Nýjar gervihnattamyndir sýna tvo sigkatla

Grímsvötn | 22. janúar 2024

Nýjar gervihnattamyndir sýna tvo sigkatla

Vatnshæð í Gígjukvísl er nú aftur orðin lík því sem hún var áður en hlaupa tók úr Grímsvötnum.

Nýjar gervihnattamyndir sýna tvo sigkatla

Grímsvötn | 22. janúar 2024

Gervihnattamynd með merkingum Veðurstofu.
Gervihnattamynd með merkingum Veðurstofu. Kort/Veðurstofa Íslands

Vatnshæð í Gígjukvísl er nú aftur orðin lík því sem hún var áður en hlaupa tók úr Grímsvötnum.

Vatnshæð í Gígjukvísl er nú aftur orðin lík því sem hún var áður en hlaupa tók úr Grímsvötnum.

Hlaupið náði hámarki í ánni fyrir um það bil viku og hefur vatnshæðin farið lækkandi síðan.

Hlaupórói sem mældist á jarðskjálftamæli á Grímsfjalli hefur líka dvínað og er nú kominn niður í eðlilegt horf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Segir þar að frá því á mánudaginn í síðustu viku hafi 21 jarðskjálfti mælst í Grímsvötnum, þar af tveir skjálftar yfir tveimur að stærð.

Gæti hafa myndast nú eða verið eldri ketill

Þá er bent á að í Grímsvatnahlaupinu árið 2021 hafi myndast sigketill – sprungin dæld á yfirborði jökulsins, suðaustur af Grímsfjalli. Hann sé nærri farvegi hlaupanna undir jöklinum..

„Starfsmenn Veðurstofunnar, sem voru á ferð á Vatnajökli í síðustu viku að sinna mælarekstri, sáu móta fyrir sigkatli á svipuðum stað. Við skoðun á gervitunglamyndum frá því í gær, 21. janúar, sjást tveir sigkatlar suðaustur af Grímsfjalli,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

„Annar þeirra er sá sem myndaðist í hlaupinu 2021 en hinn gæti hafa myndast í nýafstöðnu hlaupi eða verið eldri ketill sem hefur virkjast aftur. Sigkatlarnir eru nærri ferðaleið austur af Grímsfjalli og æskilegt að forðast ketillinn á ferð um þær slóðir.“

Hnit fyrir staðsetningu sigkatlanna eru eftirfarandi:

  • Sigketill GV-33: 64°23,611' og -17°13,017' (baughnit, WGS-84)
  • Nýr sigketill: 64°23,766' og -17°12,729' (baughnit, WGS-84)
Veðurstofan bendir á tvo sigkatla við Grímsvötn.
Veðurstofan bendir á tvo sigkatla við Grímsvötn. Kort/Veðurstofa Íslands

Kóðinn aftur orðinn grænn

Þegar jökulhlaupið hófst var fluglitakóði fyrir eldstöðina færður upp á gult vegna þess að auknar líkur þóttu á eldgosi í kjölfar þrýstiléttis eftir að vatn flæddi úr Grímsvötnum.

„Þar sem jökulhlaupinu er lokið og engar skammtíma breytingar í virkni hafa mælst verður fluglitakóðinn aftur færður niður á grænt,“ segir í tilkynningunni.

Þó er rifjað upp að til lengri tíma litið hafi virkni í Grímsvötnum verið þó nokkur og síðustu fimm mánuði hafi fjöldi jarðskjálfta verið yfir þeim fjölda sem telst eðlileg bakgrunnsvirkni.

„Ef til eldgoss kæmi í Grímsvötnum er gert ráð fyrir því að ákafrar aukningar í smáskjálftavirkni yrði vart áður en gos hæfist. Vísindamenn Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar munu áfram fylgjast mjög náið með Grímsvötnum og miðla upplýsingum ef virkni eykst frekar.“

mbl.is