Áramótakræsingar Kjartans

Uppskriftir | 29. desember 2023

Áramótakræsingar Kjartans

Í tilefni áramótanna framreiðir Kjartan Gíslason súkkulaðigerðarmaður og annar stofnenda Omnom dýrðlegar áramótakræsingar og býður upp á frumlegar guðaveigar. Hann leyfir sér meira í hátíðarmatargerðinni þá og er ekki með neinar hefðir eins og á jólunum.

Áramótakræsingar Kjartans

Uppskriftir | 29. desember 2023

Kjartan Gíslason súkkulaðigerðarmaður ætlar að bjóða upp á dýrðlegar áramótakræsingar …
Kjartan Gíslason súkkulaðigerðarmaður ætlar að bjóða upp á dýrðlegar áramótakræsingar og frumlegar guðaveigar um áramótin. mbl.is/Árni Sæberg

Í tilefni áramótanna framreiðir Kjartan Gíslason súkkulaðigerðarmaður og annar stofnenda Omnom dýrðlegar áramótakræsingar og býður upp á frumlegar guðaveigar. Hann leyfir sér meira í hátíðarmatargerðinni þá og er ekki með neinar hefðir eins og á jólunum.

Í tilefni áramótanna framreiðir Kjartan Gíslason súkkulaðigerðarmaður og annar stofnenda Omnom dýrðlegar áramótakræsingar og býður upp á frumlegar guðaveigar. Hann leyfir sér meira í hátíðarmatargerðinni þá og er ekki með neinar hefðir eins og á jólunum.

„Áramótin eru æðislegur tími, það er alltaf einhver von sem kviknar í hjartanu við að taka á móti nýju ári. Áramótin er miklu afslappaðri tími en jólin,“ útskýrir Kjartan Gíslason, súkkulaðigerðarmaður og annar stofnenda Omnom.

Partímatur og þægindi

Áramótin hjá Kjartani eru að hans sögn mun meira spennandi matarlega séð. „Ég er mun hefðbundanri á jólunum en í kringum áramótin. Ég hef gaman af því að prófa nýja hluti um áramótin þó svo að ég hafi stundum wellington-steik.“ Hann útskýrir að eini fasti punkturinn um áramót sé kransakakan sem hann býður upp á á miðnætti með freyðivíninu. „Í ár langaði mig að breyta til,“ segir hann. „Mig langaði að hafa partímat, eitthvað sem er þægilegt að elda og fer vel ofan í mannskapinn og krefst þessi ekki að ég sé inni í eldhúsi allt kvöldið.“

Grísasíða með asísku ívafi

Á boðstólum hjá Kjartani og fjölskyldu í ár er hægelduð grísasíða með asísku ívafi ásamt soðbrauði (bao bun), kimchi-salati og hrísgrónum með chili. „Í eftirrétt ætla ég að bjóða upp á lakkríssúkkulaðimús með karamellusósu og hindberjum. Þetta er eftirréttur sem ég leita mikið í, hann er einfaldur og hægt að undirbúa daginn áður. Svo ekki sé minnst á að fólk kolfellur fyrir honum í hvert einasta skipti.“ Auðvitað er ekki hægt að fagna áramótunum án þess að vera með ljúffengan kokteil við hönd. „Mig langaði í eitthvað ferskt og öðruvísi en fannst nauðsynlegt að hafa smá súkkukaði í drykknum; „whiskey sour“ með kumquat, dvergappelsínu og kakóbitter.“

Hægelduð grísasíða og ljúffengt meðlæti verður á áramótaborði Kjartans.
Hægelduð grísasíða og ljúffengt meðlæti verður á áramótaborði Kjartans. mbl.is/Árni Sæberg
Soðbrauð (bao bun) með kimchi-salati og hrísgrjónum með chili.
Soðbrauð (bao bun) með kimchi-salati og hrísgrjónum með chili. mbl.is/Árni Sæberg

Kveiki á nokkrum stjörnuljósum

Hvað aðrar hefðir varðar segist Kjartan vera lítill flugeldamaður. „Ég kveiki á nokkrum stjörnuljósum, en við eigum tvo hunda og það þarf að huga vel að þeim á þessum degi. Stundum kíki ég á brennu ef ég er í stuði en það sem einkennir þetta kvöld á mínu heimili er afslöppun og ró. Það er gott að kveðja árið svoleiðis,“ segir hann brosandi. „Ég hlakka til næsta árs, það er mikið að gerast hjá Omnom sem ég hlakka til að deila með fólki.“

Kjartan deilir hér með lesendum Morgunblaðsins helstu uppskriftunum að áramótakræsingum sínum í ár. „Þessi uppskrift að kranskakökunni er fengin að láni hjá honum Örvari bakarameistara hjá Nýja kökuhúsinu sem er alveg skotheld og ég hef notað mörgum sinnum.“

Hér er kransakakan hans Örvars komin í hátíðarbúning og hana …
Hér er kransakakan hans Örvars komin í hátíðarbúning og hana býður Kjartan upp á með freyðivíninu. mbl.is/Árni Sæberg

Kransakaka að hætti Örvars

Fyrir 10-15

  • 1 kg kransakökumassi (Odense)
  • 500 g sykur
  • 1 stk. eggjahvíta
  • Glassúr
  • 1 stk. eggjahvíta
  • flórsykur eftir þörfum.

Aðferð:

  1. Hrærið saman kransakökumassa og sykur í hrærivél eða blandara, bætið hvítunum út í í restina.
  2. Rúllið í um það bil 1,5 cm þykka lengju og klappið niður með hendinni.
  3. Skerið svo fyrsta bitann 10 cm langan og mótið í hring, svo næstu alltaf 3 cm lengri (13, 16, 19 o.s.frv.) þar til þið eruð komin með 12 hringi.
  4. Bakið svo í um það bil 10-12 mínútur við 180°C hita í bakarofni.

Omnom-lakkríssúkkulaðimús með karamellusósu

Fyrir 6

  • 250 g rjómi
  • 30 g hrásykur
  • 190 g Omnom-lakkríssúkkulaði, saxað
  • 500 g rjómi, kaldur
  • hindber til skrauts

Aðferð:

  1. Sjóðið 250 g af rjómanum með sykri og hellið yfir súkkulaðið, blandið vel með töfrasprota, þar til falleg heild myndast.
  2. Blandið með afganginum af rjómanum (500 g) út í.
  3. Kælið vel í 3-4 klukkutíma, helst sólarhring.
  4. Þeytið líkt og þið væruð að þeyta rjóma í hrærivél, passið að ofþeyta ekki, og sprautið í skálar, hellið ögn af karamellusósunni yfir og skreytið með hindberjum.

Karamellusósa

  • 190 g sykur
  • 190 g hunang
  • 190 g mjólk
  • 10 g salt
  • 150 g smjör
  • 250 ml rjómi

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í stóran pott nema rjóma. Hitið upp í 124°C og hrærið stöðugt á meðan. Bætið rjómanum út í og hitið aftur í 124°C hita.

Dvergappelsínu-„whiskey sour“

Fyrir 1

  • 60 ml Bourbon-viskí
  • 15 ml límónusafi
  • 15 ml sítrónusafi
  • 15 ml dvergappelsínusíróp (uppskrift fyrir neðan)
  • 1 eggjahvíta
  • nokkrir dropar af kakóbitter eða Angostura
  • ísmolar

Aðferð:

  1. Blandið saman viskíi, límónu- og sítrónusafa ásamt sykursírópi og eggjahvítu í kokteilhristara og hristið vel í 10-20 sekúndur til að búa til góða froðu.
  2. Bætið tveimur stórum ísmolum við og hristið í aðrar 20 sekúndur.
  3. Hellið og sigtið í kælt glas og bætið við nokkrum dropum af bitter ofan á.

Dvergappelsínusíróp

  • 100 g sykur
  • 100 g vatn
  • 50 g dvergappelsínur, skornar í sneiðar

Aðferð:

  1. Setjið sykur og vatn í pott og sjóðið saman.
  2. Bætið við appelsínum og sjóðið rólega í fimm mínútur.
  3. Látið kólna.
Unaðsleg súkkulaðimús með lakkrískeim að hætti súkkulaðigerðarmannsins steinliggur um áramótin.
Unaðsleg súkkulaðimús með lakkrískeim að hætti súkkulaðigerðarmannsins steinliggur um áramótin. mbl.is/Árni Sæberg
Dvergappelsínu „whiskey sour“ er áramótadrykkur fyrir fullorðna.
Dvergappelsínu „whiskey sour“ er áramótadrykkur fyrir fullorðna. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is