Samgöngustofa hefur svipt tvo leigubílstjóra leyfi sínu til leigubifreiðaraksturs til bráðabirgða.
Samgöngustofa hefur svipt tvo leigubílstjóra leyfi sínu til leigubifreiðaraksturs til bráðabirgða.
Samgöngustofa hefur svipt tvo leigubílstjóra leyfi sínu til leigubifreiðaraksturs til bráðabirgða.
Þetta staðfestir Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri hjá Samgöngustofu, í samtali við mbl.is.
Um er að ræða leyfi tveggja leigubílstjóra sem eru til rannsóknar hjá kynferðisafbrotadeild lögreglunnar á höfðaborgarsvæðinu vegna gruns um kynferðisbrot.
Annar leigubílstjórinn er sakaður um að hafa brotið gegn konu í leigubíl í miðbæ Reykjavíkur í lok nóvember á síðasta ári.
Hinn leigubílstjórinn er grunaður um að hafa sótt konu á leigubíl á veitingastað í Hafnarfirði, í félagi við annan mann, og farið með hana að hýbýlum annars þeirra þar sem grunur leikur á því að kynferðisbrotið hafi átt sér stað.
mbl.is greindi frá því í síðustu viku að mál annars bílstjórans væri til skoðunar hjá Samgöngustofu í samhengi við ný lög um leigubifreiðaakstur sem tóku gildi þann 1. apríl á síðasta ári.
Að sögn Þórhildar var annars vegar verið að skoða heimild lögreglu til að veita Samgöngustofu upplýsingar um málið, samkvæmt 4. málsgrein 19. greinar laganna, þannig að Samgöngustofa gæti sinnt eftirlitshlutverki sínu.
Hins vegar var verið að skoða heimild Samgöngustofu samkvæmt 3. málsgrein 16. greinar laganna til þess að svipta umrædda leigubílstjóra leyfi sínu til leigubifreiðaaksturs.
Þriðja málsgrein 16. greinar er svohljóðandi:
„Séu ríkar ástæður til að ætla að skilyrði fyrir sviptingu leyfis séu fyrir hendi og að töf á sviptingu geti haft almannahættu í för með sér, svo sem ef leyfishafi hefur sannanlega gerst sekur um vítavert hátterni og telja verður varhugavert að hann njóti leyfis áfram, er Samgöngustofu heimilt að svipta leyfishafa leyfi þegar í stað til bráðabirgða þar til endanleg ákvörðun í málinu hefur verið tekin.“
Þórhildur segir lögreglu hafa metið beiðni Samgöngustofu um upplýsingar sem svo að um væri að ræða nauðsynlegar upplýsingar í þágu eftirlits Samgöngustofu.
Þá segir hún Samgöngustofu hafa metið gögn lögreglunnar þannig að töf á sviptingu leyfis gæti haft almannahættu í för með sér og því þyrfti aðbeita 3. mgr. 16. grein laganna og svipta þannig leigubílstjórana leyfi sínu til leigubifreiðaaksturs þegar í stað til bráðabirgða, eða þar til endanleg ákvörðun hefur verið tekin í málinu.