Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Valgerður Jóndís Guðjónsdóttir eru blómahönnuðir sem nýta náttúruna til skreytingar. Greni, mosi og greinar eru meðal þess sem prýðir matar- og kaffiborðið þeirra fyrir jólin í ár.
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Valgerður Jóndís Guðjónsdóttir eru blómahönnuðir sem nýta náttúruna til skreytingar. Greni, mosi og greinar eru meðal þess sem prýðir matar- og kaffiborðið þeirra fyrir jólin í ár.
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Valgerður Jóndís Guðjónsdóttir eru blómahönnuðir sem nýta náttúruna til skreytingar. Greni, mosi og greinar eru meðal þess sem prýðir matar- og kaffiborðið þeirra fyrir jólin í ár.
Bryndís og Valgerður kenna blómaskreytingar á blómaskreytingabraut í Garðyrkjuskólanum auk þess sem þær reka fyrirtækið Blómdís og Jóndís blómahönnuðir. Verkefni vinkvennanna eru fjölbreytt, allt frá brúðkaupum yfir í stórar innsetningar. Undanfarin ár hafa þær skreytt stóru hjörtun í Hafnarfirði fyrir hverja árstíð, en þar koma margir við fyrir jólin og taka jafnvel jólamyndir ár eftir ár.
Heima hjá Bryndísi er búið að undirbúa matarboð með fallegum blómaskreytingum í miðjunni. Skreytingarnar eru bleikar, rauðar og grænar. Bryndís vann sig út frá stórum drumbi sem Valgerður fann úti í skógi.
„Mig langaði að vinna langa skreytinguna eftir öllu borðinu, ég bjó til kertahöldurnar með vír og plastkertahöldum og vafði mosa yfir til að gera höldurnar náttúrulegar svo þær falli inn í skreytinguna. Ég boraði svo með borvél göt í drumbinn og festi. Ég notaði einnig límbyssu til að þetta haldist allt á sínum stað, tilraunaglösin voru fest með þykkum vír og boraði einnig göt og límdi vírinn ofan í drumbinn. Einnig gerði ég kúlur úr mosa og stakk tilraunaglösum í kúluna og svo voru blómin sett í,“ segir Bryndís.
„Í staðinn fyrir að leggja matinn á mitt borðið myndi ég hafa hann á eyju, það eru svo margir komnir með eyju í eldhúsin sín. Þannig að það er hægt að ná sér í matinn og hafa skreytinguna á borðinu. Það væri líka hægt að setja matinn beint á diskinn og bera hann þannig fram,“ segir Bryndís.
Hvernig gerðir þú servíettuhringina?
„Servéttuhringina bjó ég til úr lerkigreinum, mótaði hring úr greinunum og bjó til litla kransa, rauðu berin heita rósanípur og eru til á þessum árstíma.“
Skreytingin er tilkomumikil en þrátt fyrir það segir Bryndís ekki kosta mikið að skreyta svona. „Efniviðurinn er að megninu til úr náttúrunni, ég notaði meðal annars furugreinar, keypti mosa og eitt rósabúnt. Þó skreytingin sé íburðarmikil þá kostar hún einungis nokkra þúsundkalla en hún er mikið handverk og kostar frekar mikla vinnu.“
Móðir Bryndísar er mikill fagurkeri og blómakona. „Í æsku var búið að leggja á jólaborð um tveimur dögum fyrir jól og jólabaðið var tekið í sundlaug bæjarins þar sem það var búið að þrífa baðið. Ég áttaði mig á því löngu seinna af hverju en það mátti ekki skíta út baðið,“ segir Bryndís kímin og játar að móðir hennar eigi eitthvað í því að hún valdi að læra blómaskreytingar.
Þær Bryndís og Valgerður eiga heima í sömu götu. Eftir matarboð heima hjá Bryndísi er boðið í kaffi heima hjá Valgerði aðeins innar í götunni. Á kaffiborðinu er græni liturinn allsráðandi. Inn á milli fá mandarínurnar og konunglegt kaffistell með gyllingu að njóta sín.
„Mig hefur lengi langað til að skreyta ljósakrónuna fyrir ofan borðstofuborðið, en ljósakrónan fylgdi húsinu þegar við fluttum hér inn fyrir þremur árum. Sú ákvörðun var tekin að gera það sem er kallað ský fyrir ofan borðið og nota ljósakrónuna sem grunn fyrir skýið. Skógurinn er einn af mínum uppáhaldsstöðum og alveg ómissandi að fara í skógarferð fyrir jólin og ná sér í efnivið til að skreyta með,“ segir Valgerður um skreytinguna.
„Ský er hægt að gera á ýmsa vegu, best er að hafa stöng eins og til dæmis kústskaft sem burð í skýinu en í þessu tilfelli var ljósakrónan þegar til staðar fyrir ofan borðið en ljósakrónan er löng stöng með nokkrum ljósum sem vísa niður. Hænsnavír er klipptur í hæfilega stærð og mótaður utan um stöngina, passa þarf að hænsnvírinn liggi ekki of þétt við stöngina heldur að hænsnavírinn móti formið á skýinu. Síðan er greinum og því efni sem óskað er eftir að nota stungið inn á milli gatanna á hænsnavírnum. Best er að byrja á að nota eitt efni í einu eins og til dæmis greinar sem grunnefni og svo næst til dæmis greni. Svo er haldið áfram að fylla í með því efni sem óskað er í skýið þar til skýið er orðið nokkuð þétt og ekki sést lengur í hænsnavírinn.
Ég er búin að ákveða að ég ætla ekki að taka skýið niður, furugreinum og öðrum jólagreinum verður skipt út fyrir annað náttúruefni sem passar að hafa allt árið. Einfalt er að skipta út efni í skýinu og bæta í ef eitthvað sérstakt er um að vera eins og til dæmis jól eða páskar, en til að halda því fallegu skiptir maður út því efni sem orðið er þreytt og nýtt efni sett í staðinn.“
„Amma mín handmálaði kaffistellið. Ég fékk það lánað hjá henni fyrir skírn og hún eiginlega bannaði mér að skila því og það endaði hjá mér sem arfur. Hún var alnafna mín og nafnið hennar er á stellinu,“ segir Valgerður.
„Amma var mikil blómakona en hún leyfði mér að tína blómi í garðinum hjá sér þegar ég var barn og segja má að áhuginn fyrir blómum hafi komið frá henni, hún hafði mikinn áhuga á garðrækt og var alltaf með blómlegan og fallegan garð. Á efri árum eignaðist hún gróðurhús og ræktaði ýmsar tegundir af rósum en þær voru í smá uppáhaldi hjá henni. Einhvern veginn er það nú þannig að blómin völdu mig og er ég endalaust þakklát fyrir öll þau fjölbreyttu verkefni sem ég hef unnið í gegnum árin, þetta er svo fjölbreytt starf sem tekur á öllum hliðum lífsins, bæði gleði, sorg og allt þar á milli. Að vinna með fallegan efnivið í handverki og hönnun sem snerti líka stundum listina er ómetanleg gjöf og ég gæti ekki verið þakklátari fyrir að hafa fundið mig í þessum blómaheimi.“
Þær Valgerður og Bryndís nota mikið tilraunaglös sem eru glær og mjó fyrir blóm. Þau eru fullkomin fyrir stilka og leyfa þar með blómunum að njóta sín. Valgerður setti jólarósina í slík glös á kaffiborðið. „Jólarósin eða Helleborus orientalis er meira þekkt annars staðar á Norðurlöndum en hér á landi. Hún er þá helst fáanleg afskorin frá nóvember og fram í maí. Eitthvað er um að hún sé ræktuð í görðum hér á landi og er hún þá í blóma frá maí og fram í júní,“ segir Valgerður.
Má taka allt úr náttúrunni, til dæmis mosa og hvar finnið þið efniviðinn ykkar?
„Efniviðinn finnum við í okkar nærumhverfi. Við höfum það að leiðarljósi að ganga vel um náttúruna og taka eingöngu þar sem að við vitum að má taka án þess að skilja eftir okkur sár í náttúrunni. Náttúran okkar er viðkvæm og hana ber að umgangast af virðingu og nærgætni. Ágætt er að hafa í huga að fá leyfi hjá landeiganda ef farið er inn á þannig svæði. Mosinn er mjög viðkvæmur og hægvaxta og er hann að mestu friðaður hér á landi. Hægt er að fá innfluttan mosa í blómaverslunum,“ segja þær Bryndís og Valgerður.
Eigið þið uppáhaldsplöntu eða -blóm um jólin?
„Þetta er svo erfið spurning og ég á erfitt með að gera upp á milli því mér finnst öll blóm falleg á sinn hátt, en ég dáist alltaf að orkídeum og finnst þær svo dásamlega flottar og sérstakar,“ segir Bryndís.
„Allar plöntur hafa sinn sjarma og eiginleika sem eru svo dásamlegir að ekki er hægt að gera upp á milli og því allar plöntur uppáhaldsplöntur en í ár er jólarósin í uppáhaldi hjá mér,“ segir Valgerður.
Jólin eru mikill annatími hjá þeim Bryndísi og Valgerði bæði í kennslu og mismunandi verkefnum. Þær skreyta mikið fyrir fyrirtæki og eru með aðventunámskeið. Þær gefa sér þó líka tíma til að njóta með sínum nánustu.
„Ég ætla að skella mér í helgarferð til Manchester með stórfjölskyldunni, fara á fótboltaleik og á jólamarkað, fá mér kakó og njóta jólanna með fjölskyldunni,“ segir Bryndís um jólin í ár.
„Það eru jólatónleikar fram undan og jólabröns með vinkonunum, kósístundir með fjölskyldunni og aldrei að vita nema við fjölskyldan skellum okkur út fyrir landsteinana þar sem hitastigið er aðeins hærra en hér heima,“ segir Valgerður.