Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlíf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu manni sem á í vandræðum með stjúpdóttur sína því hún geðjast ekki að honum.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlíf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu manni sem á í vandræðum með stjúpdóttur sína því hún geðjast ekki að honum.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlíf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu manni sem á í vandræðum með stjúpdóttur sína því hún geðjast ekki að honum.
Sæl,
Ég var byrja með þessari magnaðri konu sem á þrjú börn. Þar af eina dóttur.
Allt byrjaði rosa fínt á milli okkar dótturnar, en núna örfáum mánuðum seinna er hún hætt að tala við mig. Hún lítur undan eða vill helst ekki vera í sama herbergi og ég. Ég skil ekki alveg hvað hefur gerst. Enginn í fjölskyldunni skilur þetta.
Ég og mamma hennar megum heldur ekki gista saman, þá fer allt í háloft.
Ég hef ekkert verið nema almennilegur og kurteis við hana. Og ég og mamma hennar erum rosa ástfangin af hvort öðru, og leitum því allra ráða til geta lagað þetta. Hvað er til ráða?
Kveðja,
SF
Sæll.
Það getur oft verið flókið að sameina fjölskyldur, með öllum þeim breytingum og áskorunum sem því fylgir. En það er vel hægt og mikilvægt að hafa virðingu, traust og þolinmæði að vopni í því ferli.
Breytingar hafa áhrif á alla, en mismikil áhrif, flest börn þurfa sinn tíma til að aðlagast breyttum aðstæðum, hvort sem það er að flytja, byrja í nýjum skóla eða kynnast nýjum maka hjá mömmu eða pabba.
Sum börn eiga mjög erfitt með breytingar og er það algengt með börn á einhverfurófinu, því þarf að gefa þeim börnum allan þann tíma sem þau þurfa. Dóttir hennar upplifir ef til vill að þurfa núna að deila athygli móðir sinnar með öðrum (þér) sem hún var kannski ekki vön að gera framan af og kannski óttast hún að missa tengsl við móður sína og upplifir sig út undan. Sem leiðir til þess að hún fer að reyna að stjórna, hunsa þig, ósátt að þið gistið saman og reynir allar mögulegar leiðir til þess að halda mömmu heima og ýta þér frá.
Mikilvægt er að þú hafir í huga að þessi hegðun stelpunnar stafar að flestu ef ekki öllu leyti af óöryggi hennar með stöðu sína í breyttum aðstæðum en ekki að því að henni líki illa við þig. Mínar ráðleggingar til ykkar er að vera þolinmóð, breytingar taka tíma og eiga að taka tíma, það er ekki gott fyrir börn og unglinga ef breytingar eru gerðar á ógnarhraða. Haltu áfram að sýna henni áhuga, virðingu og kærleika, reyndu að finna út hver áhugamálin hennar eru og hvað henni finnst skemmtilegt að gera. Þú getur reynt að nálgast hana út frá því, en svo er líka mikilvægt að eins og ég segi að gefa henni tíma. Hún mun vonandi taka þig í sátt á endanum. Það er líka gott að gefa henni svigrúm sem hún þarf til að aðlagast öllum þessum breytingum. Ekki reyna of mikið, en það getur verið fín lína þarna á milli.
Einnig er mikilvægt að mamma hennar setji henni mörk, leyfi henni ekki að stjórna t.d. hvort þú gistir og hvort hún fari að hitta vinkonur sínar. Börnum hentar oft fyrirsjáanleiki og skipulag, það gæti hentað henni ef þið setjið upp skipulag, hvenær t.d. mamma er að fara í burtu eða þú að koma í heimsókn. Einnig er mikilvægt að hún og mamma hennar eigi saman gæðastundir bara þær tvær og einnig þið þrjú saman þegar fram líða stundir. Þá er einnig mikilvægt að bera virðingu fyrir tilfinningum stelpunnar og að mamma hennar gefi sér að henni og hlusti á það sem hún hefur að segja varðandi sína líðan.
Einnig langar mig að benda þér á að tala við Valgerði Halldórsdóttur sem er með fyrirtækið Stjúptengsl. Þar getið þið leitað eftir nánari ráðgjöf og inn á vefnum er ýmis fróðleikur sem hægt er að lesa. Hægt er að fá einstaklingsráðgjöf, para – og eða fjölskylduráðgjöf.
Gangi ykkur sem allra best,
Tinna Rut sálfræðingur
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR.