„Við búum svo vel að eiga góða og skemmtilega vini sem eru til í að taka þátt í svona gjörningi með okkur. Matthías Tryggvi í Hatara sá um að ferma Lísu og hélt æðislega ræðu,“ segja Hófí og Stefán.
„Við búum svo vel að eiga góða og skemmtilega vini sem eru til í að taka þátt í svona gjörningi með okkur. Matthías Tryggvi í Hatara sá um að ferma Lísu og hélt æðislega ræðu,“ segja Hófí og Stefán.
„Við búum svo vel að eiga góða og skemmtilega vini sem eru til í að taka þátt í svona gjörningi með okkur. Matthías Tryggvi í Hatara sá um að ferma Lísu og hélt æðislega ræðu,“ segja Hófí og Stefán.
„Allt á þetta upphaf sitt í því að við vorum með veislu fyrir Lísu í fyrra þegar hún fékk nafnið sitt formlega og þá buðum við fólki hingað heim í athöfnina. Sú veisla kom til af því að við þurftum að vera mikið fyrir vestan vegna veikinda í fjölskyldunni og margir voru að passa Lísu hér í bænum. Okkur langaði til að þakka öllu því fólki fyrir með því að bjóða því til veislu.
Við ákváðum að taka þetta alla leið og Guðmundur Felixson grínisti og athafnastjóri hjá Siðmennt sá um húmjánísku athöfnina, að gefa Lísu nafnið. Okkur fannst þetta svo gaman að við ákváðum að fullklára konseptið og láta líka ferma hana nú þegar hún er komin á fermingaraldur, en hún er nýorðin tveggja ára, sem samsvarar fjórtán mannsárum,“ segja þau Hólmfríður María Bjarnardóttir og Stefán Ingvar Vigfússon sem fermdu kisuna sína hana Lísu með pompi og prakt sl. sunnudag í Tjarnarbíói.
„Við erum sviðslistafólk og okkur finnst skemmtilegt að vera með gjörninga, sem þessar athafnir í kringum Lísu augljóslega eru. Þar fyrir utan er gaman að halda veislur og fá vini sína og fjölskyldu saman og veislugestir hafa skemmt sér konunglega,“ segja Hófí og Stefán sem buðu hundrað manns til fermingar Lísu.
„Systkini mín héldu að við værum að bjóða til dulbúins brúðkaups okkar Hófíar, en þau héldu það reyndar líka í fyrra þegar við héldum nafnaveisluna,“ segir Stefán og hlær.
„Við tókum þetta alla leið, pöntuðum klassískar fermingartertur með áletrun og loppuskreytingum og vinkona mín gaf okkur brauðtertu með kisuandliti. Ég bjó til kransakökur og við reyndum að hafa þetta eins fermingarlegt og við gátum. Fermingin var í Tjarnarbíó, þar sem við höfum bæði unnið, þannig að Lísa þekkti umhverfið. Hún naut sín að mestu, gekk milli fólks og fékk klapp en lá þess á milli á sviðinu. Hún var ekki hrifnust af athöfninni sjálfri en var fljót að jafna sig og var mjög ánægð með alla athyglina og pakkana,“ segir Hófí og bætir við að Lísa hafi fengið fjölbreyttar fermingargjafir, t.d. stuðning við Sólaris neyðarsöfnun, bókina Why my cat is more impressive than your baby, kattaminnisspil, kattanammi og fleira.
„Við búum svo vel að eiga góða og skemmtilega vini sem eru til í að taka þátt í svona gjörningi með okkur. Matthías Tryggvi í Hatara sá um að ferma Lísu, en hann er athafnastjóri hjá Siðmennt og hélt æðislega ræðu. Ég var veislustjóri í brúðkaupi hans svo ég átti inni hjá honum greiða,“ segir Stefán.
„Við fengum Ingólf Eiríksson rithöfund til að þýða textann við lagið Memory, úr söngleiknum Cats, og staðfæra fyrir Lísu og Vigdís Hafliðadóttir söng það fyrir veislugesti. Við áttum engan greiða inni hjá henni, hún er bara svo meðvirk og gerði þetta fyrir Lísu.“
Lísa er tæknilega séð fress, því hún var kyngreind sem kettlingur af dýralækni og sögð vera læða.
„Seinna kom í ljós að hún var fress en þá vorum við búin að venjast henni sem læðunni Lísu, svo við ákváðum að halda nafninu. Hún var líka farin að þekkja nafnið sitt vel og gegna því. Mömmu finnst þetta fyndið og segir stundum að Lísa sé eini trans köttur Íslands,“ segir Hófí sem átti fjósakisur þegar hún var lítil stelpa fyrir vestan í Súgandafirði, en Lísa er fyrsti heimilisköttur bæði hennar og Stefáns.
„Við ætluðum að fá okkur hund en höfðum ekki efni á að kaupa hvolp, svo við enduðum óvænt á því að fá okkur kisu. Við völdum Lísu eftir mynd sem við sáum af kettlingahópi. Hún heillaði okkur alveg. Lísa er mjög mannelsk, þegar hún fer út þá heilsar hún öllum sem vilja heilsa henni og hver sem er getur klappað henni. Hún hefur líka boðið kattavinum sínum hingað heim með sér, oftast henni Mowgli, sem er loðinn skógarköttur.“ Mowgli er reyndar læða, þótt hún beri það nafn, svo þetta er þó nokkur kynusli hjá þessu kattapari, þar sem Lísa er fress og Mowgli læða.
Hófí segir að Lísa geri mannamun, Stefán megi helst ekki taka hana upp en það megi hún.
„Lísa hlýðir mér betur en Stefáni og fyrir vikið hef ég kennt henni kúnstir, hún kann að heilsa, hoppa í gegnum hring og fleira. Lísa er mjög félagslynd og hún eltir mig oft út í strætóskýli og vælir þegar ég fer upp í vagninn.“