Harpa Magnúsdóttir framkvæmdastjóri og stofnandi Hoobla ehf. hefur komið víða við í atvinnulífinu. Hún var ekki há í loftinu þegar hún byrjaði að vinna í fiski. Uppáhaldsdagur vikunnar er dagurinn þar sem hún nær öllum börnunum saman í kvöldmat. Harpa segir að stærsta áskorunin sé að ýta óttanum og óörygginu til hliðar og gefast aldrei upp.
Harpa Magnúsdóttir framkvæmdastjóri og stofnandi Hoobla ehf. hefur komið víða við í atvinnulífinu. Hún var ekki há í loftinu þegar hún byrjaði að vinna í fiski. Uppáhaldsdagur vikunnar er dagurinn þar sem hún nær öllum börnunum saman í kvöldmat. Harpa segir að stærsta áskorunin sé að ýta óttanum og óörygginu til hliðar og gefast aldrei upp.
Harpa Magnúsdóttir framkvæmdastjóri og stofnandi Hoobla ehf. hefur komið víða við í atvinnulífinu. Hún var ekki há í loftinu þegar hún byrjaði að vinna í fiski. Uppáhaldsdagur vikunnar er dagurinn þar sem hún nær öllum börnunum saman í kvöldmat. Harpa segir að stærsta áskorunin sé að ýta óttanum og óörygginu til hliðar og gefast aldrei upp.
Hvernig komstu þangað sem þú ert í dag?
„Það má segja að ég hafi unnið mig upp í starfi. Þegar ég fór fyrst inn á vinnumarkað sem ung manneskja fór ég af stað með það veganesti frá foreldrum mínum að ekkert verk væri það ómerkilegt að maður gæti ekki unnið það vel.
Þannig að ég fór jákvæð í öll störf, tók þeim verkefnum sem mér buðust með brosi á vör og gerði mitt besta í að leysa verkefnin vel.
Auðvitað er það þannig að verkefnin eru misskemmtileg. En með tímanum og með reynslu fer maður að finna sína hillu og hvað veitir manni meiri ánægju í starfi en annað. Og þegar maður verður góður í einhverju rata slík verkefni frekar til manns. Ég fékk tækifæri þegar ég hóf störf hjá ORF Líftækni að mennta mig meðfram starfi. Lauk fyrst viðskiptafræði og svo meistaranámi í mannauðsstjórnun. Jákvætt viðhorf gagnvart verkefnum, mönnum og málefnum og sú reynsla sem ég hef sankað að mér hefur komið mér þangað sem ég er í dag. Það viðhorf hjálpaði mér að stofna Hoobla og það hjálpar mér að vinna með fólki og fyrir fólk. Lífið er einfaldlega auðveldara ef maður er jákvæður.“
Út á hvað gengur starfið?
„Ég er framkvæmdastjóri Hoobla ehf., og aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að fá ráðgjafa, sérfræðinga og stjórnendur í tímabundin verkefni og hlutastörf. Í dag hafa fyrirtæki aðgang að yfir 400 sérfræðingum í gegnum Hoobla. Mitt starf gengur út á daglegan rekstur Hoobla, taka viðtöl við sérfræðinga sem vilja vera í samstarfi við Hoobla og veita fyrirtækjum ráðgjöf sem leita til Hoobla uppá að þau fái hæfasta sérfræðinginn til starfa.“
Hverjar voru helstu áskoranirnar á leiðinni?
„Manns eigin hugur er manns helsta áskorun. Það er enginn eins góður í að reyna að telja mann af einhverju eins og manns eigin hugur. Það að læra að ýta ótta og óöryggi til hliðar er líklega það mikilvægasta sem maður getur lært. Lífið er stutt og ef maður á sér drauma á maður að láta á þá reyna. Ég sé ekki eftir því að hafa fylgt eigin hjarta og stofnað Hoobla. Það hefur verið stærsta ævintýri vinnuferilsins.
Aðrar hindranir hafa verið tímabundnar, eins og til dæmis að finna leiðir til fjármögnunar, finna samstarfsaðila o.s.frv. Einhvernveginn held ég að viðhorfið spili líka mikið þarna inn í. Allavega trúi ég því að hlutirnir hafi tilhneigingu til að reddast.“
Hvað skiptir máli að hafa í huga ef fólk ætlar að ná langt á vinnumarkaði?
„Leggja sig fram og gera eins vel og maður getur. Komdu fallega fram og af virðingu við fólk óháð stétt og stöðu. Gullna reglan um að koma fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig á alltaf erindi. Einhverjir myndu kannski segja að gullna reglan eigi ekkert skylt við framagirni, þar sem einhverjir myndu jafnvel kaffæra aðra til að ná árangri sjálfir. En maður verður að muna að oft mætir maður sama fólkinu á leiðinni niður og urðu á vegi manns á leiðinni upp. Og þá er ekki gott að hafa komið illa fram við fólk. Þetta stuðlar líka að góðu tengslaneti sem er alltaf hjálplegt á vinnumarkaði.“
Hvernig var þinn ferill?
„Sem unglingur vann ég í fiski á sumrin í heimabæ mínum, Keflavík. Þar lærði ég að halda í við reynslumiklar fiskverkunarkonur með mikinn metnað í sínum störfum. Þær létu mann finna fyrir sér ef maður var ekki að standa sig.
Á meðan ég var nemi í Verzlunarskóla Íslands starfaði ég á sumrin hjá Starfsmannahaldi Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Í jólafríjum og eftir útskrift vann ég hjá móður minni og bróður sem bæði ráku skóverslanir. Svo átti ég stutt stopp hjá heildversluninni Garra við innheimtu. Fór svo í starf aðstoðarmanns ræðismanns hjá Sendiráði Bandaríkjanna. Þar var ég í 5 ár. Eftir það réði ég mig til ORF Líftækni sem aðstoðarmanns fjármálastjóra. Var þá í fjármálum. Starfið þróaðist svo út í að ég hugsaði um hluta af starfsmannamálunum. Ég fékk svo eins og áður segir tækifæri til að mennta mig meðfram starfi og tók við starfi mannauðsstjóra fyrirtækisins ári áður en ég lauk náminu. Það var mjög gefandi að vinna hjá ORF Líftækni, starfaði með 5 ólíkum forstjórum, frábæru starfsfólki og ég lærði gríðarlega margt. Þar var ég í 15 ár og fyrirtækið á stóran sess í hjarta mínu. Árið 2021 urðu kaflaskil og ég hætti hjá ORF Líftækni og stofnaði mitt eigið fyrirtæki, Hoobla.“
Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðum þínum?
„Börnin mín eru heilbrigð, ég á góðan mann og við eigum gott líf. Ég held maður verði bara að vera þakklátur fyrir það. Það er það dýrmætasta í heiminum. Núna í júní varð Hoobla tveggja ára og ég veit að það eru ekki öll sprotafyrirtæki sem ná þeim aldri. Ég er því líka þakklát fyrir það, þakklát fyrir meðeigendur mína og allt það góða fólk sem ég hef kynnst frá því ég stofnaði Hoobla. Það verða svo alltaf til ný markmið og ég held ég eigi svo ótal margt eftir. Framtíðin er spennandi.“
Hvað gefur vinnan þér?
„Fyrir utan að „sjá til þess að maður eigi í sig og á“ þá gerir vinnan mig stolta. Ég er líklega af gamla skólanum þar sem oft var sagt að „vinnan göfgar manninn“. Ég held að hæfileg vinnusemi geri manni gott bæði á líkama og sál.“
Hver er uppáhaldsdagurvikunnar og hvers vegna?
„Sá dagur vikunnar sem ég næ að fá bæði börnin mín til okkar í mat á sama tíma eru í uppáhaldi. En þau eru bæði mikið að vinna og í námi þannig að oft er erfitt að ná öllum saman.“
Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?
„Líklega geri ég það alltaf af og til. Ég bremsa þá aðeins og skoða vinnuálagið. Met hvort það er eitthvað sem ég get sleppt. Eru einhver verkefni sem ég get látið í hendurnar á öðrum eða notað einhvern búnað sem léttir mér vinnuna. Það er mikilvægt að stuðla að því að álag verði ekki langvarandi. Ég hef reynt að halda þá reglu að halda helgunum án vinnu. Að mestu hefur það tekist. En oft er vinnan í kollinum á manni þó maður sé ekki að vinna. Það er erfiðara að eiga við það. En góð fjallganga, sjósund og skemmtilegar stundir með fjölskyldu og vinum er endurnærandi.“
Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar stjórnendur í fyrirtækjum en karlmenn?
„Ég held að það sé ekki algengt í dag. Við eigum svo mikið af frambærilegum konum.“
Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?
„Fyrir utan móður mína og tengdamóður sem eru stórkostlegar konur þá dáist af þeim konum sem hafa rutt brautina varðandi kvenfrelsi og kvenréttindi. Okkar kynslóð kvenna er heppin að fá að standa á herðum þessara kvenna.“
Ertu með hugmynd um hvernig er hægt að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt?
„Ég er kannski ekki með lausnina. En við Íslendingar erum þó að standa okkur mjög vel í samanburði við aðrar þjóðir á því sviði. En ég hvet allt fólk til að eiga árlegt launaviðtal við sinn yfirmann. Held það sé vænlegast til árangurs ef fólk upplifir að sér sé mismunað.“
Hvernig skipuleggur þú daginn?
„Ég skrái allt sem ég geri í dagatal. Áður en ég fer heim úr vinnu í lok dags fer ég yfir dagskrá morgundagsins og skoða hvort ég þurfi að undirbúa eitthvað fyrir morguninn. Reyni að klára það áður en ég fer heim.“
Hvernig er morgunrútínan þín?
„Almennt vil ég eiga rólega stund með sjálfri mér áður en ég fer til vinnu. Nýlega byrjaði ég að gera stutta joga æfingu fljótlega eftir að ég vakna og ætla að leggja mig fram um að halda þeirri rútínu áfram. Svo hef ég mig til fyrir daginn. Fæ mér léttan morgunmat og geri yfirleitt eina sudoku þraut á meðan ég borða. Fer svo af stað til vinnu.“
Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?
„Ég heyrði að þegar maður stofnar fyrirtæki (ehf.) – þá stæði „ehf“ fyrir „ekkert helv.... frí“ (bros). Dagarnir geta oft orðið langir og vinnan er alltaf í kollinum á manni. En ég hef undanfarið verið að festa mig við að mæta í ræktina á ákveðnum tíma eftir vinnu til að ég neyðist til að koma mér úr vinnunni. Það hefur verið mjög hjálplegt til að halda vinnudeginum hæfilega löngum.“
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?
„Mér finnst skemmtilegast að vera með fjölskyldu og vinum, borða saman góðan mat og eiga góðar stundir. Svo finnst mér gaman að fara í gönguferðir og ferðalög innanlands og utan.“
Hvernig leggst veturinn í þig?
„Veturinn leggst mjög vel í mig. Er spennt fyrir verkefnunum framundan. Við erum búin að taka í gagnið glænýjan vef hjá Hoobla sem auðveldar aðgengið að sérfræðingum svo stórkostlega að ég get ekki annað en verið full tilhlökkunar.“
Hvað ætlar þú að gera til þess að hann verði sem bestur?
„Gildi Hoobla eru fagmennska, kraftur og gleði. Ég ætla að halda þessum gildum á lofti og þá getur þetta ekki orðið öðruvísi en gaman.“