Óvíst hvort verkefnið klárist fyrir áramót

Borgarlínan | 14. desember 2023

Óvíst hvort verkefnið klárist fyrir áramót

Samninganefndir ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hafa fundað stíft að undanförnu vegna uppfærslu samgöngusáttamála höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið átti að klárast í sumar en óvíst er hvort því ljúki fyrir áramót.

Óvíst hvort verkefnið klárist fyrir áramót

Borgarlínan | 14. desember 2023

Páll Björgvin segir brýnt að ná utan um málið sem …
Páll Björgvin segir brýnt að ná utan um málið sem fyrst. Samsett mynd

Samninganefndir ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hafa fundað stíft að undanförnu vegna uppfærslu samgöngusáttamála höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið átti að klárast í sumar en óvíst er hvort því ljúki fyrir áramót.

Samninganefndir ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hafa fundað stíft að undanförnu vegna uppfærslu samgöngusáttamála höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið átti að klárast í sumar en óvíst er hvort því ljúki fyrir áramót.

„Það er góður andi í þessu. Það er verið að fást við gríðarlega umfangsmikið og að mörgu leyti flókið verkefni. Það er líka mikilvægt að vanda vel til verka í svona uppfærslu,” segir Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSH, og segir aðspurður að enginn beinn ágreiningur hafi verið uppi um nokkur mál.

Hann segir að minnisblaði SSH og innviðaráðuneytisins sé fylgt að langmestu leyti við vinnuna.

„Ég held að það sjái allir sem aka um höfuðborgarsvæðið hvað þörfin er brýn á að við náum utan um þetta sem fyrst,” bætir Páll Björgvin við.

Þung umferð á Sæbraut síðdegis í lok ágúst.
Þung umferð á Sæbraut síðdegis í lok ágúst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aukinn kostnaður töluverð áskorun

Samninganefndirnar hafa rætt um hvernig skynsamlegast er að koma verkefninu fyrir, á hve löngum tíma og hvernig framkvæmdirnar tengjast saman. Einnig er rætt hvernig stilla skal fjármögnunina af, að sögn Páls Björgvins.

Spurður hvort rætt hafi verið um að hætta við einhverjar framkvæmdir segir hann að árið 2019 hafi verið sátt á milli sveitarfélaga og ríkisins um að fara í ákveðnar framkvæmdir. Enn sé verið að fylgja eftir grundvallaratriðum sáttmálans þó svo að verið sé að uppfæra framkvæmdaáætlunina og fara yfir fjármögnunina.

„Við eigum eftir að sjá hver endanleg niðurstaða verður,” segir framkvæmdastjórinn og nefnir að áskorunin sé töluverð varðandi aukinn kostnað við sáttmálann frá upphaflegri áætlun.

Borgarlínan er hluti af samgöngusáttmálanum.
Borgarlínan er hluti af samgöngusáttmálanum. mbl.is

Þrír þættir í fyrirrúmi

Páll Björgvin bendir á að íbúum höfuðborgarsvæðisins hafi fjölgað meira en áætlanir gerðu ráð fyrir og slíkt hafi mikil áhrif á umferðina. Allir geti séð það, sérstaklega á álagstímum.

„Markmiðið sem slíkt er að bjóða upp á þessa fjölbreyttu valkosti. Við erum ennþá að tala um að byggja upp stofnvegi á höfuðborgarsvæðinu, sérakreinar fyrir almenningssamgöngur og síðan hjóla- og göngustíga. Þetta eru þessir þrír þættir sem var gengið út frá í upphafi,” greinir hann frá.

„Ég er frekar jákvæður. Við vinnum stíft að þessu. Við ætluðum að vera búin að þessu í sumar en þetta hefur tekið lengri tíma. Það hefur ekkert skort viljann og það er búið að sitja vel við. Hvort við náum þessu fyrir eða eftir áramót verður að koma í ljós,” heldur hann áfram. 

Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Stórar upphæðir”

Regína Ásvaldsdóttir, formaður stjórnar SSH og bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir samtökin þrýsta á að verkefnið klárist sem allra fyrst.

„Þetta eru stórar upphæðir og framtíðarsýn sem skiptir okkur öll mjög miklu máli en við höfum góðar væntingar til þessarar vinnu,” segir Regína, spurð út í stöðu mála.

Regína Ásvaldsdóttir, formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Regína Ásvaldsdóttir, formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is