Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að mótvægisaðgerðir muni þurfa að koma til og að gera þurfi breytingar á fjárlögum og jafnvel fjármálaáætlun vegna aðgerða stjórnvalda, til að eyða óvissu þeirri sem Grindvíkingar hafa búið við.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að mótvægisaðgerðir muni þurfa að koma til og að gera þurfi breytingar á fjárlögum og jafnvel fjármálaáætlun vegna aðgerða stjórnvalda, til að eyða óvissu þeirri sem Grindvíkingar hafa búið við.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að mótvægisaðgerðir muni þurfa að koma til og að gera þurfi breytingar á fjárlögum og jafnvel fjármálaáætlun vegna aðgerða stjórnvalda, til að eyða óvissu þeirri sem Grindvíkingar hafa búið við.
„Við erum auðvitað með á dagskrá að klára sölu á Íslandsbanka,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is.
„Slík ráðstöfun myndi breyta mjög miklu og létta mjög undir og er þess vegna eins og ég hef áður sagt – en er orðið ennþá þyngra núna: Það er raunverulegur ábyrgðarhluti að losa eignarhald ríkisins á Íslandsbanka.“
Hún tekur fram að sú almenna spurning eigi alltaf við, sem snýr að forgangsröðun fjármuna.
„Allt sem fer inn í ríkissjóð er annarra manna fé – sameiginlegir fjármunir okkar og það skiptir máli að ráðstafa því með sem skynsamlegustum hætti. Það eru tækifæri til aukinnar hagræðingar og frekari skilvirkni,“ segir Þórdís.
„Ríkið situr á miklu magni fasteigna, við erum með innkaup þar sem eru gríðarleg tækifæri til úrbóta – við erum með sóun í kerfinu og við þessar aðstæður hljótum við öll, ekki bara ríkisstjórn, heldur fjárveitingavaldið allt, að vera tilbúið að leita allra leiða til að fara betur með annarra manna fé þannig að okkar sameiginlegu sjóðir séu sterkari.
Það skiptir okkur öll máli, alveg sama hvaða hlutverki við gegnum í samfélaginu. Þetta eru peningar sem við tökum af fólki og fyrirtækjum og setjum inn í sjóði til að standa undir mikilvægustu verkefnunum sem ríkið á að sinna.“
Sérðu fyrir þér að þurfa að skera niður? Er hægt að útiloka niðurskurð í mennta-, heilbrigðis- og bótakerfinu?
„Ég hef á mínum árum í stjórnmálum gert mikinn greinarmun á niðurskurði og uppskurði. Við höfum auðvitað farið í gegnum tíma þar sem niðurskurður blasti við og það þurfti að gera það hratt og það var sárskaukafullt.
Ég er að segja að það er mikið hægt að gera með því að stokka upp kerfi og með því að fjárfesta í almennilegum grunnkerfum inni í stjórnkerfinu.
Að við séum að fjárfesta í nýsköpun og tækni. Að við séum að gera allt hvað við getum til að létta undir með fólki sem starfar í heilbrigðis- og velferðarkerfinu og svo framvegis. Því sem ríkið ákveður að sinna á ríkið að sinna almennilega.
Svo eru aðrir hlutir sem var mikilvægt að gera fyrir einhverju síðan, hvort sem eru ár eða áratugir síðan, sem við erum ekki nógu dugleg að endurskoða og ákveða að hætta,“ segir Þórdís.
Hún heldur áfram:
„Ef ég stæði frammi fyrir því að fara í einhvern sársaukafullan niðurskurð myndi ég ekki byrja á heilbrigðiskerfi, menntakerfi eða hjá lögreglu.
Við erum með 164 stofnanir í þessu landi og erum tæplega 400 þúsund. Ætlum við að halda því fram að 164 stofnanir séu algjörlega nauðsynlegar í okkar samfélagi? Ég held ekki. Við erum með margar mjög fámennar stofnanir.
Þannig að það er margt hægt að gera án þess að tala um sársaukafullan niðurskurð. Heldur bara eðlilega kröfu á okkur sem erum að höndla með annarra manna fé að gera það eins vel og við getum.“