Sigríður Hrund Pétursdóttir eigandi fyrirtækisins Vinnupallar og forsetaframbjóðandi er stödd í París þar sem hún flytur erindi á kvennaráðstefnunni WYN Global Women Power Summit and Expo 2024 sem fram fer á alþjóðlegum degi kvenna. Hún segir brýnt að konur standi saman og hætti að plokka fjaðrirnar.
Sigríður Hrund Pétursdóttir eigandi fyrirtækisins Vinnupallar og forsetaframbjóðandi er stödd í París þar sem hún flytur erindi á kvennaráðstefnunni WYN Global Women Power Summit and Expo 2024 sem fram fer á alþjóðlegum degi kvenna. Hún segir brýnt að konur standi saman og hætti að plokka fjaðrirnar.
Sigríður Hrund Pétursdóttir eigandi fyrirtækisins Vinnupallar og forsetaframbjóðandi er stödd í París þar sem hún flytur erindi á kvennaráðstefnunni WYN Global Women Power Summit and Expo 2024 sem fram fer á alþjóðlegum degi kvenna. Hún segir brýnt að konur standi saman og hætti að plokka fjaðrirnar.
Hvernig komstu þangað sem þú ert í dag?
„Með elju, dugnaði, kjarki og sjálfsmildi. Ég hef vísvitandi komið mér í aðstæður sem eru krefjandi, þroskandi og mótandi allt mitt líf. Samfara því fylgir að hitta gott fólk sem styður man til góðra verka, leiðbeinir og ráðleggur. Baklandið mitt er sterkt hvort sem um er að ræða fjölskyldu eða vini/vinkonur. Mér er ljúft og skylt að minnast á eiginmann minn og klett í lífinu, Baldur Ingvarsson. Hann hvetur mig í sífellu til dáða og styður mig alltaf og endalaust, enda er hann duglegasti og ósérhlífnasti drengur sem ég þekki,“ segir Sigríður Hrund.
Út á hvað gengur starfið?
„Núverandi starf er að vera forsetaframbjóðandi sem er ríflega fullt starf í nokkra mánuði. Lærdómskúrfan er lóðrétt, ég er að gera eitthvað nýtt á hverjum degi. Ég skipti mánuðunum á meðgöngutímabil, núna er vel liðið á annan þriðjung og lokaþriðjungur hefst eftir páska. Hér gildir að vera skipulögð, þolinmóð, þrautseig, mild, sterk, auðmjúk, hafa úthald, styðja sig vel við kraftmikil og góð gildi sem þakklæti, von, náð, gleði og kærleika. Þessi gildi eru ókeypis en gefa endalaust og margfalt af sér og gera lífið auðveldara að öllu leyti. Starfið gengur út á að vera ávallt heil og ganga með hreint opið hjarta.“
Hvers vegna forsetaframboð?
„Af því að hjarta mitt segir að þetta sé tilgangur minn, fyrir okkur öll, fyrir heiminn. Af því ég get það. Það er á Íslandi sem við veitum hvort öðru tækifæri til að standa upp og stíga fram. Það er á Íslandi sem við iðkum grunnréttindi átakalaust, með frið í hjarta, í þakklæti og í gleði. Á þann máta erum við leiðtogar í alþjóðaþorpinu og berum virðingu fyrir fortíð okkar, nútíð og framtíð. Ég er framúrskarandi góð í að hafa yfirsýn, teyma ólíkt fólk saman, finna skapandi lausnir og takast á við óvæntar aðstæður. Það er einstök verðmæt hæfni og þekking sem Ísland þarf á að halda á komandi árum og áratugum. Nú er kominn tími á að kjósa Frú Forseta og alþýðuvæða embættið með því að kjósa sjálfstætt starfandi konu. Þetta verður mitt kefli næstu árin,“ segir hún.
Hverjar voru helstu áskoranirnar á leiðinni að markmiðinu?
„Sjálfsþroski og sjálfsmildi. Þegar lærdómskúrfan er svona brött skiptir meginmáli að vita hver man er, hugsa, tala og hegða sér í samræmi við það. Ég er í óska umhverfinu. Gnægð verkefna, stanslausar nýjar ófyrirséðar aðstæður, fjölbreytt tengsl við fjölda fólks, krefjandi málefni og hér er ekkert sem kemur mér á óvart.
En mig hryggir þó og ég tel það algera tímaskekkju þegar fólk velur að koma fram við dýrmæt kosningaréttindi eins og um hringleikahús sé að ræða í stað þess að velja landsliðsstemmingu. Hér er um valkvætt hugarfar að ræða. Við fáum mun meira út úr kosningaferlinu og frambjóðendum ef við sköpum umgjörð öryggis, forvitni og gleði. Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra. Hér má aldrei gleyma að frambjóðendur eru í atvinnuviðtali úti á torgi fyrir allra augum. Þakklæti, bros og hlý augu kjósenda eru viðeigandi. Það iðka ég og kenni börnunum mínum. Óvægin umræða leynd sem opinber og baktal á fólk er klárt ofbeldi, andlýðræðisleg og samfélagslega meiðandi hegðun og vinnur á móti því að fólk bjóði sig fram. Sýnum samstöðu, rísum upp og yfir og sendum hatursorðræðu varanlega í gröfina.“
Hvað skiptir máli að hafa í huga ef fólk ætlar að ná langt á vinnumarkaði?
„Að þú gleymir því aldrei að til að spenna bogann þarftu að draga vel aftur og miða áður en þú sleppir örinni af stað. Að draga örina aftur þýðir að hvíla sig, gefa eftir, horfa inn á við, komast að því hver mans einstaki tilgangur er. Síðan þarf að miða í þá átt og hæð sem hæfir hverju sinni. Áskoranir og erfiðleikar eru eðlileg þroskakorn, það eru engin mistök í lífinu heldur lærdómskorn. Gefðu þér rými að læra, rýna til gagns, gefa af þér, njóta og síðast en ekki síst verður að vera gaman - annars er svo leiðinlegt. Þú munt sjálfkrafa fara í afbragðsflokk þegar þú nærð að vera sönn/sannur, þegar þú ert þú sjálf/ur, þekkir þig út í gegn og nærð tökum á góðu viðhorfi. Mundu að lífið er vegferð sem ber að þakka fyrir og njóta.“
Hvernig var þinn ferill?
„Minn ferill hefur verið afar fjölbreyttur. Allt frá því að eiga ekki neitt og sinna mörgum láglaunastörfum yfir í að eignast börn og reyna að púsla saman tilverunni. Að hafa þak yfir höfuðið, passa að öllum líði sem best í fjölskyldunni, vera svo yfirhlaðin hlutverkum að ég var með samviskubit yfir öllu, yfir í að vera ótrúlega heppin að geta verið í störfum sem pössuðu við hæfni og þekkingu mína og enda síðan í eigin rekstri og vera ábyrg fyrir afkomu annarra sem með mér starfa. Titlar og metorð hafa aldrei heillað mig, heldur að þjóna samfélaginu, hvort sem er í gegnum hefðbundin eða líknandi störf. Það hefur ávallt verið hægt að finna mig í sjálfboðaliðastörfum alla tíð, það er mikilvægur hluti af mínu eðli að gefa til baka til samfélagsins hvar sem ég fer. Ég er samsál, það er hugsa, tala og hegða mér miklu meira fyrir heildina en nokkurn tímann sjálfa mig.“
Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðum þínum?
„Mælikvarði minn á „uppskeru“ er að ég sé heil á líkama, anda og sál. Að fjölskylda mín hafi það gott, að hjónabandið sé heilt og að manninum mínum líði vel sem hann sjálfur og hafi fullt frelsi til að athafna sig eftir sínu eðli, að ég sé að þjóna samfélaginu sem best. Það er mitt eðli og tilgangur. Lífið er stanslaus lærdómur og ég nýt þess í þakklæti alveg sama hvað á dynur. Markmið hef ég notað til vinnu en ekkert endilega í sjálfsvinnu. Hver lífsfasi hefur sinn takt, sinn ljóma, sínar áskoranir. Mér þykir meira um vert að njóta vegferðarinnar en að elta markmið.“
Hvað gefur vinnan þér?
„Ég hef ávallt haft ánægju og gleði af því að vinna. Atvinnuferill minn hófst þegar ég var 8 ára, þá byrjaði ég að bera út blöð og ég sinnti því alla grunnskólagönguna. Það var hagnaður af mínu uppeldi samkvæmt foreldrum mínum, það er ég átti alltaf peninga og safnaði í sjóði. Síðan tók við fimleikakennsla í menntaskóla og láglaunastörf í þjónustugreinum og þrifum. Í dag elska ég að þjóna, hvetja fólk áfram, skapa störf, vera í fjölbreyttum krefjandi aðstæðum og tengja ólíka hagsmunaaðila saman samfélaginu til góðs og framdráttar. Ég hef lengi starfað í kringum börn og vona að ég hætti því aldrei. Þau eru svo tær í hjarta, óheft og glöð. Það er algerlega manbætandi að umgangast börn sem oftast að mínu mati. Ég spurði börn um daginn „hvernig á ég að vera sem forseti?“ Og þau voru fljót að svara „glöð og góð“. Einfalt. Ég vakna glöð og sofna þakklát og læt góða hluti gerast þess á milli. Að það endurtakist í sífellu.“
Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?
„Forgangsröðun er fyrirmynd. Ofkeyrsla tilheyrir ekki mínu lífi lengur þó hún hafi gert það eðlilega á árum áður, sér í lagi þegar börnin voru yngri og mikið álag á okkur hjónum. Ég hef stundað föstur til margra ára í kjölfar þess að ég gekk í gegnum fæðingarþunglyndi. Föstur hjálpa til við að halda mér á réttum stað og leiðrétta álag, ef þurfa þykir. Ég borða hollt, stunda reglubundna hreyfingu, sæki í kalt vatn (böð, sjósund), Qigong, útivist og samveru við ólíkt fólk. Ég finn tíma fyrir það sem veitir mér ró og gleði. Við kunnum vel að hlaupa hratt og stundum stjórn- og stefnulaust, en við þurfum að æfa okkur í að hægja á, róa okkur og hlusta vel á okkar innri rödd. Hjartað veit hvað við þurfum hverju sinni og hvert við eigum að fara. Það býr allt innra með að okkur. Hlaupum skynsamar og munum að hvíldin gefur okkur margfalt til baka,“ segir hún.
Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar stjórnendur í fyrirtækjum en karlmenn?
„Klárlega. Við erum á réttri leið, en alltof hægfara. Við hreinlega verðum að velja meðvitað og með einlægum ásetningi fjölbreytni og jafnræði eigi síðar en áðan. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum verður jafnrétti náð eftir 300 ár með sömu framgöngu. Það er ástæðulaust að bíða eftir því fljótandi að feigðarósi. Það er engin sjálfbærni án kvenna. Við eigum að stunda fjölbreytni í hvívetna - það er forsenda grósku og framþróunar.“
Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?
„Sem betur fer á ég ofgnótt kvenfyrirmynda og er umlukin mörgum þeirra daglega. Hins vegar er dóttir mín, Snæfríður Ísold, mín stærsta fyrirmynd og ég læri eitthvað nýtt af henni daglega. Fyrir það er ég afar þakklát og vongóð fyrir framtíðina,“ segir Sigríður Hrund.
Ertu með hugmynd um hvernig er hægt að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt?
„Ákveða að svo sé og framkvæma. Gleymum ekki að ákvörðun án framkvæmdar heitir skoðun og skilar engu.“
Hvernig skipuleggur þú daginn?
„Eftir orkunni. Ég passa að hlaða dagskránni ekki of þétt, gera ráð fyrir ferðatíma, taka fundi eins mikið rafrænt og stytta fundi eins og hægt er og eiga rými innan dagsins til að hugsa í friði og/eða hliðra til. Hvoru tveggja er afgerandi mikilvægt, að gefa sér rými til rýni. Það er ekki allt áunnið með hraða og eiga rými til að endurraða því allt og alls konar kemur óhjákvæmilega upp á í dagsins önn.“
Hvernig er morgunrútínan þín?
„Morgnarnir eru sértækir eftir hverjum degi. Ég á það til að læðast í sundlaugina klukkan 06.30 og spæna metra í friði og ró. Lykilatriði er að koma öllum heimilismeðlimum út úr húsinu á réttum tíma. Af og til fæ ég mér kaffibolla og á stund með sjálfri mér eða ef ég er heppin fæ ég Baldur til að deila gæðastundinni. Fer í leikfimi, heita pottinn og kalda pottinn.“
Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?
„Ég hef ekki unnið átta stunda vinnudag í mörg ár. Iðulega er vinnutíminn óreglulegur og þar sem ég á ekki eina staðbundna skrifstofu, heldur er tölvan mín skrifstofan og fundarherbergin þar sem mér hentar, þá skiptir afgerandi máli að raða dagskránni eftir orkunni og hegða sér með heildræna heilsu í huga. Mér finnst afar gott að vinna á kvöldin en að ákveðnum hlutum, til dæmis sit ég oft og prjóna eða sauma um leið og ég er að hlusta. Ólínuleg rafræn dagskrá er stórkostleg uppfinning og ég vel margoft gera tvennt í einu; að þrífa, elda, brjóta saman þvott o.s.frv. um leið og ég hlusta á ráðstefnuerindi, hlaðvörp o.fl. Við hjónin röðum deginum eftir þriðju vaktinni og skiptumst á að kaupa í matinn, ferja dóttur okkar úr skóla í áhugamál og heim o.þ.h. Sem sjálfstætt starfandi foreldrar hafa börnin okkar notið þeirrar lukku að alast upp í okkar fjölbreytta og krefjandi vinnuumhverfi og eru afar sjálfstæð. Það er stærsta atvinnufrelsi og gæfa okkar hjónabands.“
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?
„Ég aðgreini ekki mínar stundir og finnst allt sem ég tek mér fyrir hendur skemmtilegt. Þetta er lífsviðhorf. Ég lifi heildrænt í þrenningum og sinni mér að líkama, anda og sál með hvíld, næringu og hreyfingu með styrk, visku og fegurð að leiðarljósi. Þetta brýst út í t.d. ást á sköpun og list, að sauma, prjóna, skrifa, lesa, syngja, sækni í útiveru, súrefni og kalt vatn. Ég elska lífið og fer eins vel með það og ég get, bæði fyrir mig og annað fólk. Ég er með 6. stig í söng og elska að syngja, finnst afar gaman að prjóna hvar sem ég fer og helst þar sem ég þarf að hlusta lengi. Ég er bæði að refilsauma og kyrtilsauma um þessar mundir og er orðin forfallinn sérvitringur um munsturgerðir á íslenskum þjóðbúningum. Ég er nýbúin að skapa endurgerð á nútíma hversdagskyrtli ásamt Elsu G. Ásgeirsdóttur klæðskera, en það gerði ég af því mig langaði í kjól sem væri líkur hefðbundnum kyrtli en væri til daglegra nota og mögulega hægt að skala upp og gera fínni með skarti. Ég er að refilsauma í gamlan ullarfrakka sem mér finnst gott að ganga í og er að sauma hátíðarkyrtil hjá Annríki. Ekki má gleyma að ég þjáist af blekblæti en góður blekpenni er gulls ígildi. Jóladagatölin mín eru ekki snyrtivörur eða súkkulaði heldur 24 stykki af gæða blekprufum. Ég skrifa á þykkari pappír og kaupi helst notaða penna með sál og sögu fyrri eigenda,“ segir hún.
Sigríður Hrund er stödd í París þar sem hún er með erindi á alþjóðlegri kvennaráðstefnu WYN Global Women Power Summit and Expo 2024. Aðspurð að því um hvað hún ætli að tala segist hún vera mest upptekin af samstöðu.
„The Importance of Solidarity, en það er alger grunnforsenda fyrir sjálfbærri framtíð að konur nái samstöðu og að samstaða sé með konum um allan heim. Fólk verður að velja samstöðu, hún er okkur hvorki eðlislæg né meðfædd. Það er heldur ekki hægt að stunda valkvæða samstöðu, halda með þessari konu en ekki hinni. Það gengur ekki upp. Plokkun á fjöðrum kvenna verður að snarhætta. Það er samfélagslegt mein út um allan heim og lífshættulegt í litlu samfélagi sem Íslandi. Okkur munar um allar hendur upp á dekk nú þegar. Það hefst einungis með því að velja að rísa upp og rísa yfir, með samstöðu.
Samstaða snýst ekki um að vera sammála um öll málefni heldur að við séum samhuga um að standa vörð um grunngildi sem m.a. alþjóðlega viðurkennd mannréttindi, frið á meðal þjóða, að sjálfbærni sé sameiginleg leið allra þjóða heimsins. Ég hlakka afar mikið til að leggja hönd á plóg við að lyfta konum upp og áfram, fá speglun frá öðrum konum og heyra hvað þeim býr í brjósti.
Ég hef nýtt mér fjölbreyttar ráðstefnur til margra ára til að auka þekkingu og móta hæfni með góðum árangri. Bestar þykja mér hlaðnar yfirgripsmiklar ráðstefnur sem reyna verulega á skilningarvitin - þá kem ég þreytt og glöð heim. Það er einmitt þá sem við þroskumst best - að ganga nokkrum skrefum lengra en við þorum og teljum okkur geta. Taktu skrefið og gerðu það nokkrum sinnum - allt í einu er komin gönguleið fyrir aðra og farvegur fyrir bjarta framtíð,“ segir Sigríður Hrund.