Jólin draga fram það besta í fólki

Jóla jóla ... | 24. desember 2023

Jólin draga fram það besta í fólki

Leifur Ragnar Jónsson, sóknarprestur í Guðríðarkirkju, er búinn að vera prestur í tæpan aldarfjórðung. Það er hans reynsla að fólk sýnir sínar allra bestu hliðar um jólin og vill gefa af sér. Í grunninn snúast jólin um að sýna kærleika og samhygð.

Jólin draga fram það besta í fólki

Jóla jóla ... | 24. desember 2023

Leifur Ragnar Jónsson er sóknarprestur í Guðríðarkirkju.
Leifur Ragnar Jónsson er sóknarprestur í Guðríðarkirkju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leifur Ragnar Jónsson, sóknarprestur í Guðríðarkirkju, er búinn að vera prestur í tæpan aldarfjórðung. Það er hans reynsla að fólk sýnir sínar allra bestu hliðar um jólin og vill gefa af sér. Í grunninn snúast jólin um að sýna kærleika og samhygð.

Leifur Ragnar Jónsson, sóknarprestur í Guðríðarkirkju, er búinn að vera prestur í tæpan aldarfjórðung. Það er hans reynsla að fólk sýnir sínar allra bestu hliðar um jólin og vill gefa af sér. Í grunninn snúast jólin um að sýna kærleika og samhygð.

„Ég hafði lengi vel haft áhuga á guðfræði en fannst það ekki fyrir mig á þeim tíma sem ég útskrifaðist með stúdentspróf tvítugur,“ segir Leifur um af hverju guðfræði og síðan prestsstarfið varð fyrir valinu. Eftir nám í sagnfræði og með viðkomu á vinnumarkaði ákvað hann að drífa sig í guðfræðina og með mikilli hvatningu frá eiginkonu sinni, Elsu Reimarsdóttur.

Leifur ólst að stórum hluta upp á Vopnafirði. „Ég var alinn upp við venjulega heimiliskristni, lærði bænir og sálmavers. Ég ólst upp í húsi þar sem afi og amma bjuggu á efri hæðinni. Amma mín var mjög trúuð og fór oft í kirkju og ég fór oft með sem barn. Húsið sem ég ólst upp í var og er við hliðina á kirkjunni. Ég man eftir því sem barn að prestarnir fengu stundum að skrýðast heima hjá mér. Mamma mín söng í kirkjukórnum.“

Getur breytt myrkri í ljós

Hvaða merkingu hafa jólin í þínum huga?

„Þetta er yndislegur tími hjá okkur flestum þar sem ég held að við sýnum það allra besta sem í okkur býr. Mín reynsla sem prestur er að fólk dregur fram það allra besta í sér á aðventunni og í kringum jólin. Nú þegar ég hef verið prestur í tæpan aldarfjórðung þá styrkist ég í þeirri skoðun minni. Það er til dæmis ólýsanlega ánægjulegt að fá til sín þrjá pilta, sem allir hafa fermst hjá manni, að gefa Bónuskort til bágstaddra. Eða einhver sem er að þakka fyrir lífslán og kemur með Bónuskort og gjafir til bágstaddra. Þá koma ýmsir aðilar, Kiwanisklúbbar o.fl. með framlög. Það er mikið leitað til okkar presta á aðventunni. Reyndar allt árið en mest á aðventunni og sem betur fer getum við hjálpað mörgum. Ég held að við drögum það besta fram sem við sýnum varðandi náungakærleika og samhygð.“

Leifur segir jólin lýsa upp heiminn. „Mér finnst þetta vera ákveðinn trúarvitnisburður. Jólin minna mig á að Jesús vill fylgja okkur og vill fá að vera með okkur. Hann getur breytt myrkri í ljós þar sem ljós hans fær að lýsa. Kannski á það ekki síst vel við núna, ég er t.d. að hugsa um fólkið í Grindavík sem við erum öll búin að hugsa vel og mikið til. Mér finnst það fallegt og gott hvað margir er boðnir og búnir til að hjálpa. Jólin boða nefnilega frið, kærleika og samhygð og draga oft fram það besta í okkur og samfélagi okkar. “

Yndislegt að kveðja fólkið eftir jólaguðsþjónustu

Hver er hápunkturinn í jólaguðsþjónustunni?

„Mér finnst óskaplega fallegt og hátíðlegt þegar Heims um ból er sungið. Það er líka yndislegt fyrir prest að standa í kirkjudyrum að lokinni guðsþjónustu og fá að kveðja fólkið allt, þakka fyrir samveruna og óska því gleðilegrar jólahátíðar. Maður finnur að fólkið fer glatt og ánægt heim til sín að eiga yndislega stund með sínu nánasta fólki og augljóst að fólk hlakkar til að njóta þeirra stundar.“

Hvernig er að vera prestur á jólunum?

„Það getur verið ansi annasamt og snúið. Það er oft mjög mikið að gera á jólunum. Fólk vill skíra og giftast í kringum jól og það getur verið mikið að gera varðandi það. Svo var ég prestur lengi úti á landi, vestur á Patreksfirði, og þjónaði í nokkrum kirkjum þar. Ég fór upp í að messa fjórum sinnum á aðfangadag og jafnvel þrisvar á jóladag.

Við hjónin eigum fjögur börn. Þegar þau voru yngri náði maður kannski rétt að borða með þeim og taka upp pakkana og svo sást maður lítið fyrr en seinni partinn á jóladag aftur. Ég veit að það mæddi oft mikið á eiginkonu minni. En nú er þetta orðið öðruvísi hjá okkur.“

Það er mikið að gera hjá prestum um jólin.
Það er mikið að gera hjá prestum um jólin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur eitthvað eftirminnilegt gerst í starfinu í kringum jólin?

„Það er ýmislegt sem getur komið upp á á jólum og hátíðum. Eitt sinn varð rafmagnslaust, bæði heima og í kirkjunni fyrir vestan. Það var messað við kertaljós minnir mig. Eitt sinn ætlaði ég að spara pappír og hafði ekki prentað út jólaræðuna og hugðist nota nýfenginn Ipad. Þegar til átti að taka, messan hafin, var hann hins vegar rafmagnslaus svo ég fór með ræðuna eftir minni og gekk sæmilega. En stressið var mikið!“

Höfum það gott á Íslandi

Leifur bendir á að lífið haldi áfram á jólunum, fólk fæðist og deyr. „Stundum hefur maður verið kallaður til vegna sorglegs dauðsfalls á jólum og þá getur það verið mjög erfitt. Auðvitað hugsar maður alltaf til þeirra sem glíma við jólin í sorg, einmanaleika, kvíða og veikindum. Maður veit að það er ekki sjálfgefið að hafa alla sína nánustu hjá sér alltaf, stundum vantar einhvern við hátíðarborðið. Það eru ekki allir sem geta notið jólanna, því miður. Lífið er svo mismunandi hjá okkur og glíman við sorg og missi er mörgu fólki erfið um jól. Fólk verður að glíma við sorgina og það sem henni fylgir á sínum forsendum,“ segir Leifur.

Erum við að leggja of mikla áherslu á að hafa skemmtilegt í kringum jólin?

„Lífið má alveg vera skemmtilegt en við gleymum því stundum að við erum ekki öll á sama stað í lífinu. Það er stundum mikil áhersla á fjörið og stuðið á meðan við gleymum hinum, en við megum líka leyfa okkur að vera glöð og kát. En muna eftir hinum af því að við getum öll verið í þeim sporum næstu jól.“

Um jólin er Leifi hugleikið ófriðarástand í heiminum og hvað Íslendingar mega vera þakklátir fyrir hlutskipti sitt.

„Það er hræðilegt ástandið á fæðingarslóðum Jesú. Það er skelfilegt að hugsa til þessara drápa sem þar standa yfir. Grimmdin sem þar ríkir á báða bóga er ofar okkar skilningi. Auðvitað hugsar maður til þess hvað við erum heppin hér á Íslandi og að við búum í landi þar sem ekki rignir yfir okkur sprengjum. Sá er því miður veruleiki milljóna manna. Auðvitað er þetta eitthvað sem maður getur ekki ímyndað sér,“ segir Leifur. Sjálfur er hann þakklátur fyrir sitt, fólkið sitt, samstarfsfólkið, samstarfsprest, organista, kór, kirkjuvörð og meðhjálpara. Allt hið besta fólk sem svo sannarlega gerir jólin helg í Guðríðarkirkju þar sem verður mikið líf um jól og áramót. Aðventuhátíð fer fram þar sem kórar kirkjunnar syngja og syngur Katrín Halldóra Sigurðardóttir meðal annars einsöng svo eitthvað sé nefnt.

mbl.is