Baunasúpan hans Friðriks V elduð af ást

Sprengidagur | 11. febrúar 2024

Baunasúpan hans Friðriks V elduð af ást

Nú styttist óðum í sprengidag og þá er það saltkjöt og baunir sem verður aðalrétturinn á borðum landsmanna sem halda daginn hátíðlegan.

Baunasúpan hans Friðriks V elduð af ást

Sprengidagur | 11. febrúar 2024

Friðrik eldar sína baunasúpu af ástríðu og natni sem hann …
Friðrik eldar sína baunasúpu af ástríðu og natni sem hann segir að sé lituð af 30 ára kokkaferli sínum. Samsett mynd/Árni Sæberg

Nú styttist óðum í sprengidag og þá er það saltkjöt og baunir sem verður aðalrétturinn á borðum landsmanna sem halda daginn hátíðlegan.

Nú styttist óðum í sprengidag og þá er það saltkjöt og baunir sem verður aðalrétturinn á borðum landsmanna sem halda daginn hátíðlegan.

Friðrik V. Hraunfjörð matreiðslumaður og fordómalaus áhugamaður um matargerð, sem flestir þekkja sem Friðrik V, heldur mikið upp á íslenskar matarhefðir og sprengidagur er einn af hans uppáhaldsdögum. Hann lagar baunasúpu sem móðuramma hans kenndi honum að gera.

„Ég held mikið upp á allar íslenskar matarhefðir og hef alltaf gert, bæði í vinnu og heima. Tek öllum erlendum matarhefðum fagnandi líka eins og til dæmis þakkargjörðarhátíð og októberfest. Nota öll tækifæri sem gefast til að gera dagamun í vinnu og heima sem tengist mat,“ segir Friðrik dreyminn á svip enda veit hann fátt skemmtilegra en að matreiða ljúffengan mat.

Einstaklega fallega framreidd. Saltkjöt og baunasúpa ásamt meðlæti.
Einstaklega fallega framreidd. Saltkjöt og baunasúpa ásamt meðlæti. mbl.is/Árni Sæberg

Ber súpuna fram í 100 ára gamalli súputarínu

Friðrik deilir með lesendum Morgunblaðsins uppskrift að baunasúpu sem hefur verið í fjölskyldunni í áratugi, og hann er búinn að setja sitt handbragð á, og meðlæti, sem er sannkölluð veislumáltíð á íslenska vísu.

„Þetta er uppskrift sem móðuramma mín kenndi mér þegar ég var unglingur. Hún var með stórt heimili og saltkjöt og baunir oft í matinn. Uppskriftin er engu að síður svolítið mín, þar sem þessi útgáfa, eins og ég geri hana í dag, er lituð af 30 ára kokkaferli og stefnu og straumum sem ég hef farið í gegnum á þessum árum. Til dæmis er ég aftur kominn í það að bjóða upp á súpuna sér og kjöt og grænmeti til hliðar, á tímabili bar ég súpuna fram með kjöti og grænmeti, það er að segja var búinn að skera kjöt og grænmeti út í. Einnig núna síðustu ár mauka ég súpuna extra vel í thermomixer eða öðrum góðum blandara þannig að hún verði flauelsmjúk og yrjulaus,“ segir Friðrik og bætir við: „Þess má geta að ég ber mína baunasúpu fram í yfir 100 ára gamalli súputarínu sem ég erfði frá ömmu en hún erfði þessa sömu tarínu frá ömmu sinni.“ Galdurinn við að búa til góða baunasúpu segir Friðrik vera að halda í hefðir, nota gott hráefni, kunnáttu og ástina fyrir matargerðinni.

Friðrik V ber baunasúpuna fram í 100 ára gamalli súputarínu …
Friðrik V ber baunasúpuna fram í 100 ára gamalli súputarínu frá ömmu sinni og langömmu. mbl.is/Árni Sæberg

„Endilega notið tækifærið og gerið saltkjöt og baunir í tilefni sprengidagsins, þetta er frábær hefð sem gott er að gera einu sinni á ári og njóta án samviskubits. Ég hvet grænkera einnig til að gera sína útgáfu af baunasúpu og halda daginn hátíðlegan,“ segir Friðrik að lokum.

Grunnuppskriftin er frá ömmu Friðriks en súpan hefur fengið hans …
Grunnuppskriftin er frá ömmu Friðriks en súpan hefur fengið hans handbragð á 30 ára kokkaferli hans. mbl.is/Árni Sæberg

Baunasúpa Friðriks V

Fyrir 6

  • 500 g gular hálfbaunir
  • 1½ - 2 l vatn
  • 1 biti (200 g) saltkjötsbiti af síðu
  • 100 g beikon, smátt saxað
  • 100 g laukur, smátt saxaður
  • 100 g gulrætur, smátt saxaðar
  • 100 g gulrófur, smátt saxaðar
  • 2 stk. lárviðarlauf
  • 1 tsk. þurrkað timían
  • 100 g smjör
  • svartur pipar, nýmalaður
  • kjötkraftur ef vill

Kjöt og meðlæti

  • 800-1.000 g sérvalið saltminna saltkjöt
  • 200 g kartöflusmælki
  • 200 g gulrófur, flysjaðar og gróft skornar
  • 200 g gulrætur, flysjaðar og gróft skornar

Aðferð:

  1. Sjóðið saltkjötsbitana í sérpotti í um það bil klukkustund og leyfið að standa í soðinu í góðan tíma meðan súpan er gerð.
  2. Leggið baunirnar í bleyti í kalt vatn í að minnsta kosti fimm klukkustundir eða yfir nótt.
  3. Setjið baunirnar í stóran pott, hellið vatninu yfir og hitið upp að suðu, sjóðið baunirnar í 10-15 mínútur, fleytið froðuna ofan af áður en síðubitanum er bætt út í.
  4. Sjóðið við vægan hita í 40 mínútur áður en grænmeti, beikoni, timían og lárviðarlaufi er bætt út í.
  5. Sjóðið áfram í 30 mínútur eða þar til baunir og grænmeti er orðið að mauki, smakkið til með pipar, hugsanlega kjötkrafti eða jafnvel soðinu af saltkjötsbitunum, fjarlægið síðubitann og lárviðarlaufið úr súpunni, bætið smjörinu út í og látið standa í 10-15 mínútur áður en súpan er maukuð þannig að hún verði flauelsmjúk og glansandi.
  6. Þá er óhætt að hita hana aftur áður en hún er borin fram.
  7. Berið súpuna fallega fram.
  8. Hana má til að mynda skreyta með saxaðri steinselju eða graslauk og gott er að hella góðri ólífuolíu yfir.
  9. Berið kjötið, grænmetið og kartöflurnar sem soðið er sér fram til hliðar þannig að allir geti gert upp við sig hvort kjötið og grænmetið sé borðað sér eða skorið út í súpuna.
  10. Gleðilega eldamennsku.
Baunasúpan er elduð að ást og natni.
Baunasúpan er elduð að ást og natni. mbl.is/Árni Sæberg
Friðrík heldur mikið upp á íslenskar matarhefðir og nýtir hvert …
Friðrík heldur mikið upp á íslenskar matarhefðir og nýtir hvert tækifæri til að matreiða í kringum þær. Hann eldar af ástríðu og natni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is