Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, heldur jólin á Íslandi með eiginmanni sínum, Ómari Páli Sigurbjartssyni, og syni þeirra Brynjari Atla fimm ára. Fjölskyldan býr í London en á sumarbústað rétt utan við Hellu þar sem þau halda upp á jólin.
Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, heldur jólin á Íslandi með eiginmanni sínum, Ómari Páli Sigurbjartssyni, og syni þeirra Brynjari Atla fimm ára. Fjölskyldan býr í London en á sumarbústað rétt utan við Hellu þar sem þau halda upp á jólin.
Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, heldur jólin á Íslandi með eiginmanni sínum, Ómari Páli Sigurbjartssyni, og syni þeirra Brynjari Atla fimm ára. Fjölskyldan býr í London en á sumarbústað rétt utan við Hellu þar sem þau halda upp á jólin.
„Ég er mjög mikið jólabarn og hef alltaf verið. Ætli það sé ekki bara jólaskrautið, ljósin, lögin og bíómyndirnar. Mér finnst samverustundirnar yndislegar og fátt toppar jólasnjóinn,“ segir Dagný sem leikur knattspyrnu með enska liðinu West Ham.
Aðspurð segir Dagný fjölskylduna vera mjög spennta að koma heim en það fylgi því ákveðið stress að búa í öðru landi og halda jól á Íslandi.
„Við komum heim rétt fyrir jólin og þá á eftir að gera heilan helling. Það á eftir að pakka inn jólagjöfunum, kaupa jólatré, skreyta sumarbústaðinn, skrifa jólakort, kaupa í matinn og baka allavega eina sort af smákökum. Ofan á það þarf svo auðvitað að taka upp úr ferðatöskunum og ganga frá öllu. Við fjölskyldan förum alltaf í skötuveislu á Þorláksmessukvöldi til mömmu þar sem við hittum fjölskyldu og vini en mér finnst það ómissandi. Sonur minn er reyndar með fiskiofnæmi svo að hann fær pítsu. Eftir að við fluttum til London höfum við borðað möndlugraut heima hjá mömmu í hádeginu á aðfangadag en mamma býr í göngufjarlægð frá bústaðnum okkar. Þangað kemur systir mín og fjölskyldan hennar og amma. Við fjölskyldan borðum svo jólamatinn heima hjá mömmu þar sem eldhúsið er mjög lítið í bústaðnum en svo röltum við fjölskyldan yfir í bústaðinn og opnum pakkana þar og fáum okkur eftirrétt í rólegheitunum.“
Hefur þú prófað að halda jól erlendis?
„Ég hef einu sinni haldið jólin á Flórída þegar ég bjó þar. Þangað komu mamma og maðurinn hennar, maðurinn minn, amma og afi og systkini mín og fjölskyldur og við héldum jólin öll saman í Orlando. Mér fannst mjög gaman að prófa það. Jólin voru heldur rólegri og maður var ekki á eins miklum þeytingi. Það var að mörgu leyti þægilegt að þurfa ekki að vera keyrandi út um allt og fara í fullt af jólaboðum. Mér finnst samt jólin á Íslandi vera ómissandi og mér finnst dásamlegt að koma heim í íslenska veturinn og jólahefðirnar og þá sérstaklega núna eftir að ég varð móðir. Mér finnst mikilvægt að sonur minn fái að upplifa íslensk jól, með íslensku söngvunum og jólasveinunum og að hann fái að upplifa jólin með ættingjum og vinum þar sem við erum auðvitað mikið þrjú saman í London.“
Eru jólahefðirnar alveg íslenskar eða hafa einhverjar erlendar hefðir smitast í þitt jólahald?
„Ég myndi segja að jólahefðirnar okkar séu alveg frekar íslenskar fyrir utan eina. Sonur minn fær alltaf einn jólapakka undir tréð sem er frá SantaClaus enda er það jólasveinninn úti í heimi og hann gleymir ekkert syni mínum þó að hann sé á Íslandi með íslensku jólasveinunum.“
Ertu með einhverjar skemmtilegar hefðir um jólin?
„Úti í London erum við með álfinn frá 1. desember og þangað til við fljúgum heim til Íslands en álfurinn verður alltaf eftir í London enda á hann heima þar. Sonur minn er eiginlega spenntari fyrir honum en jólasveinunum. Covid-jólin 2020 gerði ég svo heimatilbúið fjölskyldudagatal sem mig langar að halda í þegar við flytjum heim til Íslands. Þá gerðum við fjölskyldan eitthvað saman á hverjum degi. Það er erfitt að hafa dagatalið í gangi þegar við erum í tveimur löndum í desembermánuði. Önnur hefð hjá okkur er svo að allir í fjölskyldunni setja skóinn út í glugga og fá fallega gjöf frá Kertasníki. Ég ólst svo upp við það að fara alltaf í miðnæturmessu á aðfangadagskvöldi og það er hefð sem að mig langar að taka upp aftur þegar ég flyt til Íslands.“
Dagný og Ómar eiga von á sínu öðru barni eftir áramót. Þrátt fyrir að Dagný sé hætt að spila leiki er rútínan hennar eins og venjulega og þar með undirbúningurinn fyrir jólin.
„Að mörgu leyti eru jólin svipuð. Ég mæti enn á allar æfingar í desember og tek þátt í heimaleikjunum þó að ég sé ekki að spila. Seinasti leikur fyrir jól er útileikur hjá liðinu svo við fjölskyldan fljúgum heim til Íslands saman í þetta sinn. Undanfarin ár þegar ég er að spila hafa maðurinn minn og sonur flogið heim til Íslands nokkrum dögum á undan mér þar sem ég er oft að koma til Íslands frekar seint eða í kringum 20. desember. Ætli jólin verði að mörgu leyti ekki bara aðeins rólegri hjá mér þar sem ég verð komin ansi langt á meðgöngunni. Sonur minn fæddist rúmum mánuði fyrir tímann svo ég ætla að reyna að halda þessu barni inni aðeins lengur. Við ætlum að eiga barnið á Íslandi svo við þurfum ekki að drífa okkur aftur út á nýju ári en oftast höfum við verið að fljúga aftur út 1. janúar.“
Breyttust jólin þegar þú varðst foreldri?
„Nei, þau breyttust ekki mikið. Ég grínaðist alltaf í manninum mínum að hann væri eins og Skröggur og Grinch enda var hann ekki alveg eins spenntur fyrir jólunum og ég. Eftir að við eignuðumst son okkar fékk ég einhvern til að deila gleðinni með og ætli við mæðgin höfum ekki náð fram smá jólaanda í manninum mínum líka. Mér finnst ótrúlega notalegt að horfa á jólabarnaefnið með syni mínum á aðfangadagsmorgni og svo reynum við fjölskyldan að fara eitthvað út að leika líka til að stytta biðina. Í fyrra snjóaði mikið og þá gátum við farið út á sleða og vorum svo öll saman í traktornum að ryðja snjó.“
Hvað borðar þú um jólin?
„Ég ólst upp við það að borða heilan kalkún. Í dag borðum við fylltar kalkúnabringur með döðlufyllingu. Það er misjafnt hvað er í forrétt en það getur verið humar, humarsúpa eða grafinn lax. Það er aðeins misjafnt svo hvað er í eftirrétt en oftast geri ég einhverja góða köku.“
Ertu vön að æfa vel yfir hátíðarnar eða nýtir þú þessa daga til að slaka á og borða góðan mat?
„Ég er alltaf dugleg að æfa og þar eru hátíðarnar engin undantekning. Ég tek mér kannski þriggja daga frí í kringum jólin en að vera afreksíþróttakona er lífsstíll. Ég elska að æfa og borða hollan mat. Ætli ég æfi samt sem áður ekki aðeins minna þessi jólin og af minni ákefð.“
Smitast keppnisskapið á einhvern hátt inn í jólin hjá þér?
„Ætli keppnisskapið komi ekki mest út í spilunum og í íþróttahúsinu. Tengdamamma mín hefur verið húsvörður í íþróttahúsinu í Þykkvabænum í mörg ár svo við maðurinn minn höfum alltaf eytt miklum tíma þar yfir hátíðarnar í allskonar keppnum.“
Áttu uppáhaldsjólaminningu?
„Sem barn var ég svo ótrúlega hrædd við jólasveinana en desember var frábær fyrir foreldra mína þar sem ég hagaði mér alltaf svo vel þá miðað við hina mánuðina. Ein jólin voru foreldrar mínir með matarboð og ég vaknaði og vildi ekki fara aftur að sofa. Það bankaði svo jólasveinn á gluggann og pabbi henti mér út á pall til hans. Ég grenjaði úr mér lungun, ég var svo hrædd, og kom mér strax upp í rúm þegar ég var búin að jafna mig. Ég trúi enn á jólasveina eftir þetta kvöld.“