Ljósmyndarinn Gunnar Freyr Gunnarsson hefur verið duglegur að ferðast um landið í ár. Hann gerði upp ferðaárið í myndum og máli fyrir ferðavef mbl.is. Gunnar er nú þegar farinn að skipuleggja ferðaárið 2024.
Ljósmyndarinn Gunnar Freyr Gunnarsson hefur verið duglegur að ferðast um landið í ár. Hann gerði upp ferðaárið í myndum og máli fyrir ferðavef mbl.is. Gunnar er nú þegar farinn að skipuleggja ferðaárið 2024.
Ljósmyndarinn Gunnar Freyr Gunnarsson hefur verið duglegur að ferðast um landið í ár. Hann gerði upp ferðaárið í myndum og máli fyrir ferðavef mbl.is. Gunnar er nú þegar farinn að skipuleggja ferðaárið 2024.
Hvað er skemmtilegasta ferðalagið sem þú fórst í á Íslandi árið 2023?
„Skemmtilegasta ferðalagið var án efa ferðin í Landmannalaugar, þar sem ég tók myndir á meðan verið var að smala á Landmannarétti. Ég fékk að sjá Fjallkónginn á heimaslóðum og allt hið frábæra fólk þarna á svæðinu. Þetta var algjörlega ótrúlegt að upplifa og samsetningin af þessu frábæra fólki, landslaginu og öllum sauðkindunum var bara ólýsanleg. Ég tók myndir í þrjá daga og einn daginn gekk ég yfir 20 kílómetra á fjöllum, sem var alveg magnað. Ég mun örugglega fara aftur og taka myndir af þessum einstaka viðburði. Eftir það tók ég strákinn minn með mér á réttirnar við Landmannarétt, og það var gríðarlega skemmtilegt. Hann fékk að hjálpa til við að reka kindurnar í dilkana, taka myndir og prófa glímu og það var allt svakalaga spennandi. Ég hef kynnst fullt af fólki þarna og það hefur verið æðislegt að fá að upplifa þessa íslensku menningu,“ segir Gunnar Freyr en segir ferðalagið í Dimmuborgir í byrjun desember einnig hafa staðið upp úr. Þangað fór hann með fjölskyldunni og hitti jólasveinanna.
Uppgötvaðir þú einhvern nýjan stað á Íslandi?
„Mig hefur lengi langað að skoða Krakatind, en einhverra hluta vegna hef ég alltaf átt annað erindi þegar ég hef verið á svæðinu – og svo var ég nokkur ár án almennilegs jeppa vegna litlu tvíburanna, COVID, og fleira. En loksins er ég kominn á almennilegan jeppa aftur, @thelavajeep, og for að skoða Krakatind í sumar. Vegurinn þangað getur verið mjög lélegur, og það er vel varað við því. En það er náttúrulega bara skemmtilegur hluti af ævintýrinu.
Ég fór þangað með nokkrum góðum vinum, við löguðum kaffi og skemmtum okkur svakalega. Ég verð að segja að Krakatindur er eitt flottasta fjallið á landinu – sérstaklega vegna þess að hann er svo grófur og stendur þarna alveg einn við hraunið.“
Besta sundlaugin árið 2023?
„Ég fór hringferðina með alla fjölskylduna, við Kasia og strákarnir okkar þrír, og það var svakalega gaman. Ég verð að taka fram Vök Baths því hún er bæði falleg en líka mjög þægileg með börn og það er gott aðgengi og þannig skemmtileg fyrir alla fjölskylduna. Svo fórum við líka í sund á Akureyri og þetta er náttúrlega alveg geggjuð sundlaug. Það er mjög hressandi rennibraut þarna sem heitir Trektin og hún mjög skemmtileg. Ég veit ekki hversu oft ég og sex ára strákurinn minn fórum í hana en það var að minnsta kosti mjög oft.
Svo reyndar fann ég líka skemmtilega leynilaug þegar ég keyrði á Vestfirði. Ég ætla ekki að nefna hana með nafni, en hún er þarna á leiðinni á Reykjanesið á Vestfjörðum og er bara lítill kofi byggður yfir laugina og maður getur setið þarna alveg einn í friði og horft út. Alveg einstök upplifun. Það eru örugglega einhverjir lesendur sem þekkja þessa laug og vita hvað ég er að tala um.“
Fórstu í skemmtilega ferð til útlanda?
„Já, við fórum með strákana í tvær ferðir erlendis. Fyrst til Barcelona í vor og svo til Rómar í haust. Báðar ferðir voru geggjaðar og gaman að lengja sumarið svona báðu meginn. Barcelona er geggjaður áfangastaður með lítil börn. Það er alveg smá vesen að ferðast með svona mörg ung börn og stundum verður maður svolítið þreyttur, en þetta eru svo æðislegar minningar sem við eigum saman eftir svona ferðalög. Við reynum ekki að láta það stöðva okkur að vera með lítil börn, meðal annars tvíbura og einn sem er flogaveikur.
Við fórum í byrjun apríl og fengum að smakka vorið þarna. Gistum í mjög skemmtilegu hverfi sem heitir Gracia sem er bæði rólegt en líka svolítið hipp og kúl. Það sem stóð upp úr eru hvað eru mörg lítil torg þarna með leikvöllum og þar sem við fullorðna fólkið gátum setið og borðað tapas og fengið eitthvað gott að drekka og krakkarnir leikið sér á torginu og skemmt sér á meðan.“
Borðaðir þú á góðum veitingastað úti á landi?
„Við borðuðum svokallað Viking Feast í Hella Caves hjá Hótel Rangá. Það var geggjað - bæði var maturinn frábær en svo var þetta bara skemmtileg upplifun. Mer finnst svo gaman þegar umhverfi og matur er hugsað saman til að útbúa einstaka heildarupplifun.“
Stendur einhver mynd sem þú tókst árið 2023 upp úr og af hverju?
„Ég tók eina mynd af eldgosinu við Litla Hrút í sumar sem hefur verið mjög vinsæl og mér þykir mjög vænt um. Ég hef kallað hana „Augað" og er mynd af gosinu sem lítur út eins og auga sem grætur. Pubity deildi meðal annars myndinni þar sem hún fékk milljón „likes.“
Hvaða mynd hjá þér hefur fengið flest „like“ í ár?
„Það eru nokkrar myndaseríur sem hafa gengið rosalega vel. Meðal annars kindamyndirnar mínar sem hafa verið að gera mikla lukku. Þessi hér fyrir neðan fékk næstum því 200 þúsund „likes“ og birtist ég birti smá kynningu um plaköt sem ég er að selja með kindamyndunum mínum,“ segir Gunnar.
„Einnig for ég í mjög skemmtilegar ferðir með vinum mínum hjá Heklu Hestum, bæði í Þórsmörk, Landmannalaugum og við Rangá og alt efni sem ég hef deilt hefur verið mjög vinsælt.“
Ertu búinn að skipuleggja ferðalög fyrir árið 2024?
„Mig hefur lengi langað að fara aftur á Hornstrandir í Rebba myndatöku. Svo er farið að vera of langt síðan að ég hef ferðast a um Vestfirðina og þarf pott þétt að gera eitthvað í því.“