Námskrá yfirvalda fyrir íslenska grunnskóla leggur lélegar línur fyrir kennara landsins. Yfirstandandi breytingavinna á henni mun litlu skila og grunnskólarnir eru að bregðast þeim sem síst skyldi.
Námskrá yfirvalda fyrir íslenska grunnskóla leggur lélegar línur fyrir kennara landsins. Yfirstandandi breytingavinna á henni mun litlu skila og grunnskólarnir eru að bregðast þeim sem síst skyldi.
Námskrá yfirvalda fyrir íslenska grunnskóla leggur lélegar línur fyrir kennara landsins. Yfirstandandi breytingavinna á henni mun litlu skila og grunnskólarnir eru að bregðast þeim sem síst skyldi.
Þetta segir Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla.
Niðurstöður PISA 2022 sýna að 40% prósent fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi. Annar hver drengur á þeim aldri getur ekki lesið sér til gagns. Jafnframt búa 32% stúlkna á sama aldri ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi.
„Hvað varðar lesskilning er almennt talað minna við stráka á meðan þeir eru smábörn og þeir eru líklegri til að detta inn í tölvuleiki, þar sem þeir geta upplifað ósigra án þess að vera niðurlægðir,“ svarar Jón Pétur, spurður út í þessa skekkju á milli kynja.
Drengjum þyki erfiðara að sýna fram á að þeir séu lélegri heldur en aðrir. Þeir séu seinni til við málþroska og í þeim efnum fái þeir meiri neikvæða athygli heldur en stúlkur.
„Þær hegða sér að jafnaði betur, þótt það sé kannski eitthvað að breytast. Strákarnir eru meira í leikjum en stelpurnar að skrifa og að tala saman.“
Spurður út í kennaranámið, þar sem krafa hefur verið lögð á lengd námsins undanfarin ár, svarar Jón Pétur:
„Þetta er ákveðin náttúrugáfa. Þú getur æft fótbolta eða spilað á hljóðfæri í óratíma og ekki getað neitt. Við þurfum fleira fólk sem hjálpar öðrum kennurum að verða betri.“
Aðstoðarskólastjórinn bendir á að þar sem fimmta og seinasta ár kennaranámsins sé orðið að starfsnámsári sé í raun þegar búið að stytta sjálft námið niður í fjögur ár.
Hann vill aftur á móti frekar að fólk í námi umgangist afburðakennara í tvö ár, kenni með þeim og læri af þeim sem hafa náð árangri.
„Árangur er orð sem lítið er notað í skólastarfi. Það er verið að tala um fjölbreyttar kennsluaðferðir en ekki árangursríkar kennsluaðferðir.“
Hann fullyrðir að búið sé að gera umhverfi kennara erfitt.
„Það er svolítið verið að úthýsa kennurum og að gervigreindin eigi að sjá um þetta allt saman. Það er algjörlega röng nálgun. Góður kennari getur náð árangri hvar sem er, en slakur kennari nær ekki árangri með alla heimsins mestu tækni í kringum sig,“ segir Jón Pétur.
„Námskráin okkar er þannig að það er ekkert innihald í henni. Íslenskir kennarar vita ekki nákvæmlega hvað þeir eiga að kenna,“ bætir hann við.
„Það er fullt af flottu fólki í kennslu en námskráin tiltekur ekkert sérstakt sem á að kenna. Þetta er allt opið. Öll þekkingaratriði eru tekin út og þetta er ávísun á hrun, eins og þessi niðurstaða í PISA-könnuninni lýsir, sem mun halda áfram.“
„Núna er verið að vinna að einhverjum breytingum á henni,“ segir hann um námskrána.
„En sú breytingavinna – ég held að hún verði ekki til þess að bæta ástandið svo nokkru nemi. Það þyrfti í raun að tengja námssálarfræði inn í þetta, sem vantar algjörlega inn í kennaranámið, sem snýr að því hvernig fólk lærir.“
TIl að ítreka áherslu sína á grunnþætti námsins umfram fjölbreytni tekur hann dæmi um hvernig fólk lærir á hljóðfæri.
„Þú byrjar fyrst á litlum nótum og spilar næst „Mæja átti lítið lamb“, áður en þú ferð að spila Beethoven. Það sama gildir um íþróttir. Þú lærir aðhlaup í spjótkasti og hvernig þú heldur í spjótið, áður en þú ferð að reyna að kasta einhverja áttatíu metra.“
Hann segir fáa einstaklinga með mikil völd hafa ráðið stefnunni hvað þetta varðar.
„Þetta eru ekki margir einstaklingar, en þeir hafa einhvern veginn kynnt þetta þannig að tæknin og gervigreind muni leysa allt af hólmi. En til að geta nýtt sér tækni og gervigreind þarftu raungreind. Og raungreind er ekkert flókin og fín – þú byggir bara orðaforða. Því meiri orðaforða sem þú ert með, þeim mun betur geturðu sett þig inn í málin, því líklegri ertu til að skapa eitthvað, því líklegri ertu til að geta gagnrýnt hluti, og svo framvegis,“ segir Jón Pétur.
„Þessi grunnur – við höfum bara horfið frá honum á síðustu árum. Og þetta hefur svona nokkurn veginn gagnrýnislaust gerst, hægt og rólega, af því að það hafa líka sterk öfl verið að verki.“
Sem dæmi um þessi sterku öfl nefnir hann bandarísku risana Microsoft, Google, Apple og Meta.
„Þetta eru risafyrirtæki sem eru bara með her manns í vinnu við að ánetja fólk klukkustundum saman í að gera eitthvað annað en að tala hvort við annað. Fólk er hætt að tala saman á kvöldin, það er hver í sínu tæki,“ segir Jón Pétur.
„Í gamla daga, eða í raun bara fyrir tíu árum síðan, þá talaði fólk miklu meira saman. Það var sameiginleg upplifun. Þú horfðir á það sama í sjónvarpinu og pabbi þinn, þið kannski töluðuð um þáttinn og þar með jókst orðaforðinn pínulítið.
Þetta eru engin geimvísindi – þetta er orðaforði og hugtakaskilningur, og þetta á við um allar námsgreinar. Í grunnskólalögum segir að við eigum að gera þetta. Við erum ekki að sinna þessu. Við erum að taka tækifæri af þeim sem standa höllustum fæti í samfélaginu.“
Hann heldur áfram:
„Börn sem eiga foreldra, þar sem eru þúsund bækur á heimilinu og það er búið að lesa fyrir þau á kvöldin frá því þau voru sex ára – þau geta jafnvel bara verið með eldspýtustokk sem kennara. Þau eru með svo gott bakland. En það eru hinir sem við erum að bregðast. Því skólinn á að vera jöfnunartæki.“