Hildur heldur jól í húsi frá 1777

Jóla jóla ... | 18. desember 2023

Hildur heldur jól í húsi frá 1777

Hildur Ársælsdóttir býr í litlu húsi frá 1777 rétt fyrir utan Kaupmannahöfn ásamt eiginmanni sínum, Claes Berland, og þremur börnum. Þau byrja að borða klukkan sjö á aðfangadagskvöld þegar jólin eru hringd inn á Íslandi.

Hildur heldur jól í húsi frá 1777

Jóla jóla ... | 18. desember 2023

Hildur og hundurinn Thor í jólastemningu.
Hildur og hundurinn Thor í jólastemningu.

Hildur Ársælsdóttir býr í litlu húsi frá 1777 rétt fyrir utan Kaupmannahöfn ásamt eiginmanni sínum, Claes Berland, og þremur börnum. Þau byrja að borða klukkan sjö á aðfangadagskvöld þegar jólin eru hringd inn á Íslandi.

Hildur Ársælsdóttir býr í litlu húsi frá 1777 rétt fyrir utan Kaupmannahöfn ásamt eiginmanni sínum, Claes Berland, og þremur börnum. Þau byrja að borða klukkan sjö á aðfangadagskvöld þegar jólin eru hringd inn á Íslandi.

„Ég elska jólin og hef alltaf verið mikið jólabarn, sérstaklega eftir að ég varð móðir þá fannst mér mjög mikilvægt að búa til okkar eigin hefðir. Ég hugsaði fljótt út í að ég þyrfti að sameina á einhvern hátt dönsku og íslensku hefðirnar og finnst það hafa tekist ágætlega,“ segir Hildur Ársælsdóttir sem starfar sem framkvæmdastjóri vöru- og markaðssviðs danska snyrtivörumerkisins Miild sem var nýlega keypt af Matas sem er stærsta snyrtivöruverslunarkeðja á Norðurlöndum.

Hvað finnst þér gaman að gera á aðventunni?

„Á hverjum sunnudegi á aðventunni horfum við maður minn á Die Hard-myndirnar. Við byrjum á Die Hard 1 og svo næstu þrjá sunnudaga horfum við á númer 2, 3 og 4. Við byrjuðum á þessari hefð áður en við eignuðumst börn og mér þykir vænt um að við höfum haldið í hefðina á hverju ári, þess vegna kemst ég alltaf 100 prósent í jólaskap á fyrsta í aðventu. Ég hlakka til þegar krakkarnir verða svo stórir að þau geta horft með okkur.“ 

Jólin eru uppáhaldstími barnanna og er gaman að upplifa jólin …
Jólin eru uppáhaldstími barnanna og er gaman að upplifa jólin í gegnum þau.

Eru með tvo aðalrétti

Síðastliðin fimm ár hefur Hildur haldið jólin hátíðleg í Danmörku ásamt tengdafjölskyldu sinni.

„Maðurinn minn er einkabarn og kemur öll fjölskyldan hans til okkar á aðfangadag. Þau koma til okkar um fjögur og byrja á að fara með elstu krakkana upp í kirkjugarð til að kveikja kerti á leiði langafa þeirra. Á meðan er ég í eldhúsinu með tengdamömmu þar sem við matreiðum bæði íslenskan og danskan jólamat. Ég er alltaf með hið klassíska, íslenskan hamborgarhrygg, brúnaðar kartöflur, rauðvínssósu og meðlæti. Tengdafjölskylda mín borðar flæskesteg eða purusteik og fyrstu þrjú árin vorum við einnig með önd. Sem betur fer voru allir sammála um að það væri alveg nóg að hafa aðeins tvær jólamáltíðir. Við borðum alltaf klukkan 19:00 en þá getum við hlustað á RÚV þegar jólin eru hringd inn og kysst hvort annað gleðileg jól, það er ein af þessum íslensku hefðum sem mér þykir mjög vænt um og Danirnir eru ekki með.

Við erum alltaf með möndlugraut með kirsuberjasósu í eftirrétt sem ég veit að margar íslenskar fjölskyldur eru líka með. Ég ólst upp við ís og konfektmola í eftirrétt svo fyrir mér er þetta nýtt og krökkunum finnst þetta mjög spennandi, sérstaklega þegar þau vinna möndlugjöfina. Við setjumst inn í stofu til að opna pakkana um átta og gefum okkur alltaf góðan tíma þar sem krakkarnir fá að vera með að dreifa gjöfunum. Áður en við opnum gjafirnar dönsum við í kringum jólatréð, sem er dönsk hefð.“

Hildur leggur fallega á jólaborðið.
Hildur leggur fallega á jólaborðið.

Eru dönsk jól á einhvern hátt öðruvísi?

„Ef ég á að vera alveg heiðarleg, þá finnst mér það ekki. Fyrir utan nokkrar hefðir sem ég hef minnst á þá er þetta ósköp svipað og snýst einungis um að vera sameinaður með fjölskyldu sinni og þeim sem maður elskar mest, borða góðan mat og slappa af.“ 

Jólakötturinn á leið fram hjá húsi Hildar

Fjölskyldan er líka með skemmtilegar hefðir fyrir jólin.

„Við förum alltaf og veljum jólatré saman með tengdaforeldrum mínum. Við höfum farið á sama stað síðustu fjögur ár þar sem við sögum niður tréð sjálf. Þar er fullt af hreindýrum sem krakkarnir geta gefið gulrætur og sagt hæ við. Mér finnst þetta yndisleg hefð og krakkarnir elska þetta. Við nýtum einnig tækifærið og segjum þeim að þau geti sagt hreindýrunum allar jólaóskir sínar og hreindýrin munu skila því til jólasveinsins. Þegar tréð er valið höldum við heim og ég baka danskar æbleskiver og útbý jólaglögg fyrir fullorðna.“

Fjölskyldan fer í jólaskóg og finnur eigið tré.
Fjölskyldan fer í jólaskóg og finnur eigið tré.

Reynir þú að halda í séríslenskar hefðir í Danmörku?

„Já, ég reyni það, við setjum skóinn út í glugga og tölum um alla 13 jólasveinana en á sama tíma eru dagatalsgjafir í Danmörku svo flest börn fá „í skóinn“ frá 1. desember. Mér finnst ósanngjarnt að mín börn fái aðeins 13 gjafir þegar allir vinirnir í leikskólanum og skólanum fá 24 pakka. Svo ég hef þurft að breyta aðeins til. Annars reynum við eftir bestu getu að borða flatkökur og hangikjöt á Þorláksmessu, maðurinn minn hefur prufað eina skötuveislu þegar við héldum jól á Íslandi og saknar þess ekki. Ég er enn að reyna að selja honum að öll börn þurfi ný nærföt og jólaföt á jólunum annars lenda þau í jólakettinum.“

Breytist jólahaldið eftir að maður eignast börn?

„Já, alveg svakalega, allt í einu snýst allt um að þau fái góðar minningar og góðar stundir. Það er alveg yndislegt að upplifa jólin í gegnum börnin sín, svo mikil gleði og spenningur – enda næstum uppáhaldstími allra krakka.“

Börn fá vegleg jóladagatöl í Danmörku.
Börn fá vegleg jóladagatöl í Danmörku.

Elskar að skreyta fyrir jólin

Ertu mikið fyrir að skreyta heimilið fyrir jólin?

„Ég elska að skreyta og innrétta heimilið okkar fyrir jól, ég get alveg eytt góðum tíma í að stílisera hin minnstu smáatriði. Mér finnst ég fara alla leið en það væru væntanlega ekki allir sammála mér. Ég vil að jólaskreytingar passi inn í stílinn okkar, svo ég er ekki að tala um plastjólasveina og fljúgandi hreindýr úti í garði, meira hrátt og lúmskt sem smellpassar fyrir okkar hús. Mér finnst flottur heimatilbúinn aðventukrans gera rosalega mikið og reyni ég að útbúa slíkan á hverju ári.“

Hvernig hugsar þú um jólatísku?

„Það er engin spurning að ég tek alltaf fram rauðan varalit um hátíðirnar, hvort sem það er á aðfangadag eða fyrir jólaboðið. Svo á ég það til að sækja meira í glimmer, hvort sem það er fallegur augnskuggi með glimmer í eða jólakjóll með pallíettum.“

Jólatréð er fallega skreytt og börnin hjálpa til.
Jólatréð er fallega skreytt og börnin hjálpa til.

Mátti ekki hreyfa sig á aðfangadag

Hafa einhver jól verið sérstaklega eftirminnileg?

„Ég á tvö janúarbörn, og jólin 2021 munu alltaf standa upp úr þar sem á Þorláksmessukvöld var ég viss um að mín yngsta væri að koma. Við vorum send heim aftur og ég mátti ekki hreyfa mig á aðfangadag þar sem maðurinn minn vildi ekki deila afmælisdeginum sínum. Hann er nefnilega fæddur 24. desember og vildi helst að ég myndi halda henni inni í nokkra daga í viðbót. Hún kom í heiminn aðfaranótt 2. janúar.“

Hvernig eru jólin hjá ykkur í ár?

„Jólin í ár verða að sama skapi og síðustu fimm ár, þetta gætu hinsvegar orðið seinustu jólin okkar í þessu húsi, þar sem við höfum nýlega sett húsið okkar á sölu og erum að leita að stærra húsi með meira pláss fyrir fjölskylduna.“

Hreindýrin taka við jólaóskum.
Hreindýrin taka við jólaóskum.
mbl.is