Gyða hefur náð að viðhalda lífsstílnum í 21 ár

Heilsuferðalagið | 1. mars 2024

Gyða hefur náð að viðhalda lífsstílnum í 21 ár

Jógadrottningin Gyða Dís Þórarinsdóttir tók sín fyrstu skref í átt að bættri heilsu árið 1997 þegar hún flutti í Grafarvoginn ásamt fjölskyldu sinni og skráði sig í skokkhóp Fjölnis. Þá var markmiðið að ná að hlaupa í 20 mínútur án þess að stoppa, en í dag hefur hún lokið við Laugarvegshlaupið, sem er 54 km, er dugleg að fara í fjallgöngur, stendur á höndum, hoppar á trampólíni og stundar jóga af krafti. 

Gyða hefur náð að viðhalda lífsstílnum í 21 ár

Heilsuferðalagið | 1. mars 2024

Gyða Dís Þórarinsdóttir gjörbreytti lífsstíl sínum fyrir 21 ári síðan …
Gyða Dís Þórarinsdóttir gjörbreytti lífsstíl sínum fyrir 21 ári síðan og hefur náð að viðhalda honum með góðum og heilsusamlegum venjum. Samsett mynd

Jógadrottningin Gyða Dís Þórarinsdóttir tók sín fyrstu skref í átt að bættri heilsu árið 1997 þegar hún flutti í Grafarvoginn ásamt fjölskyldu sinni og skráði sig í skokkhóp Fjölnis. Þá var markmiðið að ná að hlaupa í 20 mínútur án þess að stoppa, en í dag hefur hún lokið við Laugarvegshlaupið, sem er 54 km, er dugleg að fara í fjallgöngur, stendur á höndum, hoppar á trampólíni og stundar jóga af krafti. 

Jógadrottningin Gyða Dís Þórarinsdóttir tók sín fyrstu skref í átt að bættri heilsu árið 1997 þegar hún flutti í Grafarvoginn ásamt fjölskyldu sinni og skráði sig í skokkhóp Fjölnis. Þá var markmiðið að ná að hlaupa í 20 mínútur án þess að stoppa, en í dag hefur hún lokið við Laugarvegshlaupið, sem er 54 km, er dugleg að fara í fjallgöngur, stendur á höndum, hoppar á trampólíni og stundar jóga af krafti. 

Þrátt fyrir að hafa tekið fyrstu skrefin í skokkhópnum fór Gyða Dís ekki að finna fyrir raunverulegum bætingum fyrr en nokkrum árum síðar þegar hún fór að innleiða heilsusamlegar venjur og hollt mataræði sem hefur hjálpað henni að viðhalda góðri heilsu í rúmlega tvo áratugi, en í dag er hún laus við bólgur, svefnleysi, vefjagigt og orkuleysi.

Gyða Dís hefur mikla ástríðu fyrir heilsueflingu og hefur starfað á því sviði síðastliðin 15 ár. Hún hefur víðtæka menntun í jóga- og Ayurveda-fræðum, er eigandi jógastúdíósins Shree Yoga og hefur haldið fjölmörg námskeið þar sem hún leiðir konur í átt að heilbrigðara líferni. 

Gyða er eigandi jógastúdíósins Shree Yoga og hefur haldið fjölda …
Gyða er eigandi jógastúdíósins Shree Yoga og hefur haldið fjölda námskeiða um heilbrigt líferni.

„Fann að ég þyrfti að gera eitthvað meira“

„Í fyrstu byrjaði ég mögulega á röngum enda eins og svo margir ... en þó ekki því allt helst þetta í hendur. Eitt leiddi af öðru og fyrr en varði var stefnan tekin á að hlaupa í 20 mínútur án þess að stoppa sem var gríðarlegt afrek fyrir mig,“ segir Gyða Dís. 

„Árin liðu en ég fann að ég þyrfti að gera eitthvað meira til að halda þetta út, halda heimili sem má segja að hafi verið frekar þungt, og halda í orkuna dagsdaglega til þess að sinna börnunum mínum, en einn af þremur drengjunum mínum er með hrörnunarsjúkdóminn SMA og þurfti aðstoð við allar athafnir daglegs lífs. Hann þurfti mikla ummönnun allan sólarhringinn og næturnar voru ekki síður erfiðar,“ útskýrir hún. 

„Það er hreinlega sagt í flugvélunum: „Settu súrefnisgrímuna fyrst á þig, síðan á barnið.“ Það er ótrúlega grimm setning, en til þess að geta aðstoðað barnið þarft þú að vera í formi til þess orkulega og andlega,“ bætir hún við. 

Gyða Dís fann fyrir miklu orkuleysi og þreytu þar til …
Gyða Dís fann fyrir miklu orkuleysi og þreytu þar til hún fór að huga að mataræðinu. Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir

Gyða Dís fór því að velta því fyrir sér hvað væri þess valdandi að ummálið minnkaði ekki, bjúgur og bólgur væru enn til staðar og þessi mikla þreyta þrátt fyrir reglulega hreyfingu. Hún hóf í kjölfarið að skoða mataræðið sitt og má segja að vegferðin hafi þá byrjað fyrir alvöru.

„Fyrir 21 ári síðan hófst sigurgangan og umbreytingin, en þá fóru verkin að tala, ummálið að minnka og orkan að aukast. Ég fór að skoða hvert raunverulegt innihald og næringargildi fæðunnar væri og velta því fyrir mér hvort pylsa með öllu, gos eða mars súkkulaðistykki væri raunverulega að þjóna mér á einhvern hátt,“ útskýrir hún. 

„Það gerðist hins vegar ekki á einni nóttu. Að ná góðri heilsu er ferðalag en ekki áfangastaður. Við tökum eitt skref í einu. Lífsstílsbreyting er nefnilega langhlaup en ekki spretthlaup,“ bætir hún við. 

Gyða Dís segir mikilvægt að taka eitt skref í einu.
Gyða Dís segir mikilvægt að taka eitt skref í einu.

Fyrstu skrefin oft þung

Gyða Dís viðurkennir að fyrstu skrefin í ferðalaginu hafi oft verið þung. „Maður hugsaði með sér: „Í alvöru, má ég þá aldrei fá mér þetta aftur?“ og „Hvað geri ég í matarboðum?“. Þetta er sannarlega áskorun fyrir mann sjálfan á allan hátt, en raunverulega spurningin er þó: „Hvort vegur þyngra, vellíðan eða vanlíðan?“,“ segir hún.

Gyða Dís segist fljótlega hafa byrjað að finna mun á sér – henni gekk betur í hlaupunum, hún hafði meira úthald og meiri orku til að sinna börnunum og heimilinu. „Það var gott spark í rassinn og staðfestingin varð enn meiri að ég þyrfti að leggja þetta á mig til að ná góðri heilsu, bættri líðan og til þess að vera til staðar,“ segir hún. 

Í kjölfarið fór Gyða Dís að lesa sér til og fræðast um venjur, en á þeim tíma voru upplýsingar ekki jafn aðgengilegar og þær eru í dag. Hún komst að því að grunnstoðirnar í lífinu væru fjórar talsins – fæði, svefn, hreyfing og hvatir, sem mynda ákveðna hringrás í lífinu. 

„Ef þú borðar illa og mikið ruslfæði hefur það þá afleiðingu að þú sefur illa. Ef þú sefur illa er afleiðingin sú að þú hefur minni orku til að hreyfa þig. Ef þú hreyfir þig ekki þá örvar þú þessar hvatir eins og fíkn og langanir í óhollustu og óþarfa, en fíknin getur verið margvísleg og ekki einungis matartengd heldur líka kynlífsfíkn, spilafíkn og þess háttar,“ útskýrir hún. 

Gyða Dís fór því á kaf í að innleiða heilsusamlegar venjur og prófa sig áfram með mataræði og hreyfingu, en í dag hefur hún fundið út hvaða venjur sem eru ómissandi í hennar daglega lífi til að viðhalda góðri heilsu. 

„Mínar daglegu venjur snúa að því að huga ávallt að heilsunni. Ég borða hollt og hreyfi mig alla daga. Ég borða við hæfi hvort sem ég er í fríi hérlendis eða erlendis, en ég hef prófað hin ýmsu mataræði og fundið það sem hentar mér og mínum líkama best,“ segir hún. 

„Súkkulaðigrísinn sem ég er var himinlifandi“

Með tímanum fór Gyða Dís að vera duglegri að prófa sig áfram í eldhúsinu og það leið eki á löngu áður en hún var farin að taka með sér fagurgræna og -bleika drykki í krukkum, dýrindis hráfæðissúkkulaði og ljúffengt spergilkál á viðburði sem vöktu forvitni margra. 

„Ég fór að leika mér meir og meir og aflaði mér þekkingu á því að búa til sjálf þar sem mínir bragðlaukar kölluðu á. Hægt og bítandi fann ég það út að dökka súkkulaðið eða kakóbaunin væri gríðarlega holl og gefandi. Súkkulaðigrísinn sem ég er var himinlifandi og byrjaði að búa til allskyns kræsingar til að taka með mér í veislur, matarboð, saumaklúbba og þess háttar,“ segir Gyða Dís. 

„Auðvitað fann ég að fólk var mjög áhugasamt að smakka og oftar en ekki hvarf minn matur strax því öllum fannst þetta gott. Ég fór því að koma með meira magn með mér og var fljótlega orðin sleip í súkkulaði- og hrákökugerð sem vakti mikla lukku, en með hverjum bita fékk fólk auðvitað fræðslu um ágæti dökka súkkulaðisins,“ bætir hún við. 

Gyða Dís er búin að mastera súkkulaði- og hrákökugerð.
Gyða Dís er búin að mastera súkkulaði- og hrákökugerð.

Stuttu síðar fékk Gyða Dís vini sína frá Ameríku í heimsókn, en hún hafði verið  au pair hjá þeim á árum áður. „Þau sögðu við mig svo skemmtilega setningu sem varð eiginlega upphafið af því ferli að ég fór að gefa enn meira af mér og blanda saman jóga og hreyfingu með mataræði, en það var: „Gyða, you're always teaching and giving information while you are eating“,“ útskýrir hún. 

Byrjar alla daga á kaldri sturtu og hafragraut

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Allir dagar byrja eins hjá mér. Ég vakna og fæ mér vatn, þurrbursta húðina, fer í kalda sturtu og græja mig fyrir daginn. Síðan hoppa ég, geri öndunaræfingar og hugleiðslu á meðan hafragrauturinn góði er í pottinum.“

Hafragrautur að hætti Gyðu Dísar

Hráefni:

  • Lífrænir hafrar
  • Möndlumjólk eða sletta af grískri jógúrt
  • Kanill og salt
  • 1 lífrænt epli
  • Hindber eða trönuber
  • Kakónibbur eða kakóduft

Aðferð:

  1. Settu öll hráefnin í pott og leyfðu suðu að koma upp.
  2. Slökktu undir pottinum, settu lokið á og leyfðu því að vera þar til þú ert tilbúin að borða grautinn – því lengur, því betra!

Hvernig hreyfingu stundar þú?

„Ef ég hef tíma fyrir vinnu þá fer ég með hundinn í göngu í 10 til 20 mínútur. Svo rek ég mitt eigið jógastúdíó svo ég er alltaf á hreyfingu. Ég elska að hoppa á fastandi maga – trampólínið er einn besti vinurinn en það er líka hægt að hoppa á staðnum eða sippa. Hoppið er með því betra sem þú getur gert fyrr sogæðakerfið þitt sem er hreinsunarkerfi líkamans. 

Svo eiga útivist og göngur einnig hug minn allan. Ég fer líka í ræktina þegar ég hef tíma og lyfti þungum lóðum.“

Gyða Dís ásamt hundinum Esju á Úlfarsfelli.
Gyða Dís ásamt hundinum Esju á Úlfarsfelli.

Hvernig er mataræðið þitt?

„Í dag er ég á svokölluðu plöntufæði eða Ayurveda-fæði þar sem ég hugsa um að borða sem hreinustu fæðuna, velja það sem gerir mínum frumum gott og er saðsamt. Það er nú ekki svo að ég borði hrátt grænmeti í allar mátíðir, alls ekki! Ég vinn fæðuna og borða kannski minnst af hráu grænmeti. Til dæmis er æðislegt að taka einn haus af lífrænu spergilkáli, skera það og hreinsa, setja út í sjóðandi vatn í eina til tvær mínútur, sigta og setja í skál. Síðan er það baðað upp úr góðri ólífuolíu og sjávarsalti nuddað á. Þetta er himnesk máltíð eða meðlæti.“

Lykilatriði að huga fram í tímann

Það kannast eflaust margir við það að hafa áveðið að taka heilsuna föstum tökum en gefist fljótlega upp. Aðspurð segir Gyða Dís lykilinn á bak við það að viðhalda lífsstílnum í öll þessi ár vera að hugsa og skipuleggja fram í tímann. 

„Margir hafa furðað sig á því að ég sé enn að borða eins og ég geri, en ég hef haldið í seigluna og verið vakandi fyrir því hvað ég er að versla inn og búa til. Ég fer ekki oft út að borða og bý alltaf til meira magn og frysti til að eiga til,“ segir hún. 

„Það er lykilatriði að hugsa aðeins fram í tímann og góð regla að eiga alltaf eitthvað djúsí til því öll fáum við löngum í eitthvað gott á einhverjum tímapunkti eða jafnvel á hverjum degi. Þá er það bara spurningin um að velja hvað þú færð þér,“ bætir hún við. 

„Það er bara ferðalagið og lífslöngunin sem drífur mig áfram í átt að bættri heilsu og vellíðan. Ég hef sterka tilfinningu fyrir því að það sem ég er að gera hent mér og mínum líkama mjög vel en þarf ekki að henta öðrum, þ.e.a.s. að vera á plöntufæði. Fólk velur fyrir sig,“ útskýrir hún. 

Gyða Dís hefur fundið það sem hentar hennar líkama þegar …
Gyða Dís hefur fundið það sem hentar hennar líkama þegar kemur að mataræði og hreyfingu.

Hvað drífur þig áfram?

„Lífið er til að lifa því lifandi öllum stundum og vera til taks fyrir mann sjálfan, fjölskylduna sína og vini. Ferðalagið í áttinni að bættri vellíðan getur verið hlykkjótt og er það þegar við byrjum, en vittu til – þegar þú öðlast styrk og þrautseigju og finnur hversu gott það er að vakna úthvíldur á morgnanna með jákvæðnina, athyglina og orkustigið upp úr öllu valdi þá hættir þú ekki því sem þú veist að gerir þér gott.“

Það er margt spennandi framundan hjá Gyðu Dís sem er alltaf með nokkra bolta á lofti. Mánudaginn 4. mars næstkomandi verður hún með frítt fjögurra vikna netnámskeið fyrir konur á öllum aldri þar sem áhersla verður lögð á litlar breytingar á daglegum venjum og áhrifin sem þær geta haft á lífsstíl og orkustig. Hægt er að skrá sig á námskeiðið hér

Skráningarfrestur á náskeiðið er til miðnættis sunnudaginn 3. mars.
Skráningarfrestur á náskeiðið er til miðnættis sunnudaginn 3. mars.
mbl.is