Fær ekki að áfrýja dómi í kynferðisbrotamáli

Kynferðisbrot | 6. mars 2024

Fær ekki að áfrýja dómi í kynferðisbrotamáli

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni manns um áfrýjun á niðurstöðu Landsréttar í kynferðisbrotamáli, en dómurinn féll í nóvember. 

Fær ekki að áfrýja dómi í kynferðisbrotamáli

Kynferðisbrot | 6. mars 2024

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti …
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga um meðferð sakamála, að því er kemur fram í niðurstöðu Hæstaréttar. Ljósmynd/Colourbox

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni manns um áfrýjun á niðurstöðu Landsréttar í kynferðisbrotamáli, en dómurinn féll í nóvember. 

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni manns um áfrýjun á niðurstöðu Landsréttar í kynferðisbrotamáli, en dómurinn féll í nóvember. 

Í desember óskaði  maðurinn eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómnum. Ákæruvaldið lagðist gegn beiðninni.

Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu mannsins fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn stjúpdóttur hans frá því að hún var ellefu ára þar til hún varð þrettán ára. Refsing hans var ákveðin fangelsi í þrjú ár auk þess sem niðurstaða héraðsdóms um miskabætur til brotaþola var staðfest, sem voru 2,5 milljónir kr. 

Maðurinn tók fram að með áfrýjun vildi hann aðallega ná fram ómerkingu héraðsdóms en til vara að dómur Landsréttar yrði ómerktur.

Til þrautavara að hann yrði sýknaður af ákæru eða refsing milduð.

Taldi málsmeðferðina í andstöðu við lög

Beiðni sinni til stuðnings vísar maðurinn einkum til þess að eina skýrsla af brotaþola í málinu hafi verið tekin á rannsóknarstigi af dómara á grundvelli a-liðar 1. mgr. 59. gr. laga um meðferð sakamála. Ekki sé að finna neina skýringu á því hvers vegna sá dómari sem annaðist skýrslutökuna fór síðan ekki með málið og dæmdi það.

Leyfisbeiðandi taldi að þessi málsmeðferð hafi verið í andstöðu við lögin. 

Í þingbók málsins væri ekki getið um neina þá ástæðu sem gæti réttlætt þetta frávik frá lögbundinni skipan dómsins. Þá gerði hann athugasemd við dómaraskipti undir rekstri málsins í héraði.

Þá gerði hann jafnframt margvíslegar athugasemdir við málsmeðferð í Landsrétti og taldi að henni hefði verið stórlega ábótavant.

Að lokum byggði maðurinn á því að dómur Hæstaréttar hefði fordæmisgildi um framangreind atriði og að það hefði verulega almenna þýðingu fyrir leyfisbeiðanda að fá úrlausn Hæstaréttar í málinu.

Lýtur ekki atriðum sem hafa verulega almenna þýðingu

Hæstiréttur segir í niðurstöðu sinni, að að virtum gögnum málsins verði ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga um meðferð sakamál.

Þá séu ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu.

Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti. Beiðninni var því hafnað.

mbl.is