Kynlífið snarminnkaði eftir að sambúðin hófst

Samskipti kynjanna | 6. mars 2024

Kynlífið snarminnkaði eftir að sambúðin hófst

Áslaug Kristjánsdóttir, hjúkr­un­ar- og kyn­fræðing­ur og höf­und­ur bók­ar­inn­ar Lífið er kyn­líf, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurningu frá strák sem flutti inn með kærustu sinni en finnst hann og kærastan ekki ganga í takt. Hvað er til ráða? 

Kynlífið snarminnkaði eftir að sambúðin hófst

Samskipti kynjanna | 6. mars 2024

Áslaug Kristjánsdóttir svarar spurningum lesenda Smartlands.
Áslaug Kristjánsdóttir svarar spurningum lesenda Smartlands. Ljósmynd/Samsett

Áslaug Kristjánsdóttir, hjúkr­un­ar- og kyn­fræðing­ur og höf­und­ur bók­ar­inn­ar Lífið er kyn­líf, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurningu frá strák sem flutti inn með kærustu sinni en finnst hann og kærastan ekki ganga í takt. Hvað er til ráða? 

Áslaug Kristjánsdóttir, hjúkr­un­ar- og kyn­fræðing­ur og höf­und­ur bók­ar­inn­ar Lífið er kyn­líf, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurningu frá strák sem flutti inn með kærustu sinni en finnst hann og kærastan ekki ganga í takt. Hvað er til ráða? 

Sæl Áslaug.

Það er um það bil ár síðan ég flutti inn með kærustunni minni og við erum farin að átta okkur á ýmsum vandamálum. Eitt versta er að við erum ekki alveg á sömu stillingunni og nú erum við eiginlega hætt að stunda kynlíf. Við stunduðum mikið kynlíf þegar við vorum bara að hittast. Mér finnst hins vegar gott að fara sofa fyrir tíu og vakna snemma og fara í ræktina. Hún er hins vegar næturhrafn og er stundum ekki komin upp í rúm fyrr en klukkan tvö. Við erum eiginlega aldrei saman uppi í rúmi.

Kv. Z

Áslaug er höfundur bókarinnar, Lífið er kynlíf.
Áslaug er höfundur bókarinnar, Lífið er kynlíf.

Elsku Z,

Þú lýsir sögu sem ég heyri á hverjum degi. „Þegar við vorum að hittast var kynlífið spennandi en eftir að við fluttum inn saman þá er eins og það sé í dauðaslitrunum“. Þetta er hræðileg saga og því er yfirleitt einfaldasta skýringin sú sem verður ofan á. Svo heldur sagan áfram vegna þess að það er vandi að búa saman og fólk segir „við erum of ólíkar manneskjur til þess að samþættast“. Þegar fólk gengur þessari skýringu á vald endar sambandið gjarnan eftir einhvern tíma. Hvenær það gerist fer svolítið eftir þolinmæði og aldri parsins.

En yfirleitt þegar skýringar eru einfaldar og augljósar liggur meira að baki. Auðvitað verðum við leiðari á þeim sem við búum með en þeim sem við erum að hitta. Við tökum þeim yfirleitt frekar sem sjálfsögðum hlut og það er ekki mjög spennandi. Að sama skapi sjáum við sambúðarfólk í flóknari mynd en það fólk sem við hittum bara. Við förum að sjá flækjurnar sem fylgja því að tengjast dýpri böndum og finnum líka til öryggis í sambandinu því það er komið á annað stig. Öryggi í of miklu magni er yfirleitt ekki sérlega gott fyrir langlíft og spennandi kynlíf. En líklega verður kynlíf óþægilegt og jafnvel hræðilegt ef öryggið er í of litlu magni. 

Verkefnið ykkar er að skapa jafnvægi milli öryggis og áhættu í sambandinu og kynlífinu. Það krefst mun meiri sköpunar að stunda kynlíf í langtímasambandi og sambúð en í tilhugalífi. Margt sambúðarfólk sem farið hefur í gegnum þetta á undan ykkur hefur gefið fræðifólki innsýn í hvað virkar og hvað ekki. Eitt af því er að fara áfram á stefnumót þrátt fyrir að við getum alveg hist bara heima. Annað er að stunda nýjungar í kynlífi þrátt fyrir að við getum alveg gert það sama í hvert skipti. Öll pör virðast þrífast best þegar jafnvægi er milli hversdagsleikans og ævintýra. Það er ykkar að finna hvar það jafnvægi liggur hjá ykkur. Það krefst þess að þið getið talað saman. 

Hitt atriðið sem þú nefnir með svefntímann hef ég heyrt oftar en ég hef tölu á. Einhvern tímann æxlaðist það þannig að fólk fór að sofa saman fyrir svefninn. Það er að öllum líkindum tengt lifnaðarháttum okkar á þessu skeiði mannkynssögunnar frekar en einhverjum náttúrulegum takti. Það góða við þessa hugmynd er að við getum alveg leikið á hana. Það er í raun það sem málið snýst um en ekki að þið séuð á sitthvorri stillingunni. Þið þurfið að endurhugsa þetta ef þið viljið að kynlífið lifi sambúðina af. Þið þurfið að ákveða hvenær er hentugt að sofa saman því það er greinilega truflandi að reyna tengja það svefntíma ykkar.

Til þess að læra meira um hvernig er hægt að búa með öðru fólki og láta sambandið blómstra mæli ég með að þið lesið bók sem ég skrifaði og gaf út í fyrra. Hún heitir Lífið er kynlíf.

Ef þið viljið hitta mig og eiga eitt samtal við mig ykkur að kostnaðarlausu er ég að fara af stað með hlaðvarp þar sem ég hitti fólk í eitt skipti í ráðgjöf og tek það upp. Ég mun svo nota efnið úr upptökunni í hlaðvarpsþátt þar sem fólk er ekki persónugreinanlegt en rödd þess mun heyrast. Ef þú hefur áhuga á að vita meira um hlaðvarpið máttu senda póst á HÉR. 

Kær kveðja,

Áslaug

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Áslaugu spurningu HÉR. 

mbl.is