Efnaskiptaaðgerðum fækkaði úr 950 í 600

Ozempic | 16. janúar 2024

Efnaskiptaaðgerðum fækkaði úr 950 í 600

Um 600 efnaskiptaaðgerðir voru gerðar hjá Klíníkinni á síðasta ári, 2023. Það er um 37% fækkun aðgerða frá árinu 2022 þegar um 950 slíkar voru framkvæmdar.

Efnaskiptaaðgerðum fækkaði úr 950 í 600

Ozempic | 16. janúar 2024

Aðgerð hjá Klíníkinni.
Aðgerð hjá Klíníkinni. Ljósmynd/Klíníkin

Um 600 efnaskiptaaðgerðir voru gerðar hjá Klíníkinni á síðasta ári, 2023. Það er um 37% fækkun aðgerða frá árinu 2022 þegar um 950 slíkar voru framkvæmdar.

Um 600 efnaskiptaaðgerðir voru gerðar hjá Klíníkinni á síðasta ári, 2023. Það er um 37% fækkun aðgerða frá árinu 2022 þegar um 950 slíkar voru framkvæmdar.

Um 60 til 65% þessara aðgerða voru á magaermi, sem hafa notið aukinna vinsælda síðustu ár, en afgangurinn var hjáveituaðgerðir. Meðal­sjúk­ling­ur­inn á stof­unni er 42 til 43 ára kona og elsti sjúklingurinn hingað til var 74 ára. 

Þetta segir Aðalsteinn Arnarson, sérfræðingur í almennum skurðaðgerðum hjá Klíníkinni, spurður út í stöðu mála. 

Fjórar ástæður að baki

Hann segir fjórar ástæður helst vera fyrir þessari fækkun viðskiptavina á milli ára þegar kemur að efnaskiptaaðgerðum.

Sú fyrsta er að mjög margir fara núna á lyf sem fyrsta meðferðarúrræði, en um þriðjungur þeirra sem fara í aðgerð hjá Klíníkinni hafa þegar prófað að vera lyfjum. Um er að ræða lyfin Wegovy og Ozempic. Það síðarnefnda er sama lyf og Wegovy, að sögn Aðalsteins, en notað af þeim hópi sem er með sykursýki. Hann segir lyfin gefa hormónaáhrif, líkt og aðgerðirnar, en munurinn sé sá að aðgerðirnar hafi áhrif á 10 mismunandi hormón en lyfið á aðeins eitt. Aðgerðirnar séu því kraftmeiri meðferð en lyfin gagnist samt mörgum mjög vel.

Önnur ástæða sem hann nefnir er að meiri meðvitund er orðin um að þeir sem uppfylla skilyrði Sjúkratrygginga Íslands, SÍ, um efnaskiptaaðgerðir geta farið utan. Þar sem Klínikin er ekki með samning við SÍ fer stór hópur þessa fólks til Svíþjóðar.

Þriðja ástæðan er sú að staða heimilanna er ekki sú sama og hún var fyrir tveimur árum, segir Aðalsteinn. Fólk heldur því meira að sér höndum og spila þar væntanlega háir vextir og verðbólga í landinu stórt hlutverk.

Aðalsteinn Arnarson skurðlæknir.
Aðalsteinn Arnarson skurðlæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjórðu ástæðuna nefnir hann uppsafnaða þörf sem líkast til hafi verið til staðar þegar hann byrjaði með aðgerðirnar á Klíníkinni, enda lítið gert af þeim á Landspítalanum. Þar að auki hafi margir sem höfðu valið að fá magaband viljað fá það fjarlægt og breytt í magaermi eða hjáveitu. Sá hópur sé líklega að verða búinn núna.

„Þeir hafa valið að skrúfa þessa starfsemi mikið niður og senda sína sjúklinga frekar erlendis,” segir Aðalsteinn um Landspítalann og segir hann hafa gert um 20 efnaskiptaaðgerðir árið 2022. „Þessum hópi er ekki mikið sinnt inni á Landspítala.”

Tyrkland nýtur vinsælda

Fyrir utan þetta kjósa margir að fara í efnaskiptaaðgerðir á einkastofum erlendis án þess að gera það í gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Meðal annars er Tyrkland vinsælt um þessar mundir þar sem aðgerðirnar kosta um hálfa milljón króna, að sögn Aðalsteins. Hjá Klíníkinni kostar hver aðgerð aftur á móti 1.250.000 krónur.

Miðar við þyngdarstuðulinn 32

Meðalsjúklingurinn á stofunni er 42 til 43 ára kona og eru konur um 80% viðskiptavina þrátt fyrir að almennt glími fleiri karlar við ofþyngd. Elsta manneskjan sem hefur farið í efnaskiptaaðgerð hjá Klíníkinni var 74 ára en sú yngsta 18 ára, en það er einmitt lágmarksaldur þeirra sem mega gangast undir slíka aðgerð.

Eitt af því sem getur hjálpað fólki sem er að …
Eitt af því sem getur hjálpað fólki sem er að berjast við ofþyngd er hreyfing. AFP

Spurður um hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að gangast undir efnaskiptaaðgerð kveðst Aðalsteinn miða við þyngdarstuðulinn 32. Samkvæmt BMI-stuðlinum er um offitu að ræða ef stuðullinn fer yfir 30, að því er kemur fram á Vísindavefnum. 

Til að að geta farið í aðgerð á vegum Sjúkratryggingar Íslands, annað hvort erlendis eða á Landspítalanum er aftur á móti miðað við 35 í þyngdarstuðul ef fólk er með fylgisjúkdóma á borð við sykursýki, kæfisvefn eða háþrýsting en annars 40 ef fólk þjáist ekki af slíkum sjúkdómum.

Þegar horft er til hinna Norðurlandanna segir Aðalsteinn þyngdarstuðulinn almennt vera 35 í opinbera geiranum, þar á meðal í Svíþjóð, en í Danmörku hafi stjórnvöldum þótt of margar efnaskiptaaðgerðir framkvæmdar og því hækkað stuðulinn upp í 50.

„Hvenær er þetta ekki lengur skynsamlegt?“

„Þegar þú ert kominn út fyrir þessi opinberu kerfi, á flestum prívatstofum, er verið að horfa á bilið 30 til 32 sem viðmið,” greinir Aðalsteinn frá og talar einnig um skynsemismörk í þessu samhengi.

„Hvenær er þetta ekki lengur skynsamlegt? Skiljanlega er það aldrei einhver lína sem hægt er að draga þar sem þú segir öðru megin við hana að þetta er skynsamlegt og hinum megin að þetta er óskynsamlegt. Þetta er alltaf einhvers konar samtal á milli sjúklings og læknis. En mín almennu viðmið er að setja stopp við 32 í þyngdarstuðul,” bætir læknirinn við.

Klíníkin.
Klíníkin.

Misjafnar forsendur hjá fólki

Spurður hvort konur séu að koma í Klíníkina án þess að vera í mikilli yfirþyngd og líti á efnaskiptaaðgerðir sem eins konar megrunarverkfæri, segir Aðalsteinn það afar misjafnt á hvaða forsendum menn koma í efnaskiptaaðgerðir. 

„Ég get í stuttu máli sagt að mér finnst þessi hópur, á bilinu 32 til 35 [í þyngdarstuðul] sem maður er að samþykkja í svona aðgerð…mér finnst þetta er fólk vera jafnánægt með sína ákvörðun. Það er ekki að berjast við 50 kg í yfirþyngd og ekki kannski við sykursýkina en það hefur margt annað sem það sækir í,”

„Endalausar rannsóknir”

Hann heldur áfram og segir tilganginn með þessum aðgerðum fyrst og fremst vera að auka heilsufar og heilbrigði.

„Það eru til endalausar rannsóknir sem sýna ágæti þessara aðgerða út frá ýmsum vinklum,” segir Aðalsteinn og nefnir að líf fólks lengist um sjö til átta ár, það losni við sykursýki, kæfisvefn og fleiri kvilla, auk þess sem tíðni krabbameina í þessum hópum sem gangast undir aðgerðirnar minnki um 50%. Í þessu samhengi nefnir hann að kona sem er komin yfir 30 í þyngdarstuðul eigi í tvöfaldri hættu á að fá krabbamein í brjóst.

Spurður út í biðlista segir Aðalsteinn að Landlæknir setji viðmið um að biðtímar eigi ekki að vera yfir þremur mánuðum og Klíníkin fari ekki yfir það viðmið, enda með gott aðgengi að skurðstofum.

mbl.is