„Ef við ætlum ekki að verða tungumálalaus þjóð þá verðum við að hætta að upphefja allar þessar tungumálaslettur og æfa okkur í að tala góða íslensku inni á heimilum.“
„Ef við ætlum ekki að verða tungumálalaus þjóð þá verðum við að hætta að upphefja allar þessar tungumálaslettur og æfa okkur í að tala góða íslensku inni á heimilum.“
„Ef við ætlum ekki að verða tungumálalaus þjóð þá verðum við að hætta að upphefja allar þessar tungumálaslettur og æfa okkur í að tala góða íslensku inni á heimilum.“
Þetta er meðal annars það sem Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, segir við mbl.is, spurður að því hvernig hann myndi móta allsherjarátak til þess að snúa þeirri þróun við sem sjá má í niðurstöðum PISA 2022.
Niðurstöðurnar sýna að 40% fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi.
Annar hver drengur á þeim aldri getur ekki lesið sér til gagns, þó að áralöng skólaganga sé þá þegar að baki.
„Það þyrfti hugarfarsbreytingu varðandi orðaforða og hugtakaskilning. Það ætti að auka lestur innan skólanna mjög mikið og fá íslenskukennara í alla leikskóla. Öll börn sem fara á leikskóla þyrftu að vera í íslensku umhverfi og þá sérstaklega erlendu börnin,“ segir Jón Pétur.
Hann bætir við að aðeins íslenska ætti að vera töluð á leikskólum landsins og að ekki ætti að sýna börnum þar myndbönd á ensku.
„Það ætti að leggja þessum spjaldtölvum og það þyrfti að vera mikið samtal inni í skólastofunni, allt á íslensku og kennararnir að hafa gott vald á íslenskri tungu.“
Jón segir það þurfa að fylgja börnum vel eftir í lestrarnáminu.
Í sex ára bekk yrðu allir svo gott sem læsir og að mælt yrði jafnt og þétt hvar hver væri staddur þannig að allir sem gætu verið læsir eftir sex ára bekk séu orðnir læsir þá.
En svo segir hann að það þurfi að vekja áhuga barnanna á lestri:
„Svo þyrfti markvisst að láta þá lesa skemmtilegar bækur, vekja áhuga þeirra á bókum og fá fólk sem er litið upp til, eins og okkar fremsta íþróttafólk, til að hamra stanslaust á því að íslenskan skiptir máli. Ef við ætlum ekki að verða tungumálalaus þjóð þá verðum við að hætta að upphefja allar þessar tungumálaslettur og æfa okkur í að tala góða íslensku inni á heimilum.“
„Það þarf að láta krakkana æfa sig í ritun, skrifa um einhver ákveðin efni og þvinga þá til að skrifa um eitthvað þar sem þeir þurfa að nota ákveðinn orðaforða, leita að orðum og búa til litla stutta texta,“ segir Jón Pétur.
„Með þessu myndum við geta leikið okkur að því að hækka þessar tölur svo að krakkarnir geti lesið sér til gagns.“
Hann segir að skólinn þyrfti að leggja áherslu á að börnin séu læs og við þyrftum að mæla það jafnt og þétt hjá hverju barni fyrir sig, þannig að það verði enginn útundan.
„Það þarf endalausa þjálfun til að geta sett orð í alls konar samhengi. Við viljum ekki að krakkarnir séu endalaust að gúgla. Það er tálsýn að þú getir gúglað alla hluti,“ segir Jón Pétur.