Geta ekki niðurgreitt Ozempic fyrir fólk út ævina

Ozempic | 6. desember 2023

Geta ekki niðurgreitt Ozempic fyrir fólk út ævina

Forstjóri Sjúkratrygginga segir ákvörðun Sjúkratrygginga um að breyta reglum um greiðsluþátttöku á sykursýkislyfinu Ozempic, auk þess að skerpa á skilyrðum sem undirstrika að lyfið sé einungis fyrir fólk sem er greint með sykursýki, ekki endanlega og að ákvörðunin verði endurskoðuð samhliða frekari rannsóknum og framboði á lyfinu.

Geta ekki niðurgreitt Ozempic fyrir fólk út ævina

Ozempic | 6. desember 2023

Spurn eftir Ozempic er gríðarlega mikil á heimsvísu.
Spurn eftir Ozempic er gríðarlega mikil á heimsvísu. AFP/Joel Saget

Forstjóri Sjúkratrygginga segir ákvörðun Sjúkratrygginga um að breyta reglum um greiðsluþátttöku á sykursýkislyfinu Ozempic, auk þess að skerpa á skilyrðum sem undirstrika að lyfið sé einungis fyrir fólk sem er greint með sykursýki, ekki endanlega og að ákvörðunin verði endurskoðuð samhliða frekari rannsóknum og framboði á lyfinu.

Forstjóri Sjúkratrygginga segir ákvörðun Sjúkratrygginga um að breyta reglum um greiðsluþátttöku á sykursýkislyfinu Ozempic, auk þess að skerpa á skilyrðum sem undirstrika að lyfið sé einungis fyrir fólk sem er greint með sykursýki, ekki endanlega og að ákvörðunin verði endurskoðuð samhliða frekari rannsóknum og framboði á lyfinu.

Sigurður H. Helgason, forstjóri sjúkratrygginga, segir nauðsynlegt að gera greinarmun á Ozempic og Wegovy í umræðunni um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og skerptum skilyrðum um ávísun lyfjanna.

Heimilt að nota lyfið til þyngdarstjórnunar 

Í því samhengi áréttir hann að Ozempic sé sykursýkislyf sem einungis eigi að ávísa á kostnað ríkisins vegna sykursýkissjúkdóma. Þar af leiðandi segir hann ekki hafa verið gerða miklar breytingar á skilyrðum um að fólk geti farið á lyfið, aðrar en að einstaklingar með sykursýki týpu tvö prófi fyrst önnur sykursýkislyf í hálft ár, áður en þeir fá Ozempic uppáskrifað. 

Er það bæði vegna þess hve hár kostnaðurinn af lyfinu er, en jafnframt vegna þess hve mikil eftirspurnin eftir lyfjunum er, sem hefur valdið skorti á Ozempic. 

Hann undirstrikar þó að heimilt sé að nota lyfið til þyngdarstjórnunar, það sé aðeins óheimilt að óska eftir greiðsluþátttöku ríkisins í þeim eina tilgangi, enda lyfið einungis ætlað til meðferðar á sykursýki. 

Þá segir hann að ný skilyrði Sjúkratrygginga eigi ekki við um þá einstaklinga sem hafa verið með sykursýki í mörg ár, heldur eigi skilyrðin einungis við um þá einstaklinga sem eru að leita í fyrsta sinn til læknis og eru þá væntanlega með byrjenda sykursýkisvanda, segir hann og bætir við að þeir sem hafi átt við sykursýki að stríða í mörg ár geti farið á lyfið tafarlaust. 

Sigurður H. Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
Sigurður H. Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Wegovy ekki skilgreint sem sykursýkislyf

Hvað varðar Wegovy segir Sigurður það eingöngu ætlað til þyngdarstjórnunar. Það hafi sama virka innihaldsefni og Ozempic, en þó ekki skilgreint sem sykursýkislyf. Því sé ekki þörf fyrir sykursýkisjúkling að óska eftir Wegovy, enda geti viðkomandi fengið uppáskrifuð til þess ætluð lyf.

Sigurður bætir þó við að Wegovy sé nýtt lyf á Íslandi, sem nýlega fékk markaðsleyfi hér á landi. Því sé ekki verið að þrengja nein skilyrði til notkunar á því, heldur sé verið að setja skilyrði.

„Það voru engin skilyrði fyrir, enda var lyfið ekkert á markaði.“

Ákvörðunin byggð á mati nágrannaþjóðanna

Þessi skilyrði eru sett á grundvelli þess regluverks sem Sjúkratryggingum ber að starfa eftir, segir hann og útskýrir að þar sé áskilið að ákvarðanir um innleiðingu nýrra lyfja byggi á því sem heitir í lögum um Sjúkratryggingar, faglegt mat, eða framkvæmdu mati á kostnaði og ábata samfélagsins á því að greiða fyrir lyfið. 

Við ákvörðunina horfðu Sjúkratryggingar Íslands til þess sem hefur verið gert í nágrannalöndunum. Er það vegna þess að matið er bæði dýrt og flókið og því töldu Sjúkratryggingar sig ekki hafa forsendu fyrir því að vinna slíkt mat sjálf, enda hafði það þegar verið unnið í nágrannalöndunum. 

„Þar hefur niðurstaðan verið sú að ávinningur á þessu lyfi sé ekki talinn nægjanlegur til þess að réttlæta þann kostnað sem notkun lyfsins hefur í för með sér. Þessi niðurstaða mótast svolítið af því að sennilega – þó þetta sé auðvitað tiltölulega nýtt lyf og ekki hægt að fullyrða alveg um það – þá eru miklar líkur á því að áhrif lyfsins gangi til baka þegar einstaklingur hættir að nota það og þess vegna sé þetta ákvörðun um ævilanga meðferð ef þú ætlar að halda í ávinning af notkun lyfsins,“ segir Sigurður. 

Kostnaður mikill með tilliti til eftirspurnar

Hann undirstrikar að kostnaður vegna lyfsins sé mikill, og með hliðsjón af mikilli eftirspurn eftir lyfinu, þá verði að horfa til þess að kostnaðurinn yrði svakalegur fyrir ríkið, ef þeir sem eru í ofþyngd myndu nota lyfið ævilangt. Það er á þeirri forsendu sem nágrannalöndin komast að þessi niðurstöðu segir hann, því þrátt fyrir að það sé ábati af lyfinu, þá yrði kostnaðurinn einfaldlega of mikill. 

„Þá er ekki réttlætanlegt að forgangsraða fjármunum heilbrigðiskerfis með þeim hætti að þessi lyf séu almennt niðurgreidd.“

„Ef lyfjaverðið lækkar að þá getur þessi jafna gjörbreyst

Sigurður segir þó síður en svo útilokað að matið, og ákvörðunin eftir því, verði endurskoðað innan fárra ára. Sérstaklega í ljósi þess að um sé að ræða nýtt lyf á markaði, sem mikil spurn er eftir. 

„Við hljótum að reikna með því að þetta lyf eða önnur sambærileg lyf verði ódýrari eftir því sem að árin líða og það þarf ekkert að vera spurning um mjög mörg ár til viðbótar,“ segir hann og bætir við: 

„Ef lyfjaverðið lækkar að þá getur þessi jafna gjörbreyst. Þá getur staðan breyst og allt í einu verður talið hagkvæmt að niðurgreiða þetta lyf til allra þeirra sem uppfylla miklu almennari skilyrði en nú er.“

Því sé ekki um að ræða endanlega niðurstöðu í því samhengi. Þess vegna þykir Sigurði mikilvægt að halda því til haga að það megi alls ekki túlka niðurstöðu Sjúkratrygginga þannig að Sjúkratryggingar séu mótfallnar því að lyf sem þessi séu notuð til þyngdarstjórnunar. 

Það sé einfaldlega þannig að Sjúkratryggingum ber að fara eftir matinu, en stofnunin vakti að sjálfsögðu þróunina og hugsanlegar breytingar á matinu. 

mbl.is