Lögfræðingurinn Elín Svafa Thoroddsen hefur í mörg horn að líta sem framkvæmdarstjóri fjölskyldufyrirtækisins Geysis ehf. Elín Svafa segir starfið fjölbreytt en fyrirtækið á meðal annars Hótel Geysi, ýmsa veitingaþjónustu á Geys auk ferðaþjónustu á svæðinu.
Lögfræðingurinn Elín Svafa Thoroddsen hefur í mörg horn að líta sem framkvæmdarstjóri fjölskyldufyrirtækisins Geysis ehf. Elín Svafa segir starfið fjölbreytt en fyrirtækið á meðal annars Hótel Geysi, ýmsa veitingaþjónustu á Geys auk ferðaþjónustu á svæðinu.
Lögfræðingurinn Elín Svafa Thoroddsen hefur í mörg horn að líta sem framkvæmdarstjóri fjölskyldufyrirtækisins Geysis ehf. Elín Svafa segir starfið fjölbreytt en fyrirtækið á meðal annars Hótel Geysi, ýmsa veitingaþjónustu á Geys auk ferðaþjónustu á svæðinu.
Segja má að gamall draumur Elínar Svöfu hafi ræst þegar hún flutti austur á Geysi.
„Þegar ég var barn þá var ég harðákveðin í að verða lögfræðingur en jafnframt búa í sveit. Einnig var ég með áætlun að bjóða upp á siglingar á Þingvallavatni. Móðir mín sagði þá að ég yrði að starfa sem sýslumaður ef ég ætlaði að vera lögfræðingur í sveit. Foreldrar mínir voru einnig með fyrirtækjarekstur þannig ég er alin upp við það, rétt eins og dætur mínar núna. Eitt af fyrstu störfunum mínum sem nemi í lögfræði var hjá sýslumanni og var það mjög áhugavert starf. Ætli ég hafi ekki bara kallað þetta til mín sem barn,“ segir Elín Svafa sem lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands og meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008.
„Ég hef sótt ýmis námskeið varðandi fjármál og rekstur til dæmis miniMBA í fjármálum fyrirtækja, fjártækni og árangursstjórnun. Áhugasvið mitt í lögfræði er á sviði mannréttinda í viðskiptum og er það ennþá áhugaverðara eftir að ég fór að starfa við rekstur á fyrirtæki og velta fyrir mér hvernig ég get innleitt lærdóminn í reksturinn til dæmis hvað varðar umhverfismál. Ég starfaði sem lögfræðingur eftir útskrift hjá embætti Tollstjóra en meðfram námi starfaði ég hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði og hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þáverandi. Ég hef starfað við rekstur við ferðaþjónustu á Geysi síðastliðin 14 ár.“
Geysir er fjölskyldufyrirtæki og segir Elín Svafa forréttindi að starfa náið með fjölskyldu mannsins síns. Hún segir fólkið í fjölskyldunni vera miklar fyrirmyndir og mestu dugnaðarforka sem hún hefur á ævi sinni kynnst.
„Þau eru með mikinn metnað fyrir starfi sínu og eru svo ósérhlífin enda erum við að hlúa að föðurarfleið mannsins míns og leggjum okkur fram við að reyna að gera það með sóma. Hér ganga allir í öll störf eins og hjá mörgum fjölskyldufyrirtækjum á landsbyggðinni. Starfið okkar er svo miklu stærra í okkar augum en fyrirtæki því hér er líka hjarta fjölskyldunnar. Þetta er líka mikill skóli fyrir dætur okkar sem læra af rekstrinum. Við tökum þær með á ýmsa fundi og þær hafa mikið verið með okkur í vinnunni ég tel það mjög lærdómsríkt og þroskandi.“
Finnur þú fyrir því að vera kona á vinnumarkaði?
„Ég finn alls ekki fyrir því í mínu starfi og finnst mjög mikið jafnrétti að öllu leyti í samskiptum og því sem við kemur rekstrinum. Maðurinn minn er eini karlmaðurinn í rekstrinum en við erum samtals níu konur með börnunum. Eins er maðurinn minn mikill jafnréttissinni og tekur jafnan þátt í öllu sem við kemur heimilinu – ef ekki meira. Það eina sem ég fann verulega fyrir að það var erfitt að fara í fæðingarorlof þegar maður er með eigin rekstur. Það er vonlaust að koma öðrum inn í starf sitt til skamms tíma og vann ég því í öllum „orlofunum“.“
Nærð þú að vinna átta tíma vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram eftir kvöldi?
„Ég held að allir tengi við það sem eru með eigin rekstur að það er ekki hefðbundinn átta tíma vinnudagur og ég tek tölvuna með mér allt, líka í frí. Oft þegar það eru margir fundir og slíkt er vinnan eftir og þá teygist hún fram á kvöld og helgar.“
Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er hvernig hefur þú brugðist við því?
„Við eignuðumst þrjú börn á fimm árum á meðan við vorum einnig í mjög mikilli uppbyggingu. Árið 2009 hófum við stækkun á Geysi verslun og einnig hófust þá framkvæmdir við að byggja Geysi Glímu veitingahús en heildarstækkun á þjónustumiðstöðunni var hátt í 2000 fermetrar. Strax í framhaldi af því þá hófst undirbúningur og hönnun að Hótel Geysi sem og á veitingahúsinu og það tók gríðarlegan tíma að byggja hótelið, sú bygging er 9000 fermetrar og að mörgu að hyggja við slíka uppbyggingu. Það var klárlega ofkeyrslutímabil í okkar lífi eftir þessa miklu uppbyggingu en þrátt fyrir það þá hyggjum við að frekari uppbyggingu á Geysi.“
Börnin eru það sem hafa kennt Elínu Svöfu einna mest.
„Árið 2015 þegar við vorum á kafi í að byggja hótelið eignuðust við dóttur okkar Antoníu Elínu sem var mikill fyrirburi og var vart hugað líf. Fyrir áttum við þrjár dætur sem voru þá eins árs, fjögurra ára og 14 ára. Hún kom í heiminn á viku 28 og var þrjár merkur. Hún andaði ekki við fæðingu og það tók sjö mínútur eftir fæðingu að koma henni í öndunarvél. Hún var á gjörgæslu í sex vikur og á vökudeild í rúma þrjá mánuði. Hún var með mjög mikinn fyrirburamaga og ældi stanslaust allan sólarhringinn og var lengi með tæki sem pípti þegar hún gleymdi að anda eftir heimkomu.
Hún fæddist einnig með skarð í góm sem er verkefni sem við erum ennþá að vinna í þar sem þjálfa þarf upp talvöðvann eftir aðgerðina. Hún var mjög veik í um tvö ár og var það mjög krefjandi þar sem við vorum með þrjú önnur börn og á kafi í að byggja hótelið. Ég var sjálf líka mikið veik eftir fæðinguna og það tók langan tíma fyrir mig að ná heilsu á ný. Ég man lítið frá þessum tíma enda vorum við bæði ósofin og að reyna bara að takast á við öll daglegu verkefnin. Hún er þó algjör valkyrja og hefur sigrast á mörgum áskorunum og er í dag heilbrigð. Eins þá er allt starfsfólk vökudeildar englar og ég hugsa endalaust til þeirra með þakklæti fyrir þeirra ómetanlega starf og lífsbjörg,“ segir hún.
Hvaða sýn hefur þú á lífið?
„Ég tel að hamingjan er ákvörðun en við þurfum að vinna í þeim ákvörðunum á hverjum degi og hjálpa öðrum í þeirri vinnu ef við getum gefið af okkur. Ég reyni alltaf að vera jákvæð og sjá allt sem verkefni en ekki vandamál og vanda mig við allt sem ég tek mér fyrir hendur. Það skiptir mig mjög miklu máli koma vel fram við alla í leik og í starfi og gefa frá mér jákvæða orku.“
Hvernig er morgunrútínan þín?
„Ég vakna um 6:30 og þar sem mér finnst mikilvægt að börnin eigi rólega byrjun á deginum þá kveiki ég á kertum og set á tónlist áður en ég vek stelpurnar mínar. Við tekur svo að undirbúa þær fyrir daginn. Við tökum allt til kvöldinu áður, það hjálpar svo mikið til við að eiga rólega byrjun á deginum. Við búum yfir þeim lúxus að skólabíllinn sækir þær um 7:40 og þegar þær fara í skólabílinn fer ég beint í ræktina, ef ég fer ekki strax þá veit ég að ég mun ekki koma því fyrir inn í daginn minn.“
Hvernig skipuleggur þú daginn þinn?
„Ég þarf að vera mjög skipulögð og geri í upphafi árs ársyfirlit þar sem ég set niður vinnumarkmið ársins og eins allt sem viðkemur fjölskyldunni. Ég skipti því svo niður á hvern mánuð og viku og set mér fyrir verkefni fyrir hvern dag og eftir því sem bætist við verkefnin reyni ég að dreifa þeim niður á vikuna. Þetta er mjög mikilvægt með stærri verkefni því það er svo auðvelt að festast í minni verkefnum og þá er erfitt að komast áfram í stærri markmiðum. Ég reyni líka að skipuleggja fundardaga og vinnudaga aðskilið því ég kemst í besta flæðið að ná að sökkva mér niður í vinnuna án þess að vera að stökkva á fundi inn á milli. Að því sögðu þarf maður líka að sýna sér mildi ef maður nær ekki að klára verkefnalista dagsins og færa þá yfir á annan dag.“
Hvað gerir þú til þess að hlaða batteríin?
„Útvist í ýmsu formi með fjölskyldunni enda gefur náttúran mér bestu orkuna, fara í ræktina og að lesa góðar bækur og heitt freyðibað að kvöldi til. Svo klikkar aldrei að hlusta á góða tónlist og hitta vinkonur mínar.“
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?
„Mér finnst öll útivist mjög skemmtileg; að skíða, skauta, fara á sleða, í göngur og hjóla í Haukadalsskógi og ferðast um Ísland á sumrin. Eitt það besta við að búa í sveit er náttúran og æskudraumurinn var að vera umkringd náttúrunni. Fjölskyldan mín er líka í hestum á sumrin og ég er að reyna að ná að vera jafn góð og þau. Ég tek líka ljósmyndir og les bækur á hverjum degi. Svo á ég besta vinkonuhópinn og við bröllum mikið saman allt frá því að leira yfir í að ferðast saman.“
Ertu komin á þann stað sem þú vilt vera á eða ertu með enn stærri drauma?
„Það eru mjög margir draumar sem eiga eftir að rætast sem við erum þegar byrjuð að vinna að. Það er það skemmtilegasta við vinnuna mína er uppbyggingin og að staðna aldrei enda er alltaf hægt að bæta sig. Það er mjög mikilvægt að verða aldrei alveg sátt en það er líka mikilvægt að vera skynsöm og láta draumana rætast á réttum hraða, við tókum okkur til dæmis góðan tíma í að byggja hótelið sem var mjög mikilvægt. Ég er með svo margar hugmyndir og drauma sem eiga vonandi eftir að verða að veruleika. Stóri draumurinn minn núna er heilsulind við hótelið og eins aðrar spennandi nýjungar sem eru þegar komnar í vinnslu. Svo er persónulega markmiðið mitt að verða geitabóndi á árinu,“ segir Elín Svafa og brosir að lokum.“