Ráðist að ættingjum Foxtrot-manna

Óöld í Svíþjóð | 5. febrúar 2024

Fjöldi sprengjutilræða við heimili skyldmenna

Fjögur sprengjutilræði í Svíþjóð síðustu vikuna hafa verið talin tengjast glæpagenginu Foxtrot sem íraski Kúrdinn Rawa Majid, kúrdíski refurinn öðru nafni, stjórnar frá Tyrklandi. Frá þessu greinir sænska ríkisútvarpið SVT.

Fjöldi sprengjutilræða við heimili skyldmenna

Óöld í Svíþjóð | 5. febrúar 2024

Ný bylgja sprengjutilræða í Svíþjóð hófst á mánudaginn fyrir viku …
Ný bylgja sprengjutilræða í Svíþjóð hófst á mánudaginn fyrir viku og hafa tilræðin einkum beinst gegn ættingjum Foxtrot-félaga. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Fjögur sprengjutilræði í Svíþjóð síðustu vikuna hafa verið talin tengjast glæpagenginu Foxtrot sem íraski Kúrdinn Rawa Majid, kúrdíski refurinn öðru nafni, stjórnar frá Tyrklandi. Frá þessu greinir sænska ríkisútvarpið SVT.

Fjögur sprengjutilræði í Svíþjóð síðustu vikuna hafa verið talin tengjast glæpagenginu Foxtrot sem íraski Kúrdinn Rawa Majid, kúrdíski refurinn öðru nafni, stjórnar frá Tyrklandi. Frá þessu greinir sænska ríkisútvarpið SVT.

Ekki er það þó svo samkvæmt ríkisfjölmiðlinum að félagar í Foxtrot standi á bak við tilræðin. Þvert á móti beinast þau að þeim og með þeim hætti að sprengjurnar hafa sprungið við heimili eða íverustaði ættingja Foxtrot-manna sem sitja í gæsluvarðhaldi fyrir ýmis brot sem þeir liggja undir grun um að hafa framið.

Ný bylgja sprengjuárása hófst á mánudaginn í síðustu viku þegar sprengja sprakk í Sandviken í sveitarfélaginu Södertälje, vestur af höfuðborginni Stokkhólmi. Sprakk hún við heimili ættingja manns sem grunaður er um vopnaða árás í Brandbergen í Haninge, sunnan Stokkhólms.

„Sprengjugerðarmaður“ Majids

Aðfaranótt föstudags sprakk svo sprengja í Sundbyberg, sem er norðan við Stokkhólm, og stórskemmdi þar fjölbýlishús eins og mbl.is greindi frá. Þar býr skyldmenni manns sem gengið hefur undir nafninu „sprengjugerðarmaður“ Rawa Majids og hefur að sögn SVT leikið lykilhlutverk í fjölda sprengjutilræða sem skóku sænsku höfuðborgina og nágrenni hennar svo vikum skipti síðsumars og haustið í fyrra.

Hefur sprengjusérfræðingur þessi þegar hlotið refsidóma fyrir brot gegn fíkniefnalögum og vopnalögum auk þáttar síns í fleiri sprengjutilræðum. Hefur SVT það eftir lögreglu að sprengjan hafi sprungið nóttina áður en maðurinn átti að taka þátt í réttarhöldum í manndrápsmáli, líkast til sem vitni en um það segir ekki í frétt SVT.

Klíkuskipti vöktu úlfaþyt

Í gærmorgun sprakk svo sprengja við hús í Gävle sem er um 170 kílómetra norður af höfuðborginni en þar býr enn eitt skyldmennið, að þessu sinni ættingi rúmlega tvítugs manns sem nýlega hlaut dóm í svokölluðu Sundsvall-máli en í því voru 23 sakborningar ákærðir fyrir margvísleg brot, þar á meðal manndrápstilraunir, sprengjutilræði og fíkniefnabrot.

Hafði hinn dæmdi verið félagi í Dalen-glæpagenginu, sem löngum hefur troðið illsakir við Foxtrot, en venti sínu kvæði í kross í nóvember 2022 og gekk til liðs við erkióvininn, Foxtrot. Vakti þetta úlfaþyt mikinn í undirheimunum með tilheyrandi vígaferlum sem skildu eftir sviðna jörð í Sundsvall og nágrenni.

Í nótt var svo enn sprengt í Haninge, að þessu sinni við heimili ættingja Foxtrot-félaga sem situr í gæsluvarðhaldi fyrir að hafa verið hvatamaður að skotárás í Jordbro, þar sem einn týndi lífi sínu en annar særðist, og annarri skotárás utan við heimili í Åkersberga.

SVT

SVTII (sprengingin í Gävle)

SVTIII (Haninge-sprengingin)

SVTIV (skotinn til bana í Jordbro)

mbl.is