Gómsætur hreindýra-hamborgari að hætti Viktors

Jólauppskriftir | 16. desember 2023

Gómsætur hreindýra-hamborgari að hætti Viktors

Viktor Örn Andrésson matreiðslumeistari elskar villibráð og segir engin jól og áramót vera án hennar.

Gómsætur hreindýra-hamborgari að hætti Viktors

Jólauppskriftir | 16. desember 2023

Viktor Örn Andrésson,matreiðslumeistari og hreindýraborgarinn hans gómsæti.
Viktor Örn Andrésson,matreiðslumeistari og hreindýraborgarinn hans gómsæti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viktor Örn Andrésson matreiðslumeistari elskar villibráð og segir engin jól og áramót vera án hennar.

Viktor Örn Andrésson matreiðslumeistari elskar villibráð og segir engin jól og áramót vera án hennar.

Viktor er einn eigenda Sælkerabúðarinnar og veitingaþjónustunnar Lux veitinga þar sem miklar annir eru þessa dagana þar sem fjölmargir bóka jólasteikurnar og meðlætið hjá þeim. Viktor gefur sér þó líka tíma til að huga að hátíðarmatnum fyrir fjölskylduna og heldur í sínar hefðir í bland við nýjungar.

Villibráðin býður upp á annað bragð

Aðspurður segir Viktor að hann elski villibráð og í mestu uppáhaldi séu önd og hreindýr ásamt öllu gröfnu gúmmelaði. „Jólin eru hefðbundin á mínu heimili, hamborgarhryggur hefur verið á boðstólum öll þau 40 ár sem ég hef lifað og man eftir mér en á áramótunum er allt opið. Þá verður oftar en ekki villibráð fyrir valinu. Villibráðin er ekki oft á boðstólum yfir árið og býður upp á bragð sem annað kjöt er ekki með. Það er þetta auka umami-bragð sem gerir villibráðina extra góða og lyftir máltíðinni á hærra plan. Tilhlökkunin er ávallt mikil að setjast niður og borða góða villibráðarmáltíð um hátíðirnar með fjölskyldunni,“ segir Viktor og bætir við að það þurfi alls ekki að vera flókið að matreiða villibráð. Ein uppáhaldsmáltíð Viktors um hátíðirnar er hreindýrahamborgarinn.

Viktor afhjúpar hér leyniuppskrift að hreindýrahamborgara eins og hann vill bera hann fram og finnst besta útgáfan fyrir sinn smekk. „Þennan hreindýrahamborgara gerum við fjölskyldan árlega um hátíðirnar og hann er sannkallaður veislumatur. Meðlætið skiptir líka miklu máli en ég mæli með stökku smælki sem borið er fram með söxuðum vorlauk og/eða graslauk,“ segir Viktor.

Ómótstæðilega girnilegur gómsæti hreindýraborgarinn hans Viktors og þvílík ostaveisla líka.
Ómótstæðilega girnilegur gómsæti hreindýraborgarinn hans Viktors og þvílík ostaveisla líka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hreindýrahamborgari að hætti Viktors

  • 4 stk. hreindýrahamborgari frá Sælkerabúðinni
  • 4 stk. kartöfluhamborgarabrauð
  • 160 g trufflumajónes
  • 1 krukka rauðlaukssulta
  • 1 stk. Ljótur eða annar blámygluostur
  • 2-8 stk. tómatsneiðar
  • 4 msk. bláberjasulta
  • 4 lúkur klettasalat
  • 4 msk. heimalagað rauðkál
  • 4 sneiðar gouda-ostur

Aðferð:

  1. Hitið vel upp í grillinu.
  2. Kryddið hreindýrahamborgarana með salti og pipar eftir smekk og grillið í 3-4 mínútur á hvorri hlið, eða eftir smekk.
  3. Setjið svo eina matskeið af rauðlaukssultu á hvern borgara.
  4. Setjið næst tvær sneiðar af Ljóti eða öðrum blámygluosti.
  5. Síðan bætið þið á borgarann sneið af gouda-osti. Lokið síðan grillinu í 1-2 mínútur til að bræða ostinn.
  6. Brauðið er grillað í 30-40 sekúndur á hvorri hlið.
  7. Setjið góða slettu af trufflumajónesi á brauðbotninn, síðan klettasalat, tómata og eina matskeið af bláberjasultu á hvern hreindýraborgara.
  8. Takið næst borgarann af grillinu, toppið með meira af trufflumajónesi og lokið síðan með brauðlokinu.

Smælki

  • 800 g soðið smælki
  • salt og pipar eftir smekk
  • graslaukur eftir smekk, klipptur niður
  • vorlaukur eftir smekk, saxaður

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða smælkið.
  2. Setjið það síðan í djúpsteikingarpott og steikið í 3-4 mínútur eða bakið við háan hita, um 200°C, í ofni í 10-15 mínútur.
  3. Kryddið til með salti og pipar og stráið yfir söxuðum vorlauk og/eða graslauk eftir smekk þegar smælkið er tekið út og borið fram.
  4. Berið hreindýraborgarann fram með smælkinu á skemmtilegan hátt, til dæmis á viðarbretti. Njótið með jólaöli eða góðum jólabjór.
mbl.is