Ásgeir Kolbeinsson fjölmiðlamaður segir lífið hafa kennt sér að horfa á erfiðleika sem tækifæri. Ásgeir sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, fer í þættinum yfir ferilinn, erfiðleika í kringum rekstur veitingastaða í Covid, brottrekstur úr útvarpinu og fleira.
Ásgeir Kolbeinsson fjölmiðlamaður segir lífið hafa kennt sér að horfa á erfiðleika sem tækifæri. Ásgeir sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, fer í þættinum yfir ferilinn, erfiðleika í kringum rekstur veitingastaða í Covid, brottrekstur úr útvarpinu og fleira.
Ásgeir Kolbeinsson fjölmiðlamaður segir lífið hafa kennt sér að horfa á erfiðleika sem tækifæri. Ásgeir sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, fer í þættinum yfir ferilinn, erfiðleika í kringum rekstur veitingastaða í Covid, brottrekstur úr útvarpinu og fleira.
„Ég hef í gegnum tíðina haft mikla tilhneigingu til að vilja laga hluti og hafa alla góða, en með tímanum hef ég lært að það er ekki alltaf hægt. Auðvitað finnst mér leiðinlegt ef fólk heldur eitthvað slæmt um mig, en stundum er bara ekki hægt að breyta því eða hafa áhrif á það. Þú ert kannski með 100 manns í veislu og 99 finnst þú frábær, en það er alltaf þessi eini sem er með allt á hornum sér. Tilhneigingin er þá að vaða í þennan eina og reyna að laga hann. En svo áttar maður sig á því að það er eitthvað sem maður á ekki að gera og er hvort sem er tilgangslaust,“ segir Ásgeir.
Annað sem Ásgeir fer yfir í þættinum er þegar hann var rekinn úr starfi í fyrsta sinn á ævinni, sem síðar kom í ljós að var byggt á misskilningi:
„FM 957 var í Álfabakka á þessum tíma og það var gríðarleg samkeppni á milli útvarpsstöðvanna, enda voru þær í eigu ólíkra aðila. Þú varst í raun í sitthvoru liðinu, en ég verandi diplómat þekkti fólk á báðum stöðum og var kannski ekki mikið í þessari liðsskiptingu. Ef einhver sá þig í húsakynnum keppinautana byrjuðu alls konar sögur. Það var ekkert spotify eða annað slíkt á þessum tíma og veitingastaðir þurftu að láta búa til fyrir sig „playlista“ og ég var með samning við Hard Rock. Ég þurfti að sitja yfir spólunum í fleiri fleiri klukkutíma til að búa til þessa lagalista. En svo mæti ég einn daginn niður í Álfabakka og er rekinn á staðnum. Skýringin sem var gefin var að ég væri alltaf að vesenast eitthvað þarna á næturnar og öðrum skrýtnum tímum og það væru grunnsemdir um að ég væri í iðnaðarnjósnum. Að ég væri að skoða gögn og leka því upp á Lyngháls þar sem keppinautarnir voru. Þegar ég reyndi að útskýra mig var bara horft á það sem lélegt yfirklór og brottreksturinn stóð,“ segir Ásgeir. Hann segir að þetta hafi verið mjög óþægilegt, ekki bara að vera rekinn úr vinnu, heldur að verið væri að saka sig um hluti sem hann hafði ekki gert:
„Ég lærði helling á þessu og þetta var eitt af fyrstu skiptunum þar sem ég náði að snúa einhverju sem virtist hræðilegt í fyrstu yfir í eitthvað gott. Ég fékk einhverju eftir þetta vinnu hjá Íslenska útvarpsfélaginu á næturvöktum bæði á föstudögum og laugardögum frá 10-3 um nóttina og náði svo smám saman að klóra mig upp stigann og komast á betri vaktir í útvarpinu. Það var erfitt að taka þarna langt tímabil sem ungur maður þar sem ég gat aldrei farið út að skemmta mér um helgar eða fara í bíó á kvöldin, af því að ég var fastur á þessum vöktum.“
Yfirmaður Ásgeirs á þessum tíma var sjálfur Björgvin Halldórsson, sem var dagskrárstjóri og hann gaf engan afslátt:
„Björgvin var grjótharður og gaf manni engan afslátt. Hann lagði mikið upp úr því að fólk legði hart að sér og vinnusemi var í forgangi. Ég bað hann einhvern tíma um frí af því að það var árshátíð og mig langaði að taka þátt. Ég hafði þá verið fastur á þessum næturvöktum lengi og hélt að ég fengi loksins frí. En Bó horfði bara á mig og svaraði:
„Frí? Þetta er ekki Kassagerðin kallinn minn.“
Þar með var það útrætt og ekki rætt neitt frekar. Þetta var á tíma þegar það var talsvert meira mál að vera útvarpsmaður heldur en í dag. Það þurfti að finna til plötur og geisladiska fyrir hvert einasta lag alla vaktina. Þannig að ef maður fékk í magann eða eitthvað slíkt þurfti bara að setja átta mínútna lag á fóninn og vona að maður næði að klára klósettferðina áður en lagið kláraðist. Þeir sem þekktu bransann vissu að ef maður heyrði óvenjulega löng lög var það yfirleitt ávísun á að það væri eitthvað vesen í gangi!“
Ásgeir hefur á undanförnum árum rekið bæði skemmtistaði og veitingastaði og segir ekkert mikilvægara en að hafa gott starfsfólk og samstarfsfólk:
„Virðingarleysi er orðið svolítið algengt hjá yngra fólki í dag. Við sjáum það í mörgu í samfélaginu. Ef við ætlum að búa saman í samfélagi verðum við að hafa virðingu fyrir reglum samfélagsins og koma vel fram við fólk. Ég hef alltaf lagt mikið upp úr því að vera með fólk í vinnu sem lætur fólki líða vel og þú drífur aldrei lengra en starfsfólkið þitt í þessari tegund af rekstri,“ segir Ásgeir, sem segir Covid hafa farið illa með reksturinn á veitingastaðnum Punk sem á endanum þurfti að leggja upp laupana:
„Ég var mjög óánægður með aðgerðir stjórnvalda í Covid og það var mjög handahófskennt hvernig fyrirtæki fengu úthlutað aðstoð frá stjórnvöldum. Af því að við vorum svo nýlega byrjuð og gátum því augljóslega ekki sýnt fram á tekjufall og það sem voru skilyrði fyrir styrkjunum fengum við enga aðstoð. Það var mjög margt í ólagi við fyrirkomulagið á þessu öllu saman. Það var sárt að horfa upp á eitthvað sem heppnaðist svona vel hrynja út af einhverju sem við höfðum ekkert um að segja. En það sem var sárast var að ég fékk góða vini mína inn í þetta og þau töpuðu peningum á þessu verkefni. En eins og með annað í lífinu lærir maður af því sem maður gerir og þetta fer í reynslubankann.“
Hægt er að hlusta á brot úr þáttum Sölva á hlaðvarpsvef mbl.is.