Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur til að virðisaukaskattsívilnun fyrir rafmagnshjól og reiðhjól verði framlengd um eitt ár.
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur til að virðisaukaskattsívilnun fyrir rafmagnshjól og reiðhjól verði framlengd um eitt ár.
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur til að virðisaukaskattsívilnun fyrir rafmagnshjól og reiðhjól verði framlengd um eitt ár.
Fram kemur í nefndaráliti að um sé að ræða umhverfisvæn farartæki sem séu til þess fallin að draga úr bílaumferð og fjölga í hópi þeirra sem ferðast með vistvænum hætti.
Opinber stuðningur við kaup á virkum samgöngutækjum, líkt og reiðhjólum, rafmagnshjólum, rafmagnshlaupahjólum og öðrum slíkum vistvænum tækjum átti að fella alveg niður með breytingu á stuðningskerfi hins opinbera sem tekur gildi um áramótin.
Niðurstaða efnahags- og viðskiptanefndar er á skjön við ummæli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem sagði ívilnanirnar fyrir rafmagnshjól og reiðhjól hafa átt að vera tímabundar.
Einnig er niðurstaðan á skjön við svar umhverfis-, orku- og loftslasgsráðuneytisins til mbl.is fyrr mánuðinum.
„Í ljósi þess að styrkjum til orkuskipta er ætlað að stuðla að sem mestum samdrætti í losun, verður þeim varið til að stuðla að orkuskiptum í bílaflotanum með styrkjum til kaupa á hreinorkubílum. Ekki er gert ráð fyrir styrkjum til kaupa á öðrum vistvænum farartækjum,“ sagði í svarinu.
Þá var einnig haft eftir Guðlaugi Þór í svarinu: „Fyrirkomulaginu er ætlað að stuðla að sem mestum samdrætti í losun svo grænum orkuskiptum verði náð og Ísland geti náð markmiðum sínum í loftslagsmálum. Þess vegna leggjum við áherslu á orkuskipti bílaflotans.“
Ágúst Bjarni Garðarsson, 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir í samtali við mbl.is að rafmagnshjól og reiðhjól falli ekki inn í nýtt styrkjakerfi Orkusjóðs og því hafi nefndin lagt þessa breytingu til.
Spurður hvers vegna lögð er til ívilnun fyrir farartækin í eitt ár segir Ágúst Bjarni þetta vera fyrsta skrefið. Eftir það þurfi að vega og meta hvernig málin þróast til framtíðar.