Upphafið að grimmara stríði

Flóttafólk á Íslandi | 25. febrúar 2024

Upphafið að grimmara stríði

Iryna Hordiienko flúði Úkraínu í upphafi stríðins, en heima í Kænugarði átti hún glæstan feril í sjónvarpi. Á Íslandi vinnur hún sem verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í málefnum flóttamanna.

Upphafið að grimmara stríði

Flóttafólk á Íslandi | 25. febrúar 2024

„Allt miðast við fyrir og eftir stríð og satt að …
„Allt miðast við fyrir og eftir stríð og satt að segja erum við að verða örvæntingarfull,“ segir Iryna Hordiienko. mbl.is/Ásdís

Iryna Hordiienko flúði Úkraínu í upphafi stríðins, en heima í Kænugarði átti hún glæstan feril í sjónvarpi. Á Íslandi vinnur hún sem verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í málefnum flóttamanna.

Iryna Hordiienko flúði Úkraínu í upphafi stríðins, en heima í Kænugarði átti hún glæstan feril í sjónvarpi. Á Íslandi vinnur hún sem verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í málefnum flóttamanna.

Iryna er ekki bjartsýn á að stríðið endi í bráð en á sér þó enn von um frjálsa Úkraínu. 

Þakklát stuðningi en dugar ekki til

Iryna, sem búið hefur hér í eitt og hálft ár, segist í upphafi alið þá von í brjósti að stríðið yrði ekki langt. 

„Ég hélt að Rússland myndi þurfa að þola alls kyns viðskiptaþvinganir og að heimurinn myndi standa með okkur. En væntingar mínar voru of háleitar. Við erum þakklát öllum stuðningi sem við fáum en það dugar ekki til. Við þurfum vopn og vistir og við þurfum strangari viðskiptahömlur. Rússar eru að bomba okkur með eigin sprengjum en einnig frá Norður Kóreu og Kína,“ segir hún og nefnir að áform um að lama rússneskt efnahagslíf hafi mistekist. 

„Það hefur ekki lamast; þeir stórgræða á að selja olíu til Indlands og eru ekki að tapa peningum. Þeir eyða síðan öllu í hernað því það er eina leiðin fyrir Pútín og hans klerka að halda völdum.“

Hvernig heldurðu að þetta fari að lokum?

„Það fer allt eftir þeim stuðningi sem við fáum. Ef við fáum meiri stuðning frá Evrópubandalaginu og Bandaríkjunum getum við kannski haldið Rússum frá okkar landamærum. Við viljum aðeins frið í landinu okkar og fá að byggja það upp á ný. Við viljum snúa aftur til fósturjarðarinnar. En ef við fáum ekki stuðninginn, munum við tapa og það verður einnig tap fyrir lýðræðið.

Pútín brýtur allar reglur og fremur alls kyns glæpi og enginn er látinn svara til saka fyrir stríðsglæpina. Hann sýnir þar með öðrum einræðisherrum heimsins að þeir geta gert hvað sem þeir vilja og enginn mun veita mótspyrnu. Áróðursefni í Rússlandi lýsir því hvernig þeir ætli að endurheimta öll fyrri lönd Sovétríkjanna.

Þeir segjast ætla til Eistlands, Lettlands, Litháens og Póllands og til fleiri landa. Þeir munu ekki stoppa við Úkraínu. Þetta segja yfirvöldin, og meira að segja tala þeir um að taka Kasakstan. Ef, eða þegar, Úkraína tapar stríðinu, verður það aðeins upphafið að stærra og grimmara stríði. Því miður er þetta aðeins byrjunin.“

Vladimír Pútín Rússlandsforseti skálar við Xi Jinping, forseta Kína. Iryna …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti skálar við Xi Jinping, forseta Kína. Iryna segir engan þurfa að svara til saka fyrir stríðsglæpi Pútíns. AFP

Rússland verður að liðast í sundur

Viltu fara heim ef stríðinu lýkur, jafnvel þótt landið sé rjúkandi rústir? 

„Já. En jafnvel þótt lýst yrði yfir stríðslokum á morgun, vitum við samt að stríðinu er ekki lokið því Rússland mun aldrei hætta að reyna að ná yfirráðum yfir Úkraínu því þeir halda því fram að landsvæði Úkraínu tilheyri Rússlandi. Eftir fimm eða sjö ár hafa þeir læknað stríðssárin og safnað saman fleiri vopnum og byrja stríð á ný.

Eini möguleikinn á að stríðið endi endanlega er að Rússland liðist í sundur í minni lönd. Rússland er risastórt en í raun er rússneski hlutinn mjög smár. Hinar þjóðirnar eru af asískum uppruna. En fólkið er undir ógnarstjórn, heilaþvegið af stjórnvöldum og neytt til þess að læra rússnesku og lifa eftir rússneskum siðum á meðan þeirra eigin menning og tunga er upprætt. Í ríkustu héröðum Rússlands er fátækasta fólkið; fólk sem býr ofan á gaslindum hefur ekki sjálft gas til að kynda hús sín.

Og þaðan er fólk tekið til að fara í herinn; ekki frá Moskvu og Pétursborg, heldur frá fátækum svæðum langt í burtu. Fólkið má ekki mótmæla því þá er því varpað í fangelsi. Nú hafa Úkraínumenn barist fyrir sjálfstæði sínu og það er tækifæri fyrir aðrar þjóðir að gera það sama,“ segir hún. 

„Rússland verður að liðast í sundur því þá fá þessar þjóðir möguleika á að rísa upp og öðlast sjálfstæði.“

Sérðu það gerast?

„Nei. Á meðan að refsiaðgerðir virka ekki, gerist það ekki. Við héldum í upphafi stríðs að það myndi aðeins taka eitt ár fyrir efnahaginn að hrynja í Rússlandi, en það gerðist ekki, og á meðan ísskápurinn hjá fólki er ekki tómur, er öllum sama. Og jafnvel núna eftir látNavalnís gerist ekkert, því þetta er ekki stríðPútíns, þetta er stríð Rússlands. Rússum finnst þeir eigi að vera með heimsyfirráð.“

Fyrir utan veggi Kremlar í Moskvu. Iryna segir fólk í …
Fyrir utan veggi Kremlar í Moskvu. Iryna segir fólk í Rússlandi lúta ógnarstjórn og það sé heilaþvegið af stjórnvöldum. AFP

Ég átti fallegt og farsælt líf

Við snúum okkur að lífinu á Íslandi og framtíðinni. 

„Ég hef alltaf verið mikill ferðalangur en að vera túristi er ekki það sama og að vera flóttamaður. Andlega var mjög erfitt fyrir mig að koma hingað. Í Úkraínu átti ég flottan starfsferil og hafði skapað mér gott nafn. Auk þess fékk ég fín laun og var mjög hamingjusöm manneskja sem var heppin að geta valið sér sjálf sín verkefni í vinnunni. Ég átti fallegt og farsælt líf. Á einu augnabliki hvarf allt.“ 

„Ég byrja hvern dag á því að hringja í foreldra mína og fá fréttir af þeim,“ segir hún og segir erfitt að þurfa að flýja sitt eigið land. 

„Maður tapar öllu sínu gamla lífi, fjölskyldu og vinum, heimilinu og vinnunni. Við hittumst stundum nokkrir vinir frá Úkraínu til að hlæja og gráta saman. Líkamlega erum við hér en hugur okkar er enn í Úkraínu. Lífið er á bið og við erum hætt að plana framtíð okkar. Allt miðast við fyrir og eftir stríð og satt að segja erum við að verða örvæntingarfull. Við erum að deyja og sjáum ekki fyrir endann á því. Við erum ekki að biðja fólk að senda okkur hermenn; þetta er ekki ykkar stríð, en ég bið ykkur að senda okkur tól til að berjast, því Pútín mun aldrei stoppa. Eina sem við viljum er að vera frjálst lýðræðisríki.“

Tvö ár eru liðin um þessar mundir frá því Rússar réðust inn í Úkraínu. Þessum tímamótum hafa verið gerð góð skil í Morgunblaðinu síðustu daga og svo verður áfram næstu daga.

Ítarlegt viðtal er við Irynu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

mbl.is