Hverjir eru Hútar?

Ísrael/Palestína | 13. janúar 2024

Hverjir eru Hútar?

Uppreisnarmenn Húta hafa undanfarnar vikur ítrekað ráðist á fraktskip á Rauðahafi bæði með eldflaugum og drónum.

Hverjir eru Hútar?

Ísrael/Palestína | 13. janúar 2024

Hútar segja árásir sínar á Rauðahafi gerðar til stuðnings Hamas.
Hútar segja árásir sínar á Rauðahafi gerðar til stuðnings Hamas. AFP

Uppreisnarmenn Húta hafa undanfarnar vikur ítrekað ráðist á fraktskip á Rauðahafi bæði með eldflaugum og drónum.

Uppreisnarmenn Húta hafa undanfarnar vikur ítrekað ráðist á fraktskip á Rauðahafi bæði með eldflaugum og drónum.

Bandaríkin og Bretland brugðust við þessum árásum í fyrrinótt með loftárásum á tiltekin skotmörk í Jemen.

Uppreisnarmenn Húta er hópur stríðsmanna sem studdur er af klerkastjórninni í Íran. Hútar ráða nú yfir stórum hluta Jemen.

Réðust á loftvarnakerfi og vopnabúr

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði að Bandaríkjamenn og Bretar hefðu ráðist á skotmörk meðal Húta í fyrrinótt. Ástralía, Barein, Kanada og Holland komu líka að árásunum.

Ráðist var á alls tólf skotmörk, þeirra á meðal í höfuðborg Jemen, Sanaa, og á hafnarborgina Hudayadah, eitt helsta vígi Húta.

Markmið árásanna hafi verið að ráðast á loftvarnakerfi Húta og vopnabúr.

Flutningaskip hafa reglulega orðið fyrir árásum Húta á Rauðahafi.
Flutningaskip hafa reglulega orðið fyrir árásum Húta á Rauðahafi. AFP/Christophe Simon

Árásum á fraktskip á Rauðahafi svarað

Árásir Húta á fraktskip hófust skömmu eftir að ófriður braust út milli Ísraels og Hamas 7. október á síðasta ári.

Hútar lýstu því yfir að þeir styddu Hamas í átökunum og myndu ráðast á öll skip á leið til Ísraels. Ekki hafa öll skip sem ráðist hefur verið á til þessa verið á leið til Ísraels.

Í nóvember sögðust Hútar hafa fangað skip sem þeir héldu fram að væri ísraelskt fraktskip. Í kjölfarið hafa Hútar ráðist á fraktskip með drónum og skammdrægum eldflaugum.

Á einum mánuði, frá nóvember fram í desember, fjölgaði árásum Húta um 500%. Afleiðingar árásanna hafa verið þær að mörg stór skipafélög hafa hætt siglingum um Rauðahaf og tryggingarkostnaður fyrir þau skip sem það gera hefur tífaldast.

Uppreisnarmenn Húta.
Uppreisnarmenn Húta. AFP

Hætt við hækkandi olíuverði

Meðal þeirra sem hætt hafa að sigla um Rauðahaf eru Maersk, Hapag-Lloyd og olíufélagið BP. Hætt er við því að olíuverð muni hækka og að rask verði á aðfangakeðjum milli Asíu og Evrópu.

Talið er að um 15% viðskipta á sjó fari um Rauðahafið, sem svo tengist Miðjarðarhafi með Súesskurðinum. Sú leið er stysta siglingaleiðin milli Evrópu og Asíu.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum saka Írani um að vera ábyrga fyrir skipulagningu árása á flutningaskip á Rauðahafi.

Aðgerðir uppreisnarmanna Húta á Rauðahafi hafa undanfarið raskað heimsviðskiptum.
Aðgerðir uppreisnarmanna Húta á Rauðahafi hafa undanfarið raskað heimsviðskiptum. AFP

Sögðust vilja berjast gegn spillingu

Hútar eru vopnaður hópur uppreisnarmanna í Jemen. Þeir eru sjítar og heyra til einnar þriggja greina sjíamúslima.

Nafn hreyfingarinnar er sótt til stofnanda hennar, Hussein al Houthi. Hópurinn gekk áður undir nafninu Ansar Allah (Andspyrnumenn Guðs) og kom hann fram á sjónarsviðið á tíunda áratug síðustu aldar. Sögðust þeir vilja berjast gegn meintri spillingu Ali Abdullah Saleh, sem þá var forseti Jemen.

Saleh forseti sótti stuðning til Sádi-Arabíu árið 2003 til þess að sigrast á uppreisnarmönnum. Hútar höfðu betur í þeim átökum.

Borgarastyrjöld

Allt frá árinu 2014 hafa Hútar verið þátttakendur í borgarastyrjöldinni í Jemen og barist gegn stjórnvöldum í landinu. Stjórnvöld í Jemen hafa einkum verið studd af Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Sameinuðu þjóðirnar töldu í upphafi árs 2022 að um 377 þúsund manns hefðu látist í borgarastyrjöldinni í Jemen og að átökin hefðu hrakið um fjórar milljónir á flótta.

Hútar skilgreina sjálfa sig sem hluta af „öxulveldum andspyrnunnar“, það er hóps samtaka líkt og Hamas og Hisbollah, sem njóta stuðnings og liðsinnis klerkastjórnarinnar í Íran.

Andstæðingar þeirra eru Bandaríkin, Ísrael og raunar Vesturlönd öll.

Höfuðklerkurinn Ali Khamenei í Íran. Íranar neita að hafa útvegað …
Höfuðklerkurinn Ali Khamenei í Íran. Íranar neita að hafa útvegað Hútum vopn, en efast er um sannleiksgildi þess. AFP

Bandamenn í Teheran

Hútar sækja fyrirmyndir sínar einkum til vígasveitar sjíta í Líbanon, Hisbollah. Vitað er að Hisbollah hefur veitt Hútum hernaðarráðgjöf og þjálfun allt frá árinu 2014. Hútar líta sömuleiðis á Íran sem bandamenn sína, enda svarnir óvinir Sádi-Arabíu.

Bandaríkjamenn segja Írani gegna lykilhlutverki í því að útvega Hútum þau vopn sem notuð eru til árása á flutningaskip. Íranir neita því þó að eiga hlutdeild í árásum Húta á Rauðahafi.

Árið 2017 sökuðu Bandaríkjamenn og Sádi-Arabar Íran um að hafa útvegað Hútum eldflaugar, sem þeir skutu á höfuðborg Sádi-Arabíu, Riyadh. Eldflaugarnar voru skotnar niður áður en þær hæfðu skotmark sitt. Sádi-Arabar hafa einnig sagt Írani hafa útvegað Hútum dróna og fjarstýrðar eldflaugar, sem þeir hafi notað til þess að ráðast á olíuvinnslu í Sádi-Arabíu árið 2019.

Til þessa hafa Hútar skotið tugum þúsunda eldflauga inn í Sádi-Arabíu og líka sent eldflaugar á skotmörk í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Eftir að átök hófust á Gasa nú í október hafa Hútar sent fjölda eldflauga og dróna til árása á Ísrael.

Reynist það rétt að Íranir útvegi Hútum vopn, þá stríðir það gegn vopnasölubanni Sameinuðu þjóðanna gegn Hútum. Íranar neita staðfastlega að hafa útvegað Hútum vopn.

Árið 2015 réðust Hútar á forsetahöllina í Sanaa og forseti …
Árið 2015 réðust Hútar á forsetahöllina í Sanaa og forseti landsins hefur æ síðan verið í útlegð í Sádi-Arabíu. EPA

Hversu miklu landssvæði stjórna Hútar?

Samkvæmt umfjöllun BBC býr meginþorri Jemena á landssvæði undir stjórn Húta. Þeir ráða yfir höfuðborginni Sanaa, norðurhluta landsins og strandlengjunni við Rauðahaf. Þeir fjármagna sig meðal annars með skattheimtu og prenta eigin gjaldmiðil.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna taldi árið 2010 að sveitir Húta teldu á bilinu 100-120 þúsund manns, bæði menn undir vopnum og óvopnaðir fylgismenn.

mbl.is