Gefst aldrei upp og lærir af mistökunum í bakstrinum

Uppskriftir | 17. desember 2023

Gefst aldrei upp og lærir af mistökunum í bakstrinum

Brynja Rós Ólafsdóttir áhugabakari hefur haft gaman af því að baka síðan hún var barn. Í dag er hún þekkt fyrir glæsilegar kökur en Brynja segir að eins og með allt annað skapi æfingin meistarann.

Gefst aldrei upp og lærir af mistökunum í bakstrinum

Uppskriftir | 17. desember 2023

Gómsæt súkkulaðikaka með sérstaktri jólaskreytingu er falleg á jólaborðið.
Gómsæt súkkulaðikaka með sérstaktri jólaskreytingu er falleg á jólaborðið. mbl.is/Arnþór Birkisson

Brynja Rós Ólafsdóttir áhugabakari hefur haft gaman af því að baka síðan hún var barn. Í dag er hún þekkt fyrir glæsilegar kökur en Brynja segir að eins og með allt annað skapi æfingin meistarann.

Brynja Rós Ólafsdóttir áhugabakari hefur haft gaman af því að baka síðan hún var barn. Í dag er hún þekkt fyrir glæsilegar kökur en Brynja segir að eins og með allt annað skapi æfingin meistarann.

„Það má samt segja að þessi mikli áhugi fyrir bakstri, og þá helst að skreyta kökur, hafi komið meira fram á fullorðinsárunum. Ég nýtti tækifærin þegar voru afmæli og þess háttar í fjölskyldunni og hægt og rólega fór þetta að ganga betur og betur,“ segir Brynja sem hefur búið til afmæliskökur, fermingarkökur og kökur fyrir steypiboð. Brynju finnst einnig skemmtilegt að leika sér með marengs í alls konar formi.

Brynja segist alveg redda sér í eldamennskunni en baksturinn heilli mun meira. „Mér finnst eitthvað mun meira róandi að dunda sér í bakstri en að standa yfir eldavélinni,“ segir hún.

Á hverju hefur þú lært mest í eldhúsinu?

„Ég hugsa að ég hafi lært mest af því að halda alltaf áfram í bakstrinum. Eins og með allt annað þá kemur þetta ekki á einni nóttu og það koma alveg stundir þar sem maður er eiginlega bara búinn að gefast upp: Kakan sem þú varst að baka lyfti sér ekki; hún datt í sundur þegar þú tókst hana úr forminu; smákökurnar voru of lengi inni og orðnar óætar; ég var búin að sjá fyrir mér hvernig kakan sem ég var að fara að skreyta ætti að vera en hún var svo ekki nálægt því sem ég hafði gert ráð fyrir. En ég væri ekki komin á þennan stað sem ég er í dag ef ég hefði gefist upp og ekki lært af þeim mistökum sem maður hefur gert.“

Leikur sér með kremið á milli

Gerir þú oft sömu uppskriftina eða ertu dugleg að prófa nýjar uppskriftir?

„Þegar ég er að gera kökur held ég mig yfirleitt við sömu uppskrift, ég er frekar í því að leika mér með hvað ég set á milli kökubotnanna. Það sem ég nota hvað mest á milli er saltkaramellusmjörkrem með saltkaramellu- og karamellukurli. Svo kemur lakkríssmjörkrem sterkt inn líka. Ef ég vil gera kökurnar aðeins meira lúxus nota ég þristamús á milli, það kemur skemmtilega á óvart. Mér finnst svo gaman að prófa alls konar nýtt í smákökum og eftirréttum. Ég nota oft jól og áramót sem tilraunir fyrir nýja og spennandi eftirrétti sem ég rek augun í.“

Brynja Rós Ólafsdóttir
Brynja Rós Ólafsdóttir Arnþór Birkisson

Hvað gerir þú venjulega í eldhúsinu fyrir jólin?

„Það fyrsta sem ég geri yfirleitt er að baka lakkrístoppa. Ég geri yfirleitt nokkrar útgáfur af þeim með mismunandi fyllingu og þarf yfirleitt að baka nokkra skammta yfir jólin þar sem þeir hverfa hratt. Svo baka ég yfirleitt einhverjar smákökur. Það getur verið mismunandi milli ára, sum jólin eru þetta tilbúin kökudeig sett á plötu og bökuð en önnur ár rek ég augun í eitthvað skemmtilegt og áhugavert og prófa að baka það.“

Brynja er ekki bara góð í að baka, hún er líka öflug þegar handavinna er annars vegar. „Ég er ein af þeim sem verða alltaf að hafa eitthvað að gera. Ég er rosalega mikið í því að prjóna og hekla og hef gert mikið af því síðan um tvítugt. Mér finnst líka mjög gaman að gefa gömlum hlutum nýtt líf, hvort sem það er að mála þá eða spreyja eða nota í eitthvað annað en það sem átti upprunalega að nota þá í. Ég hef samt, ótrúlegt en satt, ekki gert mikið af einhverju jólatengdu, allavega ekki föndrað neitt. Það er þá aðallega að setja saman skreytingar fyrir jólin. En ég hef alveg verið í því að búa til jólagjafir, sem dæmi hef ég prjónað peysur, heklað bangsa og útbúið myndir sem hafa farið í jólapakka.“

Brynja Rós Ólafsdóttir
Brynja Rós Ólafsdóttir Arnþór Birkisson

Heldur litlu jólin með vinahópnum

Hvað kemur þér í jólaskap?

„Mér finnst rosalega notalegt þegar jólaljósin og -seríurnar fara að birtast alls staðar, alltaf svo mikil jólastemning sem myndast við það. Það að skreyta heima með jólalögin í gangi í bakgrunninum er líka góð uppskrift að jólaskapi.“

Hvernig er aðventan hjá þér?

„Ég vinn sem rekstrarstjóri á pósthúsinu á Höfðabakka og í desember er alltaf mikið að gera hjá okkur þegar jólapakkarnir fara að streyma til okkar. En þar sem ég hef unnið á pósthúsi meira og minna öll jól síðan 2004 þá er það hluti af jólunum mínum. Mér fyndist rosalega skrítið ef jólavertíðin væri ekki hluti af aðventunni og hátíðardögunum. Það er ótrúlegt hvað það er alltaf allt annar andi yfir vinnustaðnum á þessum tíma, bæði hjá starfsfólkinu og viðskiptavinum.“

Hvaða hefðir ertu með á jólunum?

„Sem barn vorum við með þær hefðir að fara saman að velja jólatré, setja það svo upp á Þorláksmessu og skreyta það. Á aðfangadag fórum við systkinin svo með pabba okkar á jólapakkarúnt um bæinn. Núna þegar ég er komin með mína eigin fjölskyldu hafa hefðirnar aðeins breyst. Jólatréð fer fyrr upp og jólapakkabíltúrinn er yfirleitt fyrir aðfangadag þar sem við höfum skapað okkur þá hefð undanfarin ár að vera í bústað yfir jólin. Ein hefð sem hefur líka verið í nokkur ár hjá mínum vinahópi er að halda litlu jólin saman. Þá hittumst við heima hjá okkur og skiptumst á jólagjöfum, drekkum heitt súkkulaði og borðum góðan mat og smákökur. Í byrjun vorum við bara vinirnir saman en svo, eftir því sem árin liðu, komu alltaf fleiri og fleiri börn inn í þetta og núna eru þau orðin vön þessari hefð.“

Hvernig verða jólin hjá þér í ár?

„Í ár ætlum við að bregða út af vananum og förum við stórfjölskyldan öll til Noregs á Þorláksmessu og ætlum að vera þar fram yfir áramót. Við ætlum að heimsækja norsku „fjölskylduna“ okkar sem við eignuðumst þegar við fjölskyldan bjuggum þar 1998-2000.“

„Uppskriftin sem ég notaði í kökuna er úr bókinni Kökum eftir Lindu Ben en ég styðst mikið við hana þegar ég baka. Á milli kökubotnanna er síðan saltkaramellusmjörkrem með karamellukurli og karamellusúkkulaðidropum. Kakan er svo skreytt að utan með sama smjörkremi og borðanlegum skrautkúlum sem er raðað upp sem jólatré,“ segir Brynja um kökuna.

Kökubotnar

  • 225 ml bragðlaus olía
  • 4 egg
  • 275 ml súrmjölk
  • 380 g púðursykur
  • 100 g kakó
  • 320 g hveiti
  • 2 tsk. matarsódi
  • 2½ stk. lyftiduft
  • 1 tsk. salt
  • 130 ml sterkt kaffi við stofuhita

Aðferð

  1. Kveikið á ofninum og stillið á 175°C með yfir- og undirhita.
  2. Hrærið saman olíu, eggjum og súrmjólk í stórri skál.
  3. Blandið því næst saman púðursykri, kakói, hveiti, matarsóda, lyftidufti og salti í annarri skál og bætið svo þurrefnablöndunni við eggjablönduna.
  4. Hrærið loks kaffið saman við.
  5. Smyrjið fjögur 15 cm kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau.
  6. Gott er að vigta deigið svo botnarnir verði nákvæmlega jafn þykkir.
  7. Bakið í 30 mínútur eða þar til kökurnar eru bakaðar í gegn.
  8. Þegar kökurnar eru teknar úr ofninum er gott að hvolfa þeim sem fyrst á smjörpappír. Það gerir að verkum að topparnir á kökunum verða flatari en annars.

Smjörkrem

  • 500 g smjör við stofuhita
  • 500 g flórsykur
  • 2 msk. rjómi
  • 3 msk. saltkaramella
  • ½ tsk. svartur matarlitur

Aðferð

  1. Þeytið smjörið þar til það er orðið létt.
  2. Bætið flórsykrinum saman við og hrærið þar til blandan er aftur orðin létt og ljós.
  3. Bætið þá rjóma, saltkaramellu og matarlit saman við og hrærið.
  4. Þegar smjörkremið er tilbúið er það frekar ljósgrátt þar sem það þarf mikinn matarlit til þess að ná dökkum lit. Ein aðferð sem ég nota til þess að ná litunum dekkri er að setja kremið í skál sem má fara í örbylgjuofn.
  5. Stillið örbylgjuofninn á lægstu stillingu og setjið skálina inn og stillið á 15 sekúndur. Takið skálina út og hrærið aðeins í kreminu. Við þetta dökknar það örlítið. Haldið þessu áfram þar til þið fáið þann lit sem þið eruð að leita að. Við þetta mun kremið mýkjast helling og verða meira fljótandi en ekki hafa áhyggjur.
  6. Þegar rétti liturinn er kominn þarf bara að kæla kremið aftur, ef þið hafið tíma þá er gott að láta það standa á borðinu og ná stofuhita en ef þið eruð í tímaþröng má láta það kólna í ísskáp. Þegar kremið er svo komið aftur á það form sem þið viljið er það tilbúið til notkunar.

Saltkaramella – einnig er hægt að nota tilbúna saltkaramellu sem fæst í búð

  • 200 g sykur
  • 100 g smjör
  • 100 ml rjómi
  • 2 tsk. sjávarsalt

Aðferð

  1. Skerið smjörið í litla bita og látið það ná stofuhita.
  2. Bræðið sykur í stórum potti við meðalháan hita.
  3. Setjið smjörbitana út í sykurinn þegar hann er allur bráðnaður, einn bita í einu, og hrærið á milli.
  4. Lækkið nú hitann og hellið rjómanum út á sykurblönduna í smáum skömmtum. Hrærið vel á milli og leyfið karamellunni að þykkna.
  5. Bætið loks salti út í karamelluna og hrærið.

Samsetning

  1. Setjið fyrsta botninn niður og smyrjið smjörkremi ofan á hann.
  2. Dreifið síðan saltkaramellu yfir kremið sem og karamellukurlinu og karamellusúkkulaðinu.
  3. Endurtakið þetta þangað til síðasti botninn er kominn á kökuna.
  4. Setjið þá þunnt lag af smjörkremi á alla kökuna. Þetta lag þarf ekki að vera fullkomið þar sem þetta er til þess að festa alla mylsnu á kökunni þannig að þegar lokalagið af kreminu er sett á sé það sem fallegast.
  5. Setjið kökuna í kæli þar til kremið hefur harðnað.
  6. Takið þá kökuna út og setjið annað lag af kremi utan um hana og reynið að hafa það sem sléttast.
  7. Því næst takið þið til þær skrautkúlur sem þið ætlið að nota og búið til ykkar eigið jólatré utan á kökuna. Hérna er um að gera að leyfa sköpunargleðinni að taka völdin og það er engin rétt eða röng aðferð við þetta. Setjið afganginn af kreminu í sprautupoka með stút að eigin vali og sprautið skrauti ofan á kökuna. Borðinn á þessari köku er gerður með litlum hringlaga hreyfingum.
Brynja Rós Ólafsdóttir
Brynja Rós Ólafsdóttir Arnþór Birkisson
mbl.is