunar hefur tólffaldast á síðustu fimm árum. Lyf sem hér um ræðir eru meðal annars lyfið Ozempic.
Kostnaður Sjúkratrygginga vegna sykursýkislyfja sem einnig eru notuð til þyngdarstjórnunar hefur tólffaldast á síðustu fimm árum. Lyf sem hér um ræðir eru meðal annars lyfið Ozempic.
Auk Ozempic-lyfsins er einnig um að ræða lyfin Rybelsus, Wegovy, Liraglutide, Victoza og Saxenda, að því er segir í tilkynningu Sjúkratrygginga.
Árið 2019 var tæplega 1.700 einstaklingum ávísað lyfjum af þessu tagi með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Árið 2023 er fjöldi einstaklinga orðinn rúmlega 8.000. Þar að auki eru um 4.000 manns til viðbótar sem taka lyfin en uppfylla ekki skilyrði um greiðsluþátttöku.
Það er því ljóst að eftirspurnin eftir lyfjunum er mikil og hefur valdið skorti á Ozempic.
Hefur reglum um greiðsluþátttöku því verið breytt og skerpt á skilyrðum sem undirstrika að Ozempic er aðeins fyrir fólk sem er greint með sykursýki.
Samkvæmt tilkynningu Sjúkratrygginga hefur verið gripið til þeirra ráða að endurskoða reglur og viðmið um greiðsluþátttöku.
Hefur sú krafa verið gerð að einstaklingar með sykursýki II prófi fyrst önnur sykursýkislyf í hálft ár áður en þeir fá þessi lyf uppáskrifuð.
Þá hefur einnig verið ákveðið að hætta greiðsluþátttöku vegna Saxenda sem meðferð gegn offitu, þar sem Wegovy hefur skilað betri árangri og er ódýrara.
Við mat á aðgerðum var litið til reglna í nágrannalöndum, auk þess sem byggt var á heilsuhagfræðilegu mati frá Noregi. Engu að síður er engin greiðsluþátttaka fyrir Wegovy í Svíþjóð og Finnlandi og eru skilyrðin strangari í Danmörku og Noregi.
Þá bendir heilsuhagfræðilegt mat á ávinningi til þess að árangur af lyfjameðferð einni og sér sé of lítill miðað við kostnað.
Ekki eru komnar fram rannsóknir sem lýsa langtímaáhrifum af þessari meðferð en rannsóknir benda hins vegar til þess að líkur á þyngdaraukningu séu miklar þegar hætt er á lyfinu.
Árið 2018 var kostnaðarþátttaka Sjúkratrygginga 163 milljónir vegna lyfja af þessari gerð en á þessu ári er kostnaðurinn orðinn 1,9 milljarðar nú í lok nóvember.
Tæplega 15% af heildarútgjöldum Sjúkratrygginga til lyfja fer í að niðurgreiða blóðsykurslækkandi lyf, önnur en insúlín, en sykursýkislyf sem einnig eru notuð til þyngdarstjórnunar eru meginuppistaðan í þeim kostnaði.