Kynntist kókaíni og þá fór allt úr böndunum

Sterk saman | 29. janúar 2024

Kynntist kókaíni og þá fór allt úr böndunum

Bjarki Viðarsson 33 ára faðir og annar helmingur Götustráka er gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpinu Sterk saman. 

Kynntist kókaíni og þá fór allt úr böndunum

Sterk saman | 29. janúar 2024

Bjarki viðarsson er gestur í hlaðvarpinu Sterk saman.
Bjarki viðarsson er gestur í hlaðvarpinu Sterk saman.

Bjarki Viðarsson 33 ára faðir og annar helmingur Götustráka er gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpinu Sterk saman. 

Bjarki Viðarsson 33 ára faðir og annar helmingur Götustráka er gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpinu Sterk saman. 

Bjarki ólst upp á Akranesi með foreldrum sínum. Pabbi hans var sjómaður en mamma hans vann 12 tíma vaktir á sjúkrahúsinu til þess að endar næðu saman. 

„Ég sé það í dag að þau gerðu allt til að gefa okkur besta mögulega líf sem þau gátu. Pabbi fórnaði ekkert smá miklu, hann var líklega úti á sjó níu mánuði á ári,“ segir Bjarki. 

Bjarki var mjög ungur, átta ára, þegar hann byrjaði að horfa á klám og er það mun algengara en fólk gerir sér grein fyrir. Klámið var svo eitthvað sem átti eftir að fylgja honum og líka þegar hann byrjaði í neyslu.

Bjarki lenti í grófu einelti í grunnskóla og talar hann um að skólinn hafi brugðist sér. Fyrir utan einn kennara sem stóð með honum. 

„Ég var beittur ofbeldi, var feitur og til dæmis látinn renna mér á maganum á svelli sem búið var að míga á. Ég vildi svo ekkert segja frá þessu. Ég skammaðist mín, vildi ekki að mamma hefði áhyggjur og svo langaði mig að vera töffari eins og stóru bræður mínir,“ segir hann. 

Tók vaxtakipp í 8. bekk

Þegar Bjarki byrjaði í 8. bekk tók hann vaxtakipp og varð öflugri. Fór að svara fyrir sig og passa upp á minni máttar. Hann var skyndilega orðinn stærri en allir hinir og fór að þróa með sér áhættuhegðun. 

„Ég fór í uppreisn og fannst skólinn hafa brugðist mér. Ég teiknaði typpi á öll svör í samræmdu prófin og fór,“ segir hann. 

Hann fór í fjölbraut, var í sjö annir og kláraði sex einingar.

„Ég var rekinn af öllum önnunum en hélt uppi leikriti allan tímann gagnvart mömmu og pabba. Vaknaði, kom heim í hádeginu, fór svo á rúntinn en var bara í skóla svo ég kæmist á böllin.“

Á þessum tíma var hegðun hans orðin mjög alkahólísk. Hann drakk og notaði um helgar og svaf svo og borðaði fram á miðvikudag í þunglyndi, þá vaknaði hann til lífsins aftur og kom sér í gang fyrir næstu helgi.

„Ég vann í Norðuráli og var oft veikur mánudag og þriðjudag því að ég var hræddur við „random test“ og það myndi mælast í mér. Ég var svo rekinn eftir „random test“ daginn eftir að hafa talað við yfirmann minn og sagt að ég þyrfti frí til að fara á Vog.“

Heltekinn af kókaíni

Eftir að Bjarki kynntist kókaíni varð neyslan hreint helvíti, þá fyrst varð hann heltekinn og sá enga leið út.

„Ég var mest einn inni á hótelherbergi með heyrnartól inni í eyrunum og peltora yfir, að nota og horfa á klám, dögum saman.“

Einu sinni náði Bjarki ári edrú, hann varð óheiðarlegur undir lokin og fór að nota. Það komst upp.

„Bróðir minn sem hefur sjálfur verið á þessum stað sagði við mig: „Ég myndi fela lík með þér í eyðimörkinni en ég fel ekki neyslu.““

Bjarki hefur verið í bata í rúm tvö ár og aldrei liðið betur. Hann segist ekki hræddur við að nota aftur svo framarlega sem hann vinni prógrammið og sé heiðarlegur við sig og sína.

„Um leið og ég hætti að fá lánaða dómgreind og fer eftir mínum hugmyndum án þess að ræða þær við aðra, þá er ég í veseni. Mínar ákvarðanir hafa hingað til ekki komið mér á góða staði,“ segir hann. 

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is