„Það að eiga barn í neyslu er sorgarferli“

Framakonur | 2. mars 2024

„Það að eiga barn í neyslu er sorgarferli“

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir, viðskipta- og markaðsfræðingur, hefur ákveðið að vera sólarmegin í lífinu þótt lífið hafi fært henni verkefni sem hafa verið óyfirstíganleg á köflum. Elsti sonur hennar var ekki hár í loftinu þegar aðili innan skólakerfisins tjáði henni að börn eins og hann enduðu oftast í fíkn, geðrofi eða í fangelsi. Þann raunveruleika er Eva Dögg að upplifa núna, en sonur hennar afplánar nú dóm á Litla-Hrauni.

„Það að eiga barn í neyslu er sorgarferli“

Framakonur | 2. mars 2024

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir segir frá sorginni og sársaukanum sem fylgir …
Eva Dögg Sigurgeirsdóttir segir frá sorginni og sársaukanum sem fylgir því að eiga barn í neyslu. Með góðri hjálp hefur hún náð að halda í gleðina og vonina um að allt fari á besta veg. mbl.is/Árni Sæberg

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir, viðskipta- og markaðsfræðingur, hefur ákveðið að vera sólarmegin í lífinu þótt lífið hafi fært henni verkefni sem hafa verið óyfirstíganleg á köflum. Elsti sonur hennar var ekki hár í loftinu þegar aðili innan skólakerfisins tjáði henni að börn eins og hann enduðu oftast í fíkn, geðrofi eða í fangelsi. Þann raunveruleika er Eva Dögg að upplifa núna, en sonur hennar afplánar nú dóm á Litla-Hrauni.

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir, viðskipta- og markaðsfræðingur, hefur ákveðið að vera sólarmegin í lífinu þótt lífið hafi fært henni verkefni sem hafa verið óyfirstíganleg á köflum. Elsti sonur hennar var ekki hár í loftinu þegar aðili innan skólakerfisins tjáði henni að börn eins og hann enduðu oftast í fíkn, geðrofi eða í fangelsi. Þann raunveruleika er Eva Dögg að upplifa núna, en sonur hennar afplánar nú dóm á Litla-Hrauni.

„Sonur minn og vinir hans voru fyrir í kerfinu. Þeim var ýtt út í horn. Þeir komu allir frá góðum heimilum og með sterkt bakland. Af þessum fjórum vinum hafa tveir látist af völdum ofneyslu og einn fyrirfór sér. Sonur minn er sá eini sem er enn á lífi,“ segir Eva Dögg, en sonur hennar tekur nú út dóm. Hann á að baki langa neyslusögu en hefur náð góðum bata inni á milli.

Sonur Evu Daggar er fæddur 1993 og gekk í Norðlingaskóla. Þegar hann var í tíunda bekk fékk hann greiningar, þar á meðal ADHD-greiningu. Hún segist hafa vaðið eld og brennistein og barist fyrir rétti sonar síns en það hafi ekki skilað árangri. Hún segist hafa upplifað mikið úrræðaleysi á þessum tíma og finnst eins og mörgum í svipaðri stöðu og sonur hennar hafi verið hafnað af kerfinu. Eva Dögg segir að þessir strákar hafi aldrei átt séns og telur að þeir væru allir á lífi og á öðrum stað ef það hefði verð stutt við þá. Hún segir jafnframt að kerfið hafi breyst til batnaðar á síðustu árum.

„Þegar sonur minn fékk ADHD-greiningu fyrst var nýbyrjað að greina börn með slíkt og það var komin lítil reynsla á að gefa fólki lyf til að hjálpa því. Lyfin fóru illa í hann og það var engin eftirfylgni. Þetta var allt mjög þungt í vöfum og ég var alltaf með í maganum því ég hafði svo miklar áhyggjur af honum,“ segir Eva Dögg.

„Eitt sinn fór ég á fund upp í Norðlingaskóla til að berjast fyrir tilvist hans enn eina ferðina. Þá komst ég að því að hann var látinn sitja frammi í tímum svo að hann væri ekki að trufla bekkinn. Hann var sem sagt látinn teikna fyrir utan stofuna og var ekki látinn fá blað og blýant heldur átti hann að teikna beint á borðið,“ segir Eva Dögg og bætir við:

„Á þessum tíma var ég í stöðugum samskiptum við skólann og var með menntasvið Reykjavíkur á „speed dial“. Eitt sinn var ég kölluð á fund með þáverandi skólastjóra skólans og fundinn sat sálfræðingur nokkur sem var yfir sálfræðiþjónustu Árbæjar á þeim tíma. Hann sagði við mig að svona strákar eins og sonur minn færu oftast út í neyslu og enduðu svo í fangelsi,“ segir hún og játar að henni hafi brugðið mikið.

„Ég spurði sálfræðinginn hvort hann hefði hitt barnið? Þegar hann sagðist ekki hafa gert það bað ég hann að yfirgefa fundinn. Hann ætti ekki erindi ef þetta væri viðhorf hans,“ segir Eva Dögg.

„Svo endar hann þannig,“ segir hún hugsi og bætir við:

„Kerfið hafnaði honum og í raun öllum börnum með greiningu á þeim tíma, þau voru fyrir. Þetta er sem betur fer öðruvísi í dag.“

Það hlýtur að vera sársaukafullt fyrir móður að heyra meðferðaraðila segja svona. Hvernig brástu við?

„Ég varð mjög reið en sem betur hef ég frá þessum tímapunkti fengið alla þá hjálp sem ég hef getað fengið og myndi alltaf berjast fyrir réttlætinu. Foreldrahús bjargaði lífi mínu í þessum aðstæðum á þessum tíma. Ég var í vikulegum viðtölum og hef alltaf þegið öll bjargráð sem til eru,“ segi Eva Dögg.

Eva Dögg segist hafa fengið mikla hjálp til þess að …
Eva Dögg segist hafa fengið mikla hjálp til þess að komast í gegnum áföll sem fylgja því að eiga barn í neyslu. mbl.is/Árni Sæberg

Var ráðlagt að henda syninum út af heimilinu

Svo leið tíminn og Eva Dögg man ennþá eftir því þegar hún áttaði sig á því að sonur hennar og vinir hans væru farnir að nota fíkniefni. Hún segir að hann hafi falið það vel fyrir umhverfinu til að byrja með.

Hvernig áttaðir þú þig á því að sonur þinn væri í neyslu?

„Maður sér það bara á fólki einhvern veginn. Það verða skapbrestir og svo fann ég hluti á heimilinu sem staðfestu grun minn,“ segir hún og nefnir poka af maríjúana og fleira neyslutengt.

„Hann var orðinn 18 ára þegar ég fann þessi eiturlyf og samkvæmt ráði frá Foreldrahúsi rak ég hann að heiman. Ég gat ekki haft hann á heimilinu þegar hann var í neyslu. Hann átti húsaskjól hjá pabba sínum og ömmu sinni. Ég á fleiri börn og gat ekki látið neysluna stjórna heimilinu. Hann vissi að honum var velkomið að búa heima þegar hann var edrú en ekki þegar hann var í neyslu. Margir dæma það en ég stend með þeirri ákvörðun,“ segir Eva Dögg og heldur áfram:

„Það skemmir fyrir öllu fjölskyldulífinu og lífi yngri systkina að hafa fólk í neyslu á heimilinu. Þetta fór með taugakerfið hjá mér og öllum hinum líka. Ég veit að þetta er sjúkdómur en þú getur ekki verið að hjúkra sjúklingi sem er á þessum stað. Þarna þarf kerfið að grípa inn í, sem það gerði alls ekki, og skólakerfið klikkaði algjörlega á þessum tíma. Ég verð svo miður mín að hugsa um þetta,“ segir hún.

Hvernig líður móður sem neyðist til að loka á barnið sitt? Getur hún litið glaðan dag?

„Það var ógeðslega erfitt að sleppa tökunum en þegar manneskja er orðin 18 ára, er sjálfráða, þá getur foreldri lítið gert. Ef þetta hefði verið stelpa veit ég ekki hvort ég hefði farið eins að. Í mörg ár var það innbyggt í mig að kíkja á símann um leið og ég vaknaði til að athuga hvort lögreglan væri búin að hringja í mig og segja mér að hann væri dáinn úr ofneyslu. Það að eiga barn í neyslu er sorgarferli. En svo birtir til inni á milli. Hann náði sér á strik um tíma og var edrú í fimm ár. Það reyndi líka á, því þá þurfti ég að kynnast honum upp á nýtt. Þegar hann var í neyslunni lokaði ég á tilfinningar til hans. Þegar hann var svo orðinn edrú vissi ég ekki hvernig ég ætti að vera því ég var búin að aftengja mig. Þá var mér ráðlagt að finna gamlar myndir af honum síðan hann var lítill til að athuga hvort ég fyndi ekki gamlar tilfinningar. Með því að skoða gamlar myndir fann ég þennan streng. Hann slitnar ekki neitt, enda sonur minn, flottur strákur og með mikla hæfileika. Ég er óendanlega þakklát að hann sé á lífi,“ segir hún.

Mæðgurnar Eva Dögg og Edda Björgvinsdóttir.
Mæðgurnar Eva Dögg og Edda Björgvinsdóttir.

Féll eftir andlát Gísla Rúnars

Eva Dögg er dóttir einnar ástsælustu leikkonu landsins, Eddu Björgvinsdóttur. Þegar hún var lítil skildu foreldrar hennar og móðir hennar giftist Gísla Rúnari Jónssyni, leikara og leikstjóra. Eva Dögg kallar hann pabba og þótt leiðir Eddu og Gísla Rúnars hafi skilið var hann alla tíð stór hluti fjölskyldunni.

„Pabbi var alltaf klettur og alltaf til staðar fyrir mig og börnin mín.“

Eva Dögg segir að sonur hennar hafi leitað mikið til Gísla Rúnars og sérstaklega í edrúmennskunni. Hún segir að það hafi verið mikið áfall fyrir hann, og auðvitað alla fjölskylduna, þegar Gísli Rúnar lést í júlí 2020.

„Þegar pabbi dó hvarf sonur minn aftur inn í heim fíknarinnar. Þeir voru svo miklir vinir og pabbi var svo mikill stuðningsmaður hans í edrúmennskunni. Hann flutti inn á pabba þegar hann var edrú. Það var því mikið áfall fyrir hann þegar pabbi var ekki til staðar fyrir hann lengur,“ segir Eva Dögg.

Hún segir að það sé sorglegt að horfa upp á barnið sitt fara út í fíkn.

„Ég er sorgmædd að þetta hafi farið svona. Af hverju er þetta svona? Af hverju fékk hann ekki stuðninginn sem hann þurfti? Ég er sannfærð um að hann nái sér og geti komist á réttan kjöl og nýti sér þetta til góðs en það er erfitt að horfa upp á barnið sitt í neyslu. Fíknisjúkdómurinn er flókinn geðsjúkdómur og það getur enginn sett sig í spor aðstandenda nema hafa verið þar. Ég vona innilega að hann komi til baka.“

Eva Dögg í sumarlegum kjól á góðviðrisdegi erlendis.
Eva Dögg í sumarlegum kjól á góðviðrisdegi erlendis.

Notar húmorinn í erfiðum aðstæðum

Eva Dögg segist ekki vera áfallasækin og vill ekki velta sér of mikið upp úr hlutunum. Hún kýs að horfa á björtu hliðarnar. Hún játar jafnframt að húmorinn hafi oftar en ekki hjálpað henni.

„Fíkn er sjúkdómur sem hefur áhrif á alla sem elska og eru í kringum viðkomandi. Ég hef oft hugsað hvort ég eigi að láta neyslu sonar míns lita allt mitt lif. Ég hef ákveðið að gera það ekki, en ég er og verð alltaf til staðar þegar fólk er í bata. Ég bý yfir seiglu sem hefur hjálpað mér þótt ég hafi oft haft þungar áhyggjur í gegnum tíðina. Þessi efni sem eru í gangi í dag eru ekki sambærileg því sem var í gangi fyrir 10 árum. Við erum að missa allt of marga sem þjást af þessum sjúkdómi.“

Hvað um húmorinn. Er hægt að nota hanna í svörtum aðstæðum?

„Já, hann hefur hjálpað mér þvílíkt, ég hef alltaf haft húmor að leiðarljósi og kaldhæðni sem ekki öllum er gefin og það er gulls ígildi. Það er svo mikilvægt að velja fólk í kringum sig sem er á sama stað og getur hlegið með manni. Ég er þakklát fyrir að vera umvafin góðu fólki og á góða fjölskyldu. Ég hef farið í gegnum alls konar áföll í gegnum tíðina og það þýðir ekkert að gefast upp. Ég hef gengið í gegnum það að missa aleiguna og veit hvernig það er að eiga varla salt í grautinn. Ég er bara þakklát fyrir að mega eldast og þroskast. Þeir sem þekkja mig vita að líf mitt er ekki eitthvert glanslíf. Fólk styrkist við áföllin sem það gengur í gegnum ef það vinnur úr þeim og fær aðstoð. Ég er þeirrar skoðunar samt að seigla og lífsgleði sé meðfæddur eiginleiki,“ segir hún.

Hvert er þitt helsta bjargráð?

„Ég er mjög trúuð manneskja og hef alltaf verið það. Ég á mitt samband við mitt almætti. Það sem hefur bjargað mér er að þakka fyrir alla litlu hlutina. Þakka fyrir baklandið og það sem ég hef.“

Hjónin Bjarni Ákason og Eva Dögg Sigurgeirsdóttir.
Hjónin Bjarni Ákason og Eva Dögg Sigurgeirsdóttir.

Stundarinnkaup redda ekki neinu

Í tískuheiminum er oft grínast með að fólk noti innkaup til þess að láta sér líða betur. Hvernig er það með þig, hefur þú farið í „retail therapy“ til að láta þér líða betur?

„Nei, ég kannast ekki við það. Ég þarf að vera í góðu jafnvægi tl að geta keypt mér eitthvað fallegt,“ segir Eva Dögg og hlær.

„Ég kaupi mér hluti sem ég get notað, stundarkaup gefa mér ekki lífsfyllingu,“ segir hún.

Eva Dögg er gift Bjarna Ákasyni og eiga þau tvo syni. Hann er þekktur fyrir að hafa kynnt Ísland og Skandinavíu fyrir tæknirisanum Apple en árið 2019 festi hann kaup á fyrirtækinu Bako Ísberg. Hann sér um daglegan rekstur en hún um markaðsmálin. Hún segir að það hafi ekki verið planið að þau hjónin færu að vinna saman.

„Hann er búinn að reka mig nokkrum sinnum og ég búin að segja enn oftar upp og reka hann sömuleiðis,“ segir Eva Dögg og hlær.

„Ég ætlaði bara að vera þarna í þrjá mánuði, setti upp netverslun fyrir fyrirtækið og gerði það sýnilegra. Svo fór ég að vera með puttana í vöruúrvalinu. Nú er ég bráðum búin að vera þarna í fjögur ár. Svona er maður leiddur áfram. Ég átti ekki von á því að ég myndi enda í þessum geira,“ segir Eva Dögg, sem þekkir tískugeirann betur.

Eva Dögg í Kaupmannahöfn.
Eva Dögg í Kaupmannahöfn.

Á dögunum stofnað hún fyrirtækið Litlu markaðsstofuna með dóttur sinni, Söru Ísabellu Guðmundsdóttur, sem er að læra viðskiptafræði.

„Mig langar að fara dýpra í samfélagsmiðla. Það er nýtt landslag að myndast í markaðsmálum og ástríða mín er markaðsmál.“

Eva Dögg lærði markaðsfræði í Bandaríkjunum og útskrifaðist 1994. Við heimkomuna fékk hún vinnu hjá Hagkaupum og segir að það hafi verið einn besti skóli sem hún hafi farið í.

„Ég fór að vinna sem innkaupastjóri hjá Hagkaupum, sem voru mikið veldi á þeim tíma. Ég var erlendis 120 daga á ári að kaupa inn og framleiða vörulínur og þarna lærði ég miklu meira en ég lærði í skólanum og í raun meira en ég lærði í MBA-náminu mínu í HR. Ég var látin vinna á lagernum og úti um allt í fyrirtækinu til að byrja með þótt ég væri í innkaupadeildinni. Mér var líka kennt það að allir í fyrirtækinu væru mikilvægir, ekki bara stjórnendurnir. Árið 1999 hætti ég að vinna í Hagkaupum því ég var komin með tvö börn og ég gat ekki verið svona mikið í burtu frá þeim. Mig langaði að opna vefverslun árið 1999, sem ég og gerði með því að opna tiska.is. Svona til að gera langa sögu stutta tapaði ég heilli íbúð á því. En það þýðir ekki að gráta það. Ef fólk er að byggja eitthvað upp og það gengur svo ekki þarf fólk að standa upp aftur. Ég hugsa oft til Steve Jobs, stofnanda Apple. Það þarf einhvern dýpri skilning en bara háskólagráðu til að skilja viðskipti. Þegar þau ganga ekki upp þarf fólk að hafa hugfast að gefast aldrei upp og gleyma því ekki að hamingjan er í dag,“ segir Eva Dögg brosandi og björt þrátt fyrir allt og allt.

mbl.is