Ríkið hafði betur gegn skjólstæðingi Arnars

Kórónuveiran Covid-19 | 19. febrúar 2024

Ríkið þarf ekki að greiða bætur vegna sóttkvíar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað ríkið af kröfum manns um miskabætur vegna sóttkvíar sem honum var gert að sæta vegna sóttvarnaaðgerða í tengslum við útbreiðslu Covid-19.

Ríkið þarf ekki að greiða bætur vegna sóttkvíar

Kórónuveiran Covid-19 | 19. febrúar 2024

Arnar Þór Jónsson var lögmaður mannsins.
Arnar Þór Jónsson var lögmaður mannsins. Samsett mynd

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað ríkið af kröfum manns um miskabætur vegna sóttkvíar sem honum var gert að sæta vegna sóttvarnaaðgerða í tengslum við útbreiðslu Covid-19.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað ríkið af kröfum manns um miskabætur vegna sóttkvíar sem honum var gert að sæta vegna sóttvarnaaðgerða í tengslum við útbreiðslu Covid-19.

Málsatvik voru þau að maðurinn kom til Íslands í nóvember árið 2021 eftir stutta dvöl í Bretlandi en hann hefur lögheimili hérlendis. Þá var í gildi reglugerð um komur ferðamanna til Íslands. 

Taldi brotið mannréttindum

Ferðamönnum með tengsl við Ísland bar að sýna fram á mótefnapróf eða PCR-próf tveimur dögum eftir að þeir komu til landsins. Gátu ferðamenn það ekki þurftu þeir að undirgangast PCR-próf á landamærastöð og sæta sóttkví þangað til niðurstöðurnar lægju fyrir. Það gerði maðurinn ekki og var því gert að sæta 14 daga sóttkví. 

Arnar Þór Jónsson, forsetaframbjóðandi og lögmaður mannsins, byggði málið á því að sóttvarnaaðgerðir og aðgerðir yfirvalda vegna heimsfaraldursins hefðu verið ólögmætar.

Taldi hann að ríkið hefði gerst brotlegt gegn stjórnarskrárvörðu frelsi mannsins og réttlætt það með óvísindalegum rökum.

Þá hafi meðalhófs ekki verið gætt og jafnræðisregla brotin. Ákvörðun sóttvarnalæknis hafi brotið lög.

Öllum málsástæðum hafnað

Dómurinn hafnaði öllum málsástæðum mannsins.

Fram kom í dómnum að stjórnvaldsákvörðun sóttvarnalæknis, að láta manninn sæta sóttkví, hefði haft skýra stoð í ákvæðum sóttvarnalaga. Sóttvarnatíminn hafi jafnframt verið innan marka laganna.

Því var hafnað að ákvörðun sóttvarnalæknis hafi ekki verið í samræmi við lög og aðrar reglur sem voru í gildi á þeim tíma.

Þá kom fram að hann hefði ekki sýnt fram á nein áreiðanleg gögn sem gátu stutt efasemdir hans varðandi forsendur sóttvarnaaðgerða yfirvalda.

Dómurinn hafnaði því að gengið hefði verið of nærri mannréttindum mannsins með því að láta hann sæta sóttkví í 14 daga. Engin rök studdu að það hefði verið honum erfiðara en öðrum.

Skilyrðum um brýna nauðsyn til að vernda líf og heilsu manna var fullnægt og því nauðsynlegt að grípa til aðgerðanna.

Covid-19 ekki venjuleg inflúensa

Þá kemur fram að ekki hafi verið gengið lengra en nauðsynlegt var og því hefði meðalhófs verið gætt. Því til stuðnings er bent á að maðurinn hefði verið með val um að skila vottorðum samkvæmt reglugerðinni eða fara í próf á landamærunum og svo í sóttkví. 

Sérfróður meðdómandi á sviði sýkla- og veirufræði átti sæti í dómnum. Var ekki fallist á það að Covid-19 væri venjuleg flensa, en með því var átt við hefðbundna inflúensusýkingu eða annars konar öndunarfærasýkingu sem félli undir hugtakið flensu í almennum skilningi.

Allir voru móttækilegir fyrir smiti í upphafi og fjölmargir veiktust alvarlega, líka hraustir menn.

mbl.is