Benti allt til að innrás væri yfirvofandi

Benti allt til að innrás væri yfirvofandi

„Leyniþjónustur Bretlands og Bandaríkjanna fara um miðjan nóvember 2021 að gefa það út að innrás Rússlands í Úkraínu sé yfirvofandi og það benti allt til þess,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Benti allt til að innrás væri yfirvofandi

Tvö ár frá innrás Rússa í Úkraínu | 24. febrúar 2024

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði. Samsett mynd/mbl.is/María/AFP

„Leyniþjónustur Bretlands og Bandaríkjanna fara um miðjan nóvember 2021 að gefa það út að innrás Rússlands í Úkraínu sé yfirvofandi og það benti allt til þess,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.

„Leyniþjónustur Bretlands og Bandaríkjanna fara um miðjan nóvember 2021 að gefa það út að innrás Rússlands í Úkraínu sé yfirvofandi og það benti allt til þess,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.

„Eftir því sem dagarnir liðu í þessum nóvembermánuði og fram að stríði fannst mér allt benda til þess að þeir myndu láta til skarar skríða.“

Tvö ár eru liðin frá innrás Rússa í Úkraínu. Baldur birti í dag samskipti sín við fréttamann Ríkisútvarpsins í desember 2021 þar sem Baldur var beðinn um að ræða um pólitíkina á Íslandi í Kastljósi. Hann kvaðst vera á kafi í alþjóðamálum og bauð fréttamanni að hafa samband þegar Rússar myndu ráðast inn í Úkraínu. Innrás hófst rúmum tveimur mánuðum síðar.

Baldur segir í samtali við mbl.is að mikilvægt sé að meta stöðuna sem uppi er.

„Rússneski herinn er að sækja fram og varnir Úkraínu eru að bresta á tilteknum stöðum. Það stefnir í raun í óefni fyrir varnir Úkraínu ef Bandaríkin styðja ekki við bakið á stjórnvöldum í landinu, eða þá Evrópuríkin og önnur lýðræðisríki. Nú er ögurstund.“

Óttast að Rússar láti ekki staðar numið

„Það er augljóst að Rússar munu reyna að ná meira landsvæði undir sig ef þeir mögulega geta,“ segir Baldur og kveðst óttast að Rússar muni ekki láta staðar numið við Úkraínu, nái þeir landinu undir sig, sem hann á þó ekki endilega von á.

„En ég myndi þá telja að Moldóva væri næst og þá stendur rússneski herinn grár fyrir járnum við landamæri NATO-ríkja.“

Baldur kveðst taka fullt mark á skýrslum sérfræðinga í Noregi, Danmörku, Bretlandi og fleiri ríkjum, sem vara við mögulegum hernaðarógnum af hálfu Rússlands á næstu árum.

„Í þessum skýrslum er talað um að það séu verulega miklar líkur á því að Rússar reyni hernaðarlega að ögra NATO-ríkjum. Ég vil taka jafnmikið mark á þessu og þegar leyniþjónustur Bretlands og Bandaríkjanna vöruðu við innrás Rússlands í Úkraínu.“

„Við eigum að gera allt sem við getum til þess að stuðla að friði, en eins og staðan er núna og vegna þessarar skelfilegu útþenslustefnu Pútíns og rússneskra stjórnvalda, held ég að fælingarmátturinn sé sterkasti leikur okkar í stöðunni til þess að tryggja frið í okkar heimshluta.“

Oleksandr Sirskí, yfirmaður úkraínska heraflans, fer yfir stöðu mála í …
Oleksandr Sirskí, yfirmaður úkraínska heraflans, fer yfir stöðu mála í Úkraínu með öðrum herforingjum. AFP

Úkraínumenn þurfi fleiri vopn

Spurður um þróun mála í Úkraínu segir Baldur:

„Það er hætt við því að rússneski herinn muni ná að leggja undir sig meira svæði í austurhluta landsins. Úkraínsk stjórnvöld þurfa meiri fjárstuðning og fleiri vopn og að mínu mati hafa Vesturlönd verið of varkár í stuðningi sínum við þau."

Í því samhengi bendir hann á að ákvörðun um að afhenda Úkraínu öflugar herflugvélar hafi dregist á langinn.

„Þær eru ekki ennþá komnar og Rússland hefur algjöra yfirburði í lofti. Það gerir það að verkum að þeim gengur núna betur að sækja fram en áður.“

Úkraínskur hermaður í Bakmút.
Úkraínskur hermaður í Bakmút. AFP/Yashuyoshi Chiba
mbl.is